Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hinn 11. maí 1988 samþykkti Alþingi einróma þál. um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu. Þál. var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að kjósa hlutbundinni kosningu nefnd níu alþingismanna til þess að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkanlega með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað.
    Nefndin skal kanna áhrif þessara ákvarðana og líklegrar þróunar í Evrópu á íslenskt efnahagslíf og meta þær leiðir sem álitlegastar eru til þess að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að þeim breytingum sem fram undan eru. Í starfi sínu skal nefndin hafa samráð við samtök atvinnulífsins. Nefndin skili skýrslu um athuganir sínar og tillögur fyrir 1. apríl 1989.``
    Nefndin hóf þegar störf og valdi formann sinn Kjartan Jóhannsson, en varaformaður var kjörinn Eyjólfur Konráð Jónsson og ritari hv. þm. Kristín Einarsdóttir. Undir frábærri forustu Kjartans Jóhannssonar var síðan unnið allt þar til í lok júlímánaðar sl. þegar Kjartan sagði af sér þingmennsku og þar með störfum í nefndinni. Nefndin samþykkti þá að hv. þm. Eiður Guðnason yrði áheyrnarfulltrúi með fullu málfrelsi í nefndinni, en hann var síðan kosinn í hana í upphafi þings nú í haust. Einnig var hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson þá kosinn í nefndina, en hæstv. ráðherra Hagstofu Júlíus Sólnes hafði þá sagt af sér nefndarstörfum.
    Eins og í ályktuninni greinir var starfssvið nefndarinnar æði víðtækt og verður að segja þá sögu eins og hún er að nefndinni tókst ekki að skila tillögum fyrir 1. apríl sl. og hefur raunar enn ekki tekist að ljúka því verki.
    Segja má að þáttaskil hafi orðið um mánaðamótin júlí/ágúst sl. þegar nefndin lauk við útgáfu fimm bæklinga um Evrópubandalagið og samskipti Íslendinga við það. Fram til þess tíma hafði nefndin haldið 33 fundi og m.a. fóru nefndarmenn allir á sl. vetri í viku ferðalag til Genfar og Brussel til viðræðna við ráðamenn EFTA og Evrópubandalagsins. Var sú för hin nytsamlegasta.
    Í upphafi starfa sinna skrifaði nefndin fjölmörgum samtökum atvinnulífsins bréf þar sem óskað var álits á því málefni sem tillagan fjallar um. Heldur lítið varð um svör sem e.t.v. er ekki hægt að gagnrýna þar sem málið var í deiglunni og þekking á framvindu þess takmörkuð og kannski má segja að hún hafi verið það fram á síðustu tíma.
    Í ágústmánuði lágu störf nefndarinnar niðri, enda var þá mikið um fjarvistir eins og títt er á þeim árstíma, en í septembermánuði var tekið til óspilltra málanna og síðan hafa verið haldnir 10 nefndarfundir og nú upp á síðkastið hefur verið rætt við samtök atvinnulífsins bæði af hálfu vinnuveitenda og eins launþegasamtök. Hafa þeir umræðufundir verið nefndarmönnum geysimikilvægir og vonandi hafa viðmælendur nefndarinnar einnig nokkurn hagnað haft

af umræðum þeim sem fram hafa farið. Síðasti fundur var með samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútegi nú sl. þriðjudag og skýrðu viðmælendur nefndarinnar þar sjónrmið sín á mjög afdráttarlausan og skilmerkilegan hátt.
    Ég taldi mér skylt í upphafi máls míns að gera framanritaða grein fyrir störfum nefndarinnar, því að svo æxlaðist þegar Kjartan Jóhannsson hvarf af landi burt að ég varð formaður nefndarinnar og er það enn. Að öðru leyti mun ég ekki ræða þessi störf nú nema þá að gefnu tilefni en að sjálfsögðu munu nefndarmenn gera grein fyrir sínum sjónarmiðum hér í umræðunum og hafa sumir þegar gert. Er mér heimilt að greina frá mínum sjónarmiðum nákvæmlega á sama hátt og þeir gera grein fyrir sínu mati á aðstæðum.
