Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson tók sér nokkurra vikna frí frá Alþingi og fór út í heim. Hv. alþm. höfðu kannski vænst þess að þingmaðurinn hefði sótt sér efni í nýja ræðu á þessum tíma. En hvað skeður? Hann kemur hér upp og flytur gömlu, góðu Heimdallarræðuna sem hann er búinn að flytja allt þetta þing og meginþorrann af síðasta þingi: Slagorð, sleggjudómar, kjaftæði. Ekki málefnaleg innlegg heldur upphrópanir.
    Það er alveg velkomið, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, að fara hér í ítarlegar umræður um stjórn Sjálfstfl. á fjmrn., afstöðu Sjálfstfl. til skattlagningar atvinnufyrirtækjanna og hvernig Sjálfstfl. skildi eftir atvinnulífið í rúst á Íslandi þegar hv. þm. hrökklaðist út úr Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Það er velkomið að fara út í þá umræðu. Það er velkomið að rekja rækilega efnahagslegu áhrifin af þeim skattabreytingum sem hv. þm. beitti sér fyrir í tengslum við kjarasamningana því að ef það er eitthvað eitt sem er orsökin að efnahagslegum óförum Íslendinga á undanförnum árum, þá eru það þær breytingar, enda veit hv. þm. sjálfur að það eru stærstu pólitísk mistök sem hafa verið gerð í skattamálum og stjórn íslenskra efnahagsmála á þessum áratug.
    Og það er líka auðvitað alveg velkomið að spyrja hér rækilega: Hvar voru tillögur Sjálfstfl. 1983--1987 um heildarsamræmingu skattlagningar atvinnulífsins á Íslandi? Þær voru auðvitað ekki til, komu hvergi fram þar sem sú mismunun sem ríkir í skattlagningu einstakra atvinnugreina, iðnaðar, verslunar, sjávarútvegs og landbúnaðar væri lögð af. Hvar eru þær tillögur? Hvergi. Hvar eru tillögur Sjálfstfl. frá þeim tíma um að stíga stór skref til að samræma íslenska skattakerfið skattakerfinu í helstu viðskiptalöndum okkar? Þær eru auðvitað hvergi til. Og það sýnir best hvað vörnin er fátækleg að hv. þm. þurfi að hlaupa í þau frumvörp sem hæstv. fyrrverandi ráðherra og þingmaður, Albert Guðmundsson, flutti á fyrstu missirum sínum sem fjmrh. til að finna einhver dæmi um það að Sjálfstfl. hafi haft áhuga þegar hann stjórnaði í fjmrn. á að gera eitthvað í skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi.
    Ég veit, virðulegi forseti, að það er áhugi á því að taka annað mál á dagskrá sem einn af varaþingmönnum flytur hér svo að hann geti mælt fyrir því áður en hann fer út af þingi. Ég kýs hins vegar að þessari umræðu verði haldið áfram. Ég vil gjarnan fá að ræða þessa slagorðakenndu ræðu sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson flutti hér. Ég vil gjarnan fá að ræða við hann nákvæmlega hvernig Sjálfstfl. skildi við atvinnulífið á Íslandi vegna þess að það þýðir lítið að koma hér og slá sér á brjóst og þykjast vera einhver sérstakur gæðingur skattkerfisbreytinga í þágu atvinnulífsins þegar sami maður hefur verið aðalbrennuvargurinn í því að kveikja í atvinnulífinu á Íslandi og skilja það eftir í rúst, vegna þess að atvinnurekendur á Íslandi og forsvarsmenn

atvinnulífsins spurðu ekki fyrir ári síðan um skattbreytingar. Þeir vissu það að þeir voru að róa slíkan lífróður að það voru ekki skattkerfisbreytingarnar sem voru aðalatriðið heldur allt annað sem þurfti til að bjarga atvinnulífinu sjálfu.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur hins vegar mjög málefnalega bæði hér í dag og áður reifað það frv. sem hér er á dagskrá. Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur mjög málefnalega lagt drög að því að hér geti farið fram umræða um ólíkar áherslur, forgangsatriði og síðan útfærslur þeirra breytinga sem þarf að gera á skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi. Það hefur verið mjög málefnalegur málflutningur, efnislegur og skýr, sem eitthvað var á að græða, m.a. vegna þess að í ræðum hv. þm. Friðriks Sophussonar fólst ýmislegt nýtt í málflutningi hér.
    Og það er satt að segja synd að hv. þm. Þorsteinn Pálsson í sínum gamla Heimdallar-slagorðakennda-stíl með ræðu sem við erum búin að heyra 20, 30 og 40 sinnum hér á hv. Alþingi skuli --- ( Forseti: Mig langar að inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann getur lokið ræðu sinni á einni mínútu, því fundi verður slitið hér kl. 4.) já, --- að hann skuli vera að eyðileggja fyrir hv. þm. Friðriki Sophussyni þá málefnalegu umræðu um skattlagningu atvinnulífs á Íslandi sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur haft frumkvæði að að hér færi fram og sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson lagði einnig mörg efnisatriði inn í.
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan gera hér hlé á ræðu minni, fresta henni ef virðulegur forseti ætlar að slíta fundi, og er reiðubúinn að taka aftur til máls í beinu framhaldi og flytja framhald þessarar ræðu þegar málið kemur aftur á dagskrá.