Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það má með nokkrum sanni segja að hér hafi verið flutt tímamótaræða. Ég hygg að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hafi sá atburður gerst að hæstv. fjmrh. tali hér úr ræðustól á Alþingi eins og hann komi úr öðrum heimi og sé ekki í neinum tengslum við líf og starf þjóðarinnar.
    Það er almælt eftir nýafstaðinn landsfund Alþb. að lýsingar formannsins sjálfs á því sem þar fór fram séu með þeim hætti að það geti varla verið að hann hafi verið á fundinum eða þá a.m.k. sofandi. Og ræða hans hér um skattamál virðist benda til þess að hann hafi ekki verið í fjmrn. eða a.m.k. setið þar sofandi og viti ekki hvað hann sjálfur hefur verið að aðhafast, hvað þá heldur aðrir sem hafa haft ábyrgð í fjmrn. á undanförnum árum. Að þessu leyti til hygg ég að ræða hæstv. fjmrh. marki tímamót. Það eru gjarnan tímamót á hverjum degi í lífi hæstv. ráðherra og þau eru enn í dag og vafalaust er þetta fyrsta ræða sinnar tegundar frá stofnun lýðveldis á Íslandi.
    Hæstv. fjmrh. fullyrti að meðan Sjálfstfl. hafði húsbóndavald í fjmrn. á árunum 1983--1987 hefði flokkurinn ekki notað þann tíma til þess að beita sér fyrir breytingum á skattlagningu atvinnufyrirtækja og skattlagningu hlutabréfa. Og það lá svona í orðunum að fyrir vikið væri varla mark á því takandi þegar þingmenn flokksins flyttu nú frv. um þessi efni. Sannleikurinn er hins vegar sá að það var eitt af fyrstu verkum Sjálfstfl. í þeirri ríkisstjórn að setja á fót nefnd til þess að gera breytingar á skattlagningu fyrirtækja og skattlagningu hlutabréfa. Það var eitt af fyrstu verkum þáv. fjmrh., Alberts Guðmundssonar, að koma þeim skattkerfisbreytingum fram. Þar var um að ræða mjög veigamiklar og þýðingarmiklar breytingar sem um margt voru nýmæli í íslenskri skattalöggjöf og sýndu ný viðhorf í skattlagningu gagnvart íslensku atvinnulífi. Við gerðum okkur grein fyrir því þá að lengra þyrfti að ganga, en þarna var verið að stíga fyrstu skrefin, mjög mikilvæg skref og um þau náðist samstaða milli þáverandi stjórnarflokka. Þetta var með öðrum orðum fyrsta meiri háttar breytingin sem sjálfstæðismenn beittu sér fyrir í skattamálum í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Annað stærsta atriðið í skattkerfisbreytingum var svo lögfesting staðgreiðslukerfis skatta og sú mikla einföldun og sú mikla lækkun á almennu skatthlutfalli sem þá var lögfest. Það var annað stóra verkefnið sem sjálfstæðismenn höfðu frumkvæði að í þeirri ríkisstjórn.
    Jafnframt var unnið að undirbúningi veigamikilla breytinga á öðrum sviðum í tekjuöflun ríkisins. Frv. var lagt fram um virðisaukaskatt sem er grunnur að þeim lögum sem nú eru í gildi og lokið var undirbúningi að nýrri tollskrá og vörugjaldakerfi.
    Það er hins vegar rétt að það er mikilvægt að menn skipi svo veigamiklum grundvallarbreytingum í ákveðna forgangsröð til þess að framkvæmd þeirra geti farið skýrt og skilmerkilega fram. En það er ekki vandi sem núv. hæstv. fjmrh. þarf að standa frammi

fyrir því að hann hefur ekki beitt sér fyrir neinum grundvallarbreytingum eða staðið að neinum grundvallarbreytingum í tekjuöflunarkerfi ríkisins. Það hafa aðrir gert og aðrir lagt grunninn að.