    Ég vil nú í upphafi ræðu minnar taka undir ummæli hv. þm. Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstfl., þess efnis að sjálfsagt sé að Íslendingar haldi áfram störfum í EFTA, enda hef ég trú á því að störfin þar hafi þegar borið verulegan árangur, m.a. þann að EFTA-ríkin hafa lýst yfir fríverslun með fisk. Krafa var um það gerð af hálfu hæstv. forsrh. og raunar líka hæstv. utanrrh. í samræmi við álit EB-nefndarinnar, en ráðherrarnir ræddu þau mál ítarlega við nefndarmenn áður en Oslóarfundurinn svokallaði var haldinn. Skylt er að þakka einarða afstöðu þeirra á Oslóarfundinum en af kröfugerð um að fríverslun yrði með fisk var aldrei látið og samkomulag um að svo skyldi verða náðist á síðustu mínútum fundarins.
    Á Oslóarfundinum var sýnd sú einurð í sanngirnismáli sem sjálfsögð er og algjörlega nauðsynleg í mestu hagsmunamálum þjóðarinnar.
    Þrátt fyrir þá afstöðu sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur einróma samþykkt um að störfin í EFTA skuli halda áfram er fjarri lagi að Sjálfstfl. telji að vinnan á næstu vikum og mánuðum eigi að einskorðast við umræður um gagnkvæm samskipti EFTA og Evrópubandalagsins. Þvert á móti er það afdráttarlaus skoðun innan flokksins að þau sjónarmið sem fulltrúar í samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi hafa sett fram, m.a. á blaðamannafundi í fyrradag og á fundi Evrópunefndarinnar sl. þriðjudag, séu rétt. Þ.e. að beinar viðræður eigi að taka upp við æðstu ráðamenn Evrópubandalagsins um breytingar á bókun 6 sem
allir þekkja, en hún var gerð 1972 þótt hún tæki ekki gildi fyrr en að afloknum deilum okkar við Breta árið 1976.
    Þessi bókun hefur fram undir þetta verið okkur mjög hagstæð en nú eru aðstæður allar breyttar eins og samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi hefur rækilega bent á.
    Þjóðir þær sem kaupa mestan saltfisk af Íslendingum eru nú orðnar aðilar að Evrópubandalaginu og þess vegna leggjast nú miklu hærri tollar á útflutningsvörur Íslendinga til Evrópubandalagsins vegna útflutnings á saltfiski en fyrirhugað var með bókun 6. Það er fullkomið

sanngirnismál að Evrópubandalagið endurskoði þessi ákvæði þannig að þeir tollar sem leggjast í heild á útflutningsvörur okkar til bandalagsins verði a.m.k. hlutfallslega ekki hærri en þeir skyldu vera samkvæmt bókun 6. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að í samskiptum við bandalagið værum við í sömu sporum og við vorum 1972
og 1976 en byggjum ekki við miklu lakari kjör ef tollur á saltfiski væri settur í svipað form eins og er á öðrum fiski. Þess vegna er þetta svo augljós sanngirniskrafa að með ólíkindum er að ekki skuli hafa verið eftir gengið.
    Við Íslendingar höfum fellt niður tolla á meginþorra iðnaðarvarnings frá EB-löndum til Íslands og eigum því siðferðilegan rétt á því að svipaðra viðhorfa gæti af hálfu Evrópubandalagsins þegar það leggur tolla á okkar innflutning til bandalagsins.
