Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. gerði hér í fyrri viku ágæta grein fyrir stefnu okkar framsóknarmanna varðandi afstöðuna til EFTA og viðræðunnar við Evrópubandalagið. Ég hef litlu við það að bæta en vil þó leggja nokkrar setningar hér inn í þessa umræðu, m.a. með tilliti til þess að þetta er vafalaust afdrifaríkasta mál sem Alþingi fjallar um á þessum vetri og væntanlega á næstu þingum.
    Það er fyrst til að taka að ég tel að aðild Íslendinga að Evrópubandalaginu komi ekki til greina, hvorki nú eða um fyrirsjáanlega framtíð. Við getum ekki játast undir hið yfirþjóðlega vald bandalagsins því að þá væri fórnað á skömmum tíma ekki aðeins sjálfstæði okkar heldur væri þjóðmenningu okkar einnig stefnt í hættu. Í öðru lagi höfum við ekki leyfi til, afkomenda okkar vegna, að deila auðlindum okkar með þjóðum Evrópubandalagsins. Okkur veitir ekki af að nýta þær sjálfir.
    Á hinn bóginn er tilvist þessa bandalags staðreynd sem við fáum ekkert að gert. Við eigum og þurfum að hafa mikil viðskipti og samskipti við Evrópubandalagsríkin og þess vegna er það okkur mjög mikilvægt að ná góðum samskiptaháttum við bandalagið. Við erum Evrópuþjóð og ætlum að halda áfram að
vera það. Það er hins vegar mikill misskilningur að halda að veröldin sé ekkert nema Evrópubandalagið. Það er misskilningur sem virðist því miður allt of útbreiddur í þessu þjóðfélagi. Því miður kenndi þeirrar minnimáttarkenndar og örvæntingar í ræðum sumra þeirra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls.
    Það hefur verið aðalsmerki okkar að ekkert stjórnmálaafl á Íslandi sem vill láta taka sig alvarlega hefur gert því skóna að við ættum að sækja um fulla aðild þrátt fyrir það að skoðanakannanir sýni að einhver hópur þegnanna vilji aðild án þess að vita neitt um hvað í henni fælist. Þetta hefur borið því vitni að þeir sem hafa kynnt sér málefnið hafa ekki viljað ljá máls á að sækja um aðild. Það vakti mér því furðu og óhug þegar aldamótanefnd Sjálfstfl. birti tillögur sínar á landsfundi flokksins þar sem stungið var upp á því að Ísland ætti að sækja um aðild og síðan yrði metið hvað út úr samningum kæmi. Þetta er að mínu mati mjög óskynsamleg leið og útilokað að hún leiddi til farsælla málalykta. Hin rétta leið er auðvitað sú að reyna EFTA-leiðina, þ.e. að leggja til að EFTA taki upp viðræður við Evrópubandalagið.
    Forsrh. setti fram af Íslands hálfu ákveðna fyrirvara á fundi forsætisráðherra EFTA-ríkjanna í Osló sl. vor. Þessir fyrirvarar eru auðvitað algjört grundvallaratriði þess að við getum verið aðilar að samningaumleitunum EFTA. Við höfum ekki fyrirvara um fríverslun, við krefjumst aukin heldur að fríverslunin nái til fisks og fiskafurða. Hins vegar höfum við hvað varðar fullt frelsi fjármagnshreyfinga, fullt frelsi vinnuaflshreyfinga og fullt frelsi þjónustuviðskipta ákveðna fyrirvara. Og ef við höfum þessa fyrirvara í heiðri þá er okkur óhætt og ráðlegt

að taka þátt í viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins.
    Sú hugmynd hefur komið upp að við Íslendingar ættum að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Þetta held ég að sé mjög óraunsætt sjónarmið. Við eigum engan kost á tvíhliða viðræðum eins og stendur. Það er ekki á dagskrá hjá Evrópubandalaginu að leggja í tvíhliða viðræður við einstök ríki.
Austurríkismenn eiga t.d. ekki kost á tvíhliða viðræðum eins og þeir hafa sótt um. Jafnvel þó að við vitnuðum til bókunar 6 þá gildir einu hvað sjálfstæðismenn segja um það efni. Það byggist allt saman á óraunsæi og undraverðum ókunnugleika.
    Maður getur svo spurt sig til hvers þessar viðræður muni leiða. Ég er út af fyrir sig ekki mjög bjartsýnn á að þær leiði til auðfenginnar lausnar. Ég er ekki eins bjartsýnn og t.d. hv. 8. þm. Reykv. var hér í fyrri viku sem því miður neitar staðreyndum ítrekað og telur að aldrei hafi verið neinn áhugi hjá Evrópubandalaginu að komast yfir fiskveiðiréttindi hér í staðinn fyrir ívilnanir um tolla. Ég vitna til bls. 17 í skýrslu utanrrh.:
    ,,Fulltrúar framkvæmdastjórnar EB lýstu því að, að því er bandalagið varðaði, þá væri slík fríverslun [þ.e. fríverslun með sjávarafurðir] tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskimálastefnu þess.`` --- Ég endurtek: Slík fríverslun væri tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskimálastefnu þess. --- ,,Fulltrúar EFTA lögðu áherslu á að slík tenging í hverjum þeim samningaviðræðum sem síðar færu fram myndi ganga gegn grundvallar þjóðarhagsmunum. Í niðurstöðum stjórnarnefndar viðræðnanna sagði síðan að af þessum ástæðum yrði nákvæmt innihald hverra þeirra ákvæða sem sett væru inn á þessu sviði augljóslega að verða samningsatriði.``
    Þess vegna er það þreytandi að þurfa að hlusta á fluglæsa og bráðskarpa þingmenn sem láta sér sjást yfir svona texta. Það er auðvitað góðra gjalda vert að nota ekki landhelgina sem verslunarvöru og ég er alveg sammála hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni, sem því miður er ekki staddur á þessum fundi, um það. En það að loka augunum fyrir staðreyndum er óraunsæi. Eins og ég sagði áðan höfum við alls ekki efni á því að hleypa flota Evrópubandalagsins í
fiskistofna okkar. En Evrópubandalagið sýnir okkur klærnar og það þýðir ekkert að láta eins og við tökum ekkert eftir því.
    Þegar lát Stalíns heitins barst til Siglufjarðar á sínum tíma þá varð sósíalístískri úrvalskonu að orði: ,,Hvað verður nú um okkur?`` Ég spyr eins og konan: Ef samningar EFTA og Evrópubandalagsins leiða ekki til viðunandi niðurstöðu fyrir okkur Íslendinga, hvað verður þá um okkur? Jafnvel þó svo illa færi þá er ekki allt glatað, sem betur fer. Við getum prófað tvíhliða samninga svo fremi að þá hafi skapast hjá Evrópubandalaginu vilji til tvíhliða