    Á okkar tíma var talið eðlilegt að breytingin á tekjusköttum einstaklinga hefði forgang og síðan tolla- og vörugjöldin og þá virðisaukaskatturinn. Öll þessi mál hafa gengið fram, þessar stóru grundvallarbreytingar, samkvæmt þeirri áætlun. Það má kannski hins vegar segja og það með gildum rökum að núv. hæstv. fjmrh., sem hefur borið ábyrgð á undirbúningi þess að virðisaukaskatturinn kæmi til framkvæmda með skilmerkilegum hætti, hafi misnotað þann tíma svo illa að þeir aðilar sem búa þurfa við þennan skatt hafa nú gild rök til þess að færa fram mjög harða gagnrýni á undirbúningsstörf núv. hæstv. fjmrh. og hversu erfiðlega hefur gengið að fá fjmrn. og hæstv. ráðherra til þess að taka eðlilegar ákvarðanir og nauðsynlegar ákvarðanir í því sambandi.
    Þetta er nú staða hinna meiri háttar breytinga sem samþykktar hafa verið hér á Alþingi og hvernig að þeim hefur verið unnið, hverjir hafa haft um það forustu og hvernig núv. hæstv. ráðherra hefur klúðrað framkvæmdinni að því er varðar fyrstu skrefin í virðisaukaskatti sem samkvæmt lögunum á að taka gildi um næstu áramót.
    En hvað er það sem hæstv. ráðherra hefur gert? Hver eru nú hans afrek í skattamálunum eftir alla þessa löngu og áferðarfallegu ræðu sem greinilega var flutt einhvers staðar úr öðrum heimi? Hvað er nú það sem hann hefur gert? Jú, hann byrjaði á því að brjóta niður þá einföldun tekjuskattskerfisins sem ákveðin var og lögfest vorið 1987 og hefur boðað áframhaldandi niðurrif og eyðileggingu þess kerfis og jafnvel gengið svo langt í yfirlýsingum sínum um það efni að talsmenn eins stjórnarflokkanna, Alþfl., hafa lýst áhyggjum sínum og jafnvel gefið út yfirlýsingar um það að þeir geti ekki stutt þetta eyðileggingarstarf hæstv. fjmrh. Þetta er kannski í raun og veru eina grundvallarbreytingin í skattamálum sem hæstv. ráðherra hefur unnið að og boðar að hann ætli að koma fram.
    Síðan ákvað hann hér og neyddi í gegnum stjórnarmeirihlutann á Alþingi breytingar á eignarsköttum sem sköpuðu slíkt óréttlæti í þjóðfélaginu að reiðialda fólksins í landinu reis upp. Hann hefur nú, og þeir sem að þeirri samþykkt stóðu, orðið að eta öll stóru orðin ofan í sig og viðurkenna að þeir gerðu meiri háttar mistök.
    Næst þar á eftir ákvað hæstv. fjmrh. í fyrra að gera breytingar á vörugjöldum. Og hann varð líka að eta þær breytingar ofan í sig og játa að með þeim breytingum hefði hann gert mistök.
    Með öðrum orðum: Það eina sem hæstv. fjmrh. hefur gert er það að brjóta niður grundvallarbreytingar sem gerðar voru á tekjuskattslögunum 1987 og þeirri miklu og jákvæðu kerfisbreytingu sem þá var gerð og gera svo hvert axarskaftið á fætur öðru á öðrum sviðum skattheimtunnar. Þetta er það eina sem eftir stendur af verkum núv. hæstv. fjmrh. Þetta er

veruleikinn í skattamálum í dag. Þetta er veruleikinn í fjmrn. í dag. Þetta er það sem fólkið í landinu þarf að búa við í dag.