    Um bókun 6 er það annars að segja að hún er besta sönnun þess að það er algjörlega rangt mat og misskilningur að Evrópubandalagið hafi það að stefnu sinni að krefjast veiðiréttinda í stað tollfríðinda. Hvergi í þeim skjölum er ég hef haft aðgang að varðandi aðdragandann að bókun 6 kemur það t.d. fram að nokkurt Evrópubandalagsríki hafi svo mikið sem ýjað að því í alvöru að í stað tollfríðinda samkvæmt bókun 6 ættu að koma veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu, enda hefði slíkt aldrei verið tekið í mál.
    Ekkert sannar betur hve fávíslegar þær fullyrðingar eru að bandalagið hafi um langa tíð, jafnvel allt frá Rómarsáttmálanum 1957, krafist veiðiheimilda hvenær sem það semur um tollaívilnanir. Það er fráleitt. Hitt er annað mál að í samskiptum bandalagsríkjanna sjálfra er sameiginleg stefna varðandi fiskveiðar. Það er hin sameiginlega stefna Evrópubandalagsins og henni má ekki blanda saman við viðskiptasamninga bandalagsins við þá sem fyrir utan það standa. Þarna er meginmisskilningurinn fólginn. Það er alltaf verið að rugla saman þeirri stefnu sem bandalagið hefur varðandi fiskveiðar þjóða innan bandalagsins við samningagerðir út á við. Það er reginmisskilningur. Það eru engar slíkar reglur sem gilda í samskiptum við utanaðkomandi ríki.
    Þetta kom raunar glöggt fram í ræðu hæstv. forsrh. hér í gær þar sem hann greindi frá þeim ummælum Mitterrands Frakklandsforseta að þegar ekki væri um aðild að bandalaginu að ræða kæmu vissulega til greina undanþágur varðandi fiskveiðar. Einmitt þess vegna m.a. er aðild ekki á dagskrá og við höfum verið sammála hér á hinu háa Alþingi um að aðild að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá. Í mínum huga hefur sú skoðun ekki hvað síst byggst á því að við eigum einmitt að halda opnum möguleika til að semja við bandalagið án þess að hin sameiginlega fiskveiðistefna þess geti tekið til okkar. Hún gerir það ekki í dag og mun ekki gera nema við færum að ganga í bandalagið. Ef við gengjum í Evrópubandalagið kynni raunar að vera að við fengjum einhverjar undanþágur eitthvert tímabil. En þær yrðu ekki langvarandi. Þá mundi stefna þess

væntanlega verða ríkjandi í þessu ríki eins og öðrum. Annars hefur hún nú reynst með þeim hætti, þessi sameiginlega fiskveiðistefna þeirra, að stofnarnir eru í meiri og minni útrýmingarhættu og eilífur slagur er um kvótana. Ég held að það sé orðinn verri frumskógur en hér hjá okkur og fá ríki eru ánægð með þau ósköp sem þar ganga á.
    Raunar ætti öllum að vera það ljóst að Evrópubandalagið hefur gert og er að gera samninga bæði til austurs og vesturs um gagnkvæmar tollaívilnanir eða beina fríverslun. Að nokkrum manni komi til hugar að blanda fiskveiðiréttindum inn í slíkar umræður og samningagerð er ofvaxið mínum skilningi. Það eru þess vegna því miður, eða kannski sem betur fer, hreinir hugarórar og órökstuddar fullyrðingar að Evrópubandalagið krefjist ætíð veiðiheimilda þegar rætt er við það um tollaívilnanir. Eða svo ég spyrji nú eins og fávís kona eða fávís karl: Hvaða fiskveiðiréttindi eru ráðamenn Evrópubandalagsins að ásælast í Sviss? Hvaða veiðiréttindi eru þeir að ásælast í Austurríki svo að ekki sé nú nefnt Ungverjaland, Pólland eða Sovétríkin sjálf.
    Evrópubandalagið hefur gert mörg hundruð samninga við ýmsar þjóðir um viðskiptamálefni án þess að nokkrar fiskveiðiheimildir bæri þar á góma og það væri ósvinna og ekkert annað ef þeir menn sem ferðinni ráða í Evrópubandalaginu ætluðu að blanda kröfum um veiðiréttindi inn í eðlilegar óskir okkar um endurskoðun á ákvæðum bókunar 6. Enn óskiljanlegra er það þegar íslenskir ráðamenn hafa orð á þessari endaleysu.
    Í annan stað er þess að gæta að allt frá árinu 1986 þegar de Clercq, einn ráðamesti maður Evrópubandalagsins á þeim tíma, kom hingað til lands og rætt var um samskiptamálefni Evrópubandalagsins og Íslands var samkomulag beggja
aðila að einungis yrði efnt til þess sem á erlendu máli er kallað ,,dialog`` eða rabb, tvítal eða hvernig sem menn nú vilja þýða þetta orð. Aldrei var tekið í mál að fiskveiðiréttindi gætu blandast inn í slíkar viðræður.
    Þennan kafla langar mig mjög til þess að hæstv. utanrrh. gefi sér tíma til að hlusta á. Ég þarf kannski ekki að endurtaka það sem ég var að segja meðan ráðherrarnir voru að tala saman, en ég hef þetta skrifað að mestu leyti og get afhent það. Ég var að tala hér um díalóg, tvítal. Það hefur reyndar verið rætt um það hvaða orð hefur verið notað yfir það rabb sem farið hefur fram milli Íslendinga og Evrópubandalagsins á undangengnum árum.
    En þessari eindregnu stefnu sem ég var að lýsa hafa íslensk stjórnvöld fylgt mjög fast eftir allt fram á síðustu tíma og er mér hulin ráðgáta hvers vegna nú er farið að ræða um eitthvað allt annað, umboðslaust frá þingi og þjóð því ekki veit ég til þess að umboð hafi verið gefið til slíkra umræðna.
    Mér hnykkti því við í fyrrakvöld er ég heyrði í seinni fréttum sjónvarps að hæstv. utanrrh. sagði eitthvað á þá leið að það væri misskilningur af hálfu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi að unnt

væri að halda áfram eða taka upp að nýju tvíhliða viðræður við EB þar sem fjallað væri um breytingar á bókun 6 eða samskiptamálefni Íslendinga við Evrópubandalagið yfir höfuð. Hæstv. utanrrh. sagði, það skrifaði ég hjá mér, ég held að það sé orðrétt: ,,Evrópubandalagið býður ekki upp á viðræður um tolla nema það fái veiðileyfi eða veiðiheimildir.`` Þetta heyrðist mér hæstv. ráðherrann segja.
    Við þessi ummæli er því miður ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi getum við ekki ætlast til þess að Evrópubandalagið hafi frumkvæði að því að bjóða okkur upp á verulegar tollalækkanir ef við flytjum ekki sjálfir fram rök fyrir þeirri sanngirni, nefnum ekki þau rök sem ég áður hef getið, segjum ekki að bókun 6 þýði allt annað og miklu minna fyrir Íslendinga nú heldur en hún þýddi þegar bandalagið var miklu minna og keypti sáralítinn saltfisk af okkur. Þetta ætti að vera öllum mönnum augljóst. Bókun 6 er ekki jafnmikilvæg fyrir okkur og hún var áður. En tollfríðindin á vörum Evrópubandalagsins eru jafnmikilvæg fyrir það, þó að hér sé auðvitað lítill markaður, eða mikilvægari en þau voru áður því að meira að segja eru hér fleiri vörutegundir frá Evrópubandalaginu tollfrjálsar nú en voru áður, gagnstætt því sem er í Evrópubandalaginu. Ég skil ekki að menn skuli ekki geta flutt þessi rök og ótal mörg fleiri fyrir því að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið.
