Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi leggja hér örfá orð í belg og byrja á því að þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir að taka þetta mál fyrir í þessari örstuttu utandagskrárumræðu. Það er óhætt að taka undir það sem hann sagði hér að það verður að taka þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar með það að markmiði að tryggja betur vernd og öryggi borgaranna.
    Þetta mál er auðvitað stóralvarlegt hér í Reykjavík, en það nær miklu víðar, það nær a.m.k. hér yfir allt höfuðborgarsvæðið.
    Það ber að fagna því sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að hann hugsar sér að gjörbreyta áherslum í skipulagi starfsemi lögreglunnar, þ.e. að leggja áherslu á forvarnarstarf og eftirlit og vissulega ber að fagna því. En það dugar ekki til eins og lögreglan er fáliðuð nú og ég held að það sé alveg ljóst að það verður ekki hjá því komist ef á að verða eitthvert gagn að aukinni löggæslu að fjölga lögreglumönnum.
    Það vill nú svo til að við þm. Reykjaneskjördæmis erum að koma af fundi með bæjarstjórn Garðabæjar og einmitt eitt af þeim málum sem bæjarstjórnin þar lagði ríka áherslu á voru löggæslumálin, eða lögreglumálin. Þeim hafði borist bréf frá Lögreglufélagi Hafnarfjarðar þar sem greint var frá starfsskilyrðum á löggæslusvæði lögreglunnar í Hafnarfirði. Bæjarráð hefur fjallað um þessi mál og þar kom fram að skipan löggæslumála er ekki talin hafa breyst á undanförnum mánuðum þrátt fyrir áskoranir bæjarstjórnar á yfirvöld dómsmála um úrbætur í þeim efnum og að bæjarstjórn hafi boðið þeim afnot af húsnæði án endurgjalds fyrir lögregluvarðstofu sem er talin skipta miklu máli. Því hefur ekki verið sinnt.
    Ég vildi nota tækifærið til að skjóta þessu að, að taka þarf þessi mál í heild til endurskoðunar og ekki verður hjá því komist að efla löggæsluna með því að fjölga lögreglumönnum og bæta þeirra aðstöðu á allan hátt.