    Og það þýðir ekkert að koma hér eins og engill úr öðrum heimi og tala hér og flytja áferðarfallegar ræður eins og ekkert af þessu sé að gerast í íslensku þjóðfélagi. Fólkið í landinu veit annað. Fólkið í landinu finnur fyrir öðru. Og það þýðir ekki að tala hér um skattamál rétt eins og atburði á landsfundi Alþb. Það þýðir ekkert að koma hér inn á Alþingi Íslendinga og tala um skattamál eins og atburðina á landsfundi Alþb. Það er ekki hægt að bjóða Alþingi Íslendinga það og það er ekki hægt að bjóða fólkinu í landinu málflutning af því tagi.
    Það er að verða ljóst að innan stjórnarflokkanna er megn óánægja með aðferðir og aðgerðir og stefnu hæstv. fjmrh. í skattamálum. Þessi óánægja gengur svo langt að talsmenn Alþfl., sem eru nú miklir taglhnýtingar Alþb. og hafa jafnvel haft uppi fyrirheit um að ganga í Alþb., hafa lýst því yfir að þeir geti ekki stutt eyðileggingarstarfsemi og eyðileggingaráform hæstv. fjmrh. varðandi tekjuskattinn. Hv. 10. þm. Reykv. hefur tekið fram fyrir hendurnar á fjmrh. og þegar flutt hér frv. inn á Alþingi um lækkun á stimpilgjöldum hlutabréfa. Og af hálfu Framsfl. --- eða a.m.k. hóps manna innan Framsfl. svo ég fari nú ekki með rangt mál um afstöðu Framsfl. í heild --- hefur verið lýst stuðningi við viðhorf af því tagi sem koma fram í skattafrv. sjálfstæðismanna og þau viðhorf hafa verið staðfest hér í þessari umræðu. Hæstv. fjmrh. getur hins vegar ekki tekið undir þetta.
    En hvers vegna eru þessi viðhorf að skapast? Vegna þess að það er brýnt og aðkallandi fyrir íslenskt atvinnulíf að þessar breytingar verði gerðar. Og það er ekki hægt að bíða eftir því að gera umbætur af þessu tagi fyrir íslensk atvinnufyrirtæki, að hæstv. fjmrh. nái því að eyðileggja tekjuskattskerfi einstaklinga eða gera einhvern annan óskunda í skattakerfinu. Atvinnufyrirtækin í landinu mega ekki vera að því að bíða eftir því að hæstv. fjmrh. komi þeim áformum sínum fram. Hér er um að ræða nauðsynlegar umbætur, brýnar, sem þurfa að nást fram vegna hagsmuna atvinnulífsins í landinu.
    Það er ekki verið að mæla fyrir grundvallarkerfisbreytingum í skattamálum atvinnufyrirtækjanna með þessum frv. Það er verið að mæla fyrir veigamiklum breytingum á núgildandi kerfi til hagsbóta fyrir atvinnufyrirtækin og þá sem vilja fjárfesta í atvinnufyrirtækjum og hlutabréfum. Það er rauði þráðurinn og meginuppistaðan í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þess vegna er það alveg út í bláinn að halda því fram að það sé ekki hægt að samþykkja þessi frv. hér og nú á þessu þingi og það fyrir jól vegna þess að nú sé verið að koma í framkvæmd virðisaukaskatti sem áður hafði verið samþykktur hér á Alþingi og stjórnkerfið hafði nægan tíma til að undirbúa þó að hæstv. fjmrh. hafi klúðrað því með því að geta ekki tekið nauðsynlegar ákvarðanir í tíma. Það er ekki gild afsökun í þessu máli. Hæstv. fjmrh. er á flótta í þessu máli sem öðru

og þess vegna er verið að reyna að stilla upp röksemdum af þessu tagi. En þær fá einfaldlega ekki staðist. Það er kjarni málsins.
    Það er ánægjulegt og fagnaðarefni ef hér í þinginu getur skapast breið samstaða um breytingar eins og hér er verið að mæla fyrir um og mjög verðugt að hæstv. fjmrh. sitji úti í horni og horfi á það gerast. Það væri í samræmi við annað í hans fjármálastjórn og hans pólitíska ferli.