    Í annan stað er þess að gæta að síðstu tvær vikurnar hafa öll viðhorf gjörbreyst og það sem kann að hafa verið rétt áður varðandi samningaviðræður EB við önnur ríki og ríkjasamtök verður nú að skoða í allt öðru ljósi því að meðal æðstu manna Evrópubandalagsins er talað um að allt sé hægt að gera og allt geti gerst. Má í því sambandi minna á ummæli Mitterands Frakklandsforseta í heimsókn hans hér sem allir þekkja. Enginn talar t.d. lengur um það að ekkert megi gera fyrr en eftir 1992 eða 1995. Það er allt að gerast, það er allt á fleygiferð.
    En af því að ég vék hér aðeins að þeim rabbfundum sem menn hafa talið að ættu að fara og geta farið fram og sagði að þeir hefðu a.m.k. tíðkast frá 1986, þá er ég hér með 4. rit Ísland og Evrópa sem gefið er út af nefnd um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu í maí 1989. Þar er vitnað til þess að ærið mikið lengra sé síðan menn gerðu sér það ljóst að veiðiheimildir á Íslandsmiðum mundu Evrópubandalagslöndin aldrei fá. Ætla ég að vekja athygli þeirra sem vildu kynna sér málin betur á bls. 30--32 í þessu 4. hefti. Þar segir t.d. í skýrslu embættismanna um umræður um það leyti sem bókun 6 var að taka gildi: ,,Þær hófust í júlí 1976 milli embættismanna og framkvæmdastjórnar EB. Tvennar viðræður fóru fram í Reykjavík 12. nóv. og 25.--26. nóv. 1976 milli Finns Olavs Gundelachs og Einars Ágústssonar utanrrh. og Matthíasar Bjarnasonar sjútvrh., en 1. des. 1976 rann út samkomulagið um veiðar breskra togara í íslenskri fiskveiðilögsögu án þess að Bretar fengju frekari fiskveiðiheimildir.`` Það var bara sjálfsagður hlutur. Það var ekki talað um

fiskveiðiheimildir. Því var lokið. Ef einhvern tímann var ,,snakk`` um það var því lokið á þessum degi. Og síðan heldur áfram orðrétt, herra forseti: ,,Í frásögn íslensku viðræðunefndarinnar af fundinum 12. nóv. 1976 eru þessi athyglisverðu ummæli höfð eftir Gundelach sem aldrei síðan hefur verið farið hátt með af bandalagsfulltrúum: ,,Alveg sérstaklega vildi hann láta koma skýrt fram að EB hygðist ekki blanda verslunarviðskiptum í málið.```` Og síðan er fundað árið 1977 og þá segir að tímabært sé nú að efna til almennra pólitískra viðræðna um stöðu samskipta bandalagsins og Íslands og innan sviga: ,,general political conversation on the state of the relations between the Community and Iceland``.
    Þetta er nú allt og sumt sem þá var sagt. Nú er farið að segja eitthvað allt, allt annað 12 árum síðar. Það geti vel komið til greina að þeir fái einhverjar veiðiheimildir. Og enn er fundað í endaðan júní 1977 og þar segir: ,,Þar ítrekuðu Íslendingar að ástand fiskstofnanna væri svo slæmt að ekki gæti orðið um nein fiskveiðiréttindi að ræða fyrir bandalagið. Fulltrúar EB lögðu áherslu á pólitískt mikilvægi þessara viðræðna.`` Síðan er fundað 3. sept. 1977
og enn er það Gundelach sem við sögu kemur og þá segir hann að ekki væri hér um neina skyndilausn að ræða, heldur áframhald díalógs sem hann teldi hafa borið góðan árangur. Og síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Hann sagði enn fremur að hann væri ekki að þrýsta á um endurkomu breskra togara á Íslandsmið eða komu neinna togara --- ástand þorskstofnsins leyfði það ekki. Hann væri ekki með í huga einstakan vanda heldur vildi hann koma sambandi Íslands og EB á jákvæðan framtíðargrundvöll.``
    Hafa menn gleymt þessu öllu eða kannski aldrei lesið það, þeir sem eru nú að bjóða upp á veiðiheimildir ýmist einhliða eða með einhverjum skiptum á veiðiheimildum, að opna dyrnar? Þeir ættu að lesa sér betur til.
    Skylt er að geta þess og raunar líka ánægjulegt að hæstv. utanrrh. dró verulega í land þegar hann sagði í ræðu sinni í gær að við hefðum farið báðar leiðirnar, EFTA-leiðina og leið tvíhliða samninga. En því miður bætti hann við orðunum: ,,Hvað getum við látið á móti? og svarar sér sjálfur: Við höfum talað um að skipt verði á veiðiheimildum og því verður haldið áfram.`` --- Að skipt verði á veiðiheimildum og því verði haldið áfram, segir hæstv. ráðherra hér í gær. Ég segi: Því verður ekki haldið áfram því að til þess er ekkert umboð frá þingi eða þjóð og verður aldrei. Það er rétt að ráðherrarnir geri sér grein fyrir þessu. Það er hvorki meiri hluti fyrir því hér á Alþingi né meðal þjóðarinnar að fara að bjóða erlendum veiðiskipum hér inn, skipum frá hinum gífurlega flota Evrópubandalagsins þó það eigi í fyrsta umgangi að heita einhver skipti á veiðiréttindum. Þeir hafa ekkert að bjóða fram þar að auki.
    Málin standa því einfaldlega þannig nú, a.m.k. get ég ekki séð þau í öðru ljósi en því, að allt getur gerst og allt er að gerast sem menn fyrir fáum vikum töldu

útilokað að væri á næsta leiti. Það er sú mynd sem við okkur blasir núna síðustu vikurnar. Það virðast sem sagt allar dyr vera opnar sem áður voru harðlæstar og síst af öllu situr á okkur að læsa dyrum sem áður voru opnar, þ.e. viðræðum um samskiptamálefni Íslands og Evrópubandalagsins almennt og um bókun 6. Ætlum við að loka þeim? Við getum valið um þessar tvær leiðir. Annars vegar að opna þennan díalóg, þetta rabb, sem margfjallað er um og hefur verið gert allar götur síðan 1977. Þá hafa báðir aðilar verið tilbúnir til að halda svona rabbfundi og hafa gert það, haldið þá ýmsa. Eða þá hina leiðina sem bestu rökin eru nú fyrir að fara, að endurskoða bókun 6.
    Af því að hæstv. forsrh. er kominn hér langar mig að benda honum á röksemd sem kannski hefur ekki heyrst alveg skýrt áður fyrir endurskoðun á bókun 6. Hún er sú að núna, eftir að þau ríki sem kaupa mest af okkar saltfiski, sem mest er tollaður í bandalaginu, eru gengin í það, er bókun 6 auðvitað ekki hlutfallslega nærri því eins mikilvæg fyrir okkur Íslendinga eins og áður.
    Hins vegar er hlutfallslega enn þá meiri mismunun. Það hafa verið felldir niður margir tollar á vörum frá Evrópubandalaginu til okkar. Þess vegna væri algjört sanngirnisatriði, sem ætti að vera hægt að leysa mjög auðveldlega, að fá menn til að setjast niður og reikna þetta dæmi út, þó að ég fari nú ekki fram á neitt meira. Enn þá eru raunar líka tollar á Íslandi á vörur Evrópubandalagsins. Þá getum við líka kannski metið. Enn þá er eftir eitthvað af tollum og við getum notað það sem verslunarvöru, en landhelgina notum við aldrei sem verslunarvöru. Ég hélt að menn væru farnir að skilja það.
    Og reyndar gat ég þess hér áður, hæstv. forsrh., að þú hefðir einmitt í gær sagt okkur frá því ánægjulega sem Mitterrand benti á, að þegar ekki væri um aðildarríki að ræða væri auðvitað hægt að gera undanþágur og semja um hvað sem væri, en þá gildir auðvitað ekki þessi sameiginlega fiskveiðistefna. Hún gildir fyrir bandalagsríkin sjálf en alls ekki önnur ríki. Allt það er tilbúningur, bara hugdettur. Auðvitað eru allir hlutir teknir með í almenna umræðu. Það væri hægt að orða náttúrlega námugröft okkar í Þýskalandi o.s.frv. í staðinn fyrir að eitthvað af fólki mundi fara á skíði upp á Vatnajökul eða eitthvað. Það eru auðvitað allir slíkir hlutir opnir. En að segja að það sé eitthvert skilyrði fyrir viðræðum um tollafríðindi okkar að við gefum bandalaginu fiskveiðiheimildir, það er fráleitt.
    Í slíkum viðræðum yrðu æðstu menn okkar lands að koma til skjalanna, hvor leiðin sem farin yrði, þó að viðræðurnar yrðu vafalaust undirbúnar af embættismönnum eins og títt er. Það sýnist vera einsýnt. Þegar ég tala um æðstu ráðamenn á ég þar auðvitað við hæstv. forsrh. og/eða hæstv. utanrrh., e.t.v. með fulltingi stjórnarandstöðu, og það mun þá ábyggilega ekki standa á Sjálfstfl. a.m.k. að leggja því lið. Hitt hefur verið og er misskilningur og mistök að sjútvrh. taki upp viðræður um tollafríðindi og sé í

sama orðinu að tala um fiskveiðiréttindi við þá menn eina, innan Evrópubandalagsins, sem telja það embættisskyldu sína að gæla við fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum þó að þeir viti að þau fá þeir aldrei. Ég er ekki að leggja mat á hæfni hvers ráðherrans fyrir sig --- þessara þriggja ágætismanna --- til samningagerða. Það er bara rangt að senda sjútvrh. sem hefur verið dreginn inn í umræður um fiskveiðimálefni á fundi til þess að gæta þessara mikilvægustu hagsmuna okkar --- það er skyldustarf annars hvors þeirra, hæstv. forsrh. eða utanrrh. Ég dreg ekkert í efa að allir þessir ráðherrar, þegar þeir hafa verið á sínum
ferðalögum, hafi reynt að koma sem flestu til leiðar og innleiða þessi mál. En ef slíkar samningaviðræður eru teknar upp á það auðvitað að vera á hæsta grundvelli þeirra manna sem eru ráðamenn á Íslandi annars vegar og í bandalaginu hins vegar.
    Það mætti hafa mörg orð um allt þetta en ég ætla að spara mér þau á þessu stigi, enda ríður nú á að við reynum að sameinast en ekki sundrast því að lífshagsmunir þjóðarinnar eru vissulega að veði.
    Ég vil því ljúka máli mínu á því að fagna skýrslu utanrrh. sem hann hefur lagt fram, þar á meðal málsgreininni á bls. 11 þar sem fjallað er um fiskveiðimálefni. Þar segir, með leyfi forseta, varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir: ,,... lýstu EFTA-ríkin því yfir að samningur ætti að tryggja fríverslun með þær afurðir. Fulltrúar framkvæmdastjórnar lýstu því að að því er bandalagið varðaði, þá væri fríverslun tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskimálastefnu þess. Fulltrúar EFTA lögðu áherslu á að slík tenging á hverjum þeim samningaviðræðum er síðar færu fram mundi ganga gegn grundvallar þjóðarhagsmunum. Báðir aðilar viðurkenndu að af þessum ástæðum yrði nákvæmt innihald þeirra ákvæða sem sett væru á þessu sviði augljóslega að verða samningsatriði.`` Undir þetta tók ég. Ég féllst á þessar skýringar þegar á fundi utanrmn. fyrir tveimur til þremur vikum, taldi að þetta væri alveg eðlilegt orðalag og get gert það alveg eins opinberlega. Það er alveg ljóst að þó að þetta sé alveg lausbeisluð yfirlýsing væri ekki hægt að ná neitt lengra á hvoruga hliðina á þessu stigi. Það er svo margt eftir órætt enn og því auðvitað samningsatriði eins og svo margt, margt fleira, enda er þess getið í þessari málsgrein sjálfri.
