Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Tilefni óskar um utandagskrárumræðu um löggæslu og öryggi borgaranna er m.a. sá alvarlegi atburður sem átti sér nýlega stað í miðborg Reykjavíkur er öflug sprengja var sprengd í áður friðsælu íbúðahverfi. Minnstu munaði að þetta tilræði yrði tveimur ungmennum að fjörtjóni. Þetta er í annað skipti á þessu ári sem einhverjir óþekktir aðilar hafa í frammi þennan hættulega verknað og hin mesta mildi að ekki skuli hafa af hlotist alvarleg slys eða manntjón.
    Framangreindur verknaður hefur sett mikinn óhug í marga Reykvíkinga og víða er spurt: Hvað gerir hið opinbera til að reyna að koma í veg fyrir verknað sem þennan? Hvernig stendur á því að ekki tekst að upplýsa og koma í veg fyrir atburði sem þennan eða hliðstæð, síendurtekin ofbeldisverk? Getur hið opinbera ekki tryggt lágmarksöryggi borgaranna?
    Í umræðunni beinast spjótin oft að löggæslumönnum og þeir vændir um hæfileikaskort og dugleysi. Ég tel það alrangt og tel það lýsa fáfræði almennings í landinu um hversu illa er búið að íslenskri löggæslu.
    Á sl. tveim árum hef ég gert mér sérstakt far um að kynna mér löggæslumál á Íslandi og alveg sérstaklega aðbúnað íslenskra löggæslumanna. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að af hálfu hins opinbera, Alþingis og framkvæmdarvaldsins, þ.e. ríkisstjórnar, er hörmulega illa staðið að þessum málum. Því fer víðs fjarri að hinum öru og breyttu þjóðfélagsaðstæðum hafi verið mætt sem skyldi. Á Alþingi Íslendinga hefur ríkt ákveðið tómlæti um þessi mál og dómsmálaráðherrar á síðustu árum hafa ekki haft neitt jákvætt frumkvæði í þessum efnum í samræmi við nýjar og auknar kröfur um eflda löggæslu.
    Svo rammt hefur kveðið að þessu að lögreglumennirnir sjálfir í Lögreglufélagi Reykjavíkur þurftu á síðasta ári að hafa frumkvæði að úttekt á ástandi þessara mála. Úttektin leiddi m.a. í ljós að löggæslumenn í landinu eru allt of fáliðaðir, tækjabúnaður vegna löggæslumála var ófullnægjandi, áhersluatriði af hálfu hins opinbera voru röng, lítið var gert til að mæta nýjum og breyttum aðstæðum svo sem á sviði umferðarmála og í baráttunni við vaxandi fíkniefnaglæpi. Þá skorti algerlega skýra stefnumörkun um mikilvægi forvarnarstarfs á sviði löggæslumála. Engin fjárframlög eru í fjárlögum til þessa mikilvæga málaflokks, þ.e. forvarnarmála í baráttunni gegn auknum afbrotum í nútímaþjóðfélagi.
    Virðulegur forseti. Á síðasta þingi lögðum við nokkrir þingmenn Sjálfstfl. fram till. til þál. um eflingu löggæslu. Till. fylgdi ítarleg grg. um stöðu þessara mála. Því miður fékkst till. ekki afgreidd á síðasta þingi. Hún verður endurflutt á yfirstandandi þingi og mun hafa verið dreift í dag.
    Það er skoðun mín að Alþingi Íslendinga og hæstv. ríkisstjórn beri alfarið ábyrgð á því ófremdarástandi sem er að skapast í löggæslumálum. Öryggi

borgaranna er teflt í mikla tvísýnu ef svo heldur áfram sem nú horfir. Við eigum á að skipa góðu liði löggæslumanna en það er allt of fáliðað og ekki nægilega vel að því búið. Hér verður að verða breyting á. Taka verður þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar með það að markmiði að tryggja betur vernd og öryggi borgaranna. Hæstv. dómsmrh. er því beðinn að upplýsa hvort hann hyggst gera hér einhverjar breytingar til hins betra og þá hverjar.