    Ég vænti þess að þau frv., sem hér er verið að fjalla um, fái vandaða meðferð í nefnd og að reynt verði að koma því svo fyrir að það verði unnt að samþykkja þau sem lög frá Alþingi fyrir áramót þannig að þau geti komið til framkvæmda sem fyrst.
    Auðvitað er það rétt að það sem skiptir meginmáli fyrir atvinnufyrirtækin er rekstrarafkoman og hin almennu rekstrarskilyrði í þjóðfélaginu og hin almennu rekstrarskilyrði sem íslensk atvinnufyrirtæki búa við. En hvernig hefur nú hæstv. fjmrh. staðið að verki í því efni? Hann er hér að færa fram fullyrðingar þess efnis að vegna breytinga á raungengi horfi nú vænlegar í þeim efnum en áður. Skýtur nú nokkuð skökku við frá stóru yfirlýsingunum frá því í fyrra.
    Það er að vísu rétt að á síðari hluta þessa árs hefur gengi krónunnar breyst
nokkuð í rétta veru. Á því var full þörf. Og sannleikurinn er auðvitað sá að það dróst í heilt ár að gera þær nauðsynlegu breytingar, að keyra fram þær nauðsynlegu breytingar á raungengi krónunnar sem atvinnulífið þarf á að halda. Þær ákvarðanir þurfti að taka heilu ári fyrr. En í stað þess að taka þær ákvarðanir á réttum tíma var horfið hér til fortíðarhyggju og efnahagsúrræða af ýmsu tagi, sem ég hélt að bæði Íslendingar og allar aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu hefðu sagt skilið við fyrir meira en þremur áratugum síðan, millifærslu og gengisfalsana. Það var gerð tilraun til þess að láta íslenskt atvinnulíf ganga með erlendum lántökum. Afleiðingin er auðvitað sú að erlend lán eru nú meiri en áður, hærra hlutfall af landsframleiðslu en þau hafa verið um langan tíma og stefnir í Íslandsmet á næsta ári. Og greiðslubyrðin af útflutningstekjum hefur þyngst verulega. Auðvitað kom að því að menn urðu að horfast í augu við staðreyndirnar og er nú ekki mikið að hrósa sér af þó að menn hafi meira en ári of seint horfst í augu við það að það þurfti að breyta raungengi krónunnar. En skaðinn var skeður. Og áhrifin sem það hefur haft á atvinnulífið að draga hinar réttu ákvarðanir og nauðsynlegu ákvarðanir í heilt ár eru býsna miklar. Forustumenn og starfsmenn og stjórnendur í atvinnulífinu vita af því og þýðir lítið að flytja ræður af því tagi sem hæstv. fjmrh. gerði hér áðan og freista þess að mála þá mynd í öðrum litum en raunveruleikinn segir til um.
    Það er þess vegna sama hvar borið er niður í ræðu hæstv. ráðherra. Hún er hvarvetna einhvers konar flótti frá veruleikanum eða skilningsskortur á því sem er að gerast í þjóðfélaginu og mesta undrun vekur auðvitað að hæstv. ráðherra virðist ekki átta sig á því hvað hann hefur í raun og veru verið að gera í fjmrn.

    En hitt skiptir öllu máli, ef hér getur skapast samstaða þeirra manna í þinginu úr röðum stjórnarandstöðu og stjórnarflokka sem skilja að lengur verður ekki dregið að gera breytingar og koma fram nýrri stefnu og viðhorfum í skattamálum í samræmi við nútímaviðhorf og hagsmuni atvinnuveganna. Og það er ekki hægt að bíða með þær breytingar eftir því að hæstv. fjmrh. vinnist tími til að halda áfram skemmdarverkum sínum. Það er kjarni málsins.