    Ég vil aðeins rifja það upp hér og nú að innan framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins fer stjórnardeild 14 með fiskveiðimál. Hún er minnsta stjórnardeildin af 22 með 60--70 manna starfsliði, en starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar eru að nálgast tvo tugi þúsunda starfsmanna. 20.000 starfsmenn eru í þessum deildum, 22 deildum, og þar af 60--70 manns í þessari svokölluðu stjórnardeild 14 um fiskveiðimálin.
    Það eru þrjár undirdeildir í þessari stjórnardeild 14, A-deild sem fjallar um markaðsmál og alþjóðleg samskipti, B-deild sem fjallar um fiskveiðistjórnun og C-deild sem sér um uppbyggingu í veiðum og vinnslu og fjallar um þróunarstyrki.

    Þess er að gæta að í Evrópubandalaginu eins og það nú er eru samanlagðar tekjur EB-ríkja af fiskveiðum og fiskvinnslu aðeins 1,14% af þjóðartekjum þeirra allra í heild, svo örsmár er sjávarútvegur þeirra, ég endurtek 1,14% af samanlögðum þjóðartekjum eða landsframleiðslu EB-ríkjanna allra. Í öllu skrifstofubákni EB, sem þenst nú út og er að verða miðpunktur heimssögulegra atburða, eru áhrif þeirra sem að sjávarútvegi starfa nánast engin þótt þau varði okkur gífurlega miklu eins og allir vita.
    Í Evrópu snúast hjól nú svo hratt að menn vita varla hvar vagninn muni verða næsta dag. Allar gamlar heitstrengingar og kreddur eru þess vegna liðinn tími. Við þurfum þess vegna ekki að þrátta um hann þó að ekki hafi verið hjá því komist að gefnu tilefni að benda á að dyr okkar til frekari samskipta við Evrópubandalagið eru enn opnar, þar á meðal til tvíhliða samskipta.
    Enga ástæðu hef ég til að ætla annað en að hæstv. utanrrh. og samstarfsmenn hans hafi staðið sig vel, hið besta, í vandasömum störfum þegar Íslendingar gegna forustuhlutverki í EFTA og er ljúft að óska þeim góðs gengis í mikilvægum störfum næstu vikurnar. En offörum skulum við ekki fara.
    Að lokum vil ég setja fram þær skoðanir mínar að við þurfum ekki að óttast frjálsan flutning fjármagns né frjálsa þjónustu á ýmsum sviðum viðskipa. Við höfum raunar alltaf frekar verið á höttunum eftir erlendu fjármagni en það gagnstæða.
    Raunar hefur meginvandi okkar um áratuga skeið verið sá að við skyldum ekki fyrir langalöngu taka upp frjálsræði í peningamálum og er mér nær að halda að viðreisnin 1960 væri í meginatriðum enn við lýði og framfarir hefðu því orðið miklu meiri en raun ber vitni ef þá strax hefðu verið tekin upp frjáls kaup og sala á gjaldeyri, algjörlega frjáls gjaldeyrisviðskipti og þar með fjármagnsflutningar að sjálfsögðu.
    Þetta munu menn sjálfsagt deila um en varla hitt að við þurfum með löggjöf á margháttuðum sviðum að tryggja að meginauðlindir okkar, þ.e. auðlindir efnahagslögsögunnar, og raunar hafsbotnsins sem nær langt út fyrir hana, og orkulindir verði um alla framtíð undir yfirráðum og stjórn Íslendinga sjálfra.
    Það gerum við með löggjöf hér á Alþingi en ekki með samningum. Í því sambandi er þess að geta að EB-nefndin er sammála um að nærtækasta verkefni hennar nú sé einmitt að huga að þessu efni og það mun nefndin gera.