Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. hleypur úr sal. Hann hefði gjarnan mátt vera við þó að ég sé að spyrja flokksbróður hans því ég geri ráð fyrir að þetta mál snerti hann líka.
    Tilefni þessarar fsp. er að í athugasemdum við fjárlagafrv. undir kaflaheitinu ,,Áætluð ráðstöfun útflutningsbóta á árinu 1990`` segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Stjórnvöld munu hins vegar beita sér fyrir því að draga úr birgðum kindakjöts sem nemur samdrætti í framleiðslu. Samkvæmt því skulu birgðir minnka um allt að 600 tonn fyrir lok verðlagsársins. Þá munu birgðir kindakjöts í landinu verða um 1540 tonn við upphaf slátrunar 1990.`` Og svo legg ég sérstaklega áherslu á það sem nú kemur á eftir, hæstv. landbrh., en þar segir enn fremur: ,,Ætlunin er að Framleiðnisjóður landbúnaðarins noti hluta ríkisframlags á næsta ári til að efla markaðsstarf innan lands sem fellur undir verkefni sjóðsins, sbr. 37. gr. laga nr. 46/1985 og reglugerð nr. 406/1986.``
    Þetta er, hæstv. landbrh., tilefni fsp. minnar en þar er sérstaklega eftir því leitað að fá fram skoðanir hæstv. ráðherra á því hvort heimilt sé að fara svo með fjármuni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem athugasemdir fjárlagafrv. skýra frá að gert muni verða.
    Í öðru lagi legg ég á það áherslu að fá fram skoðun hæstv. landbrh. á því hversu mikið fjármagn þarf til að ná fram þeirri söluaukningu sem hér er gert ráð fyrir upp á 600 tonn af kindakjöti.
    Nú er það svo að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur mikilvægum verkefnum að sinna og að fjármagni hans eða fjármunum hefur verið að mjög stórum hluta ráðstafað. Þess vegna er spurt alveg sérstaklega um skoðun ráðherrans á því hvort fjárhagur sjóðsins sé með þeim hætti að hægt sé að taka þetta fjármagn úr honum þó að menn virði ekki lög og brjóti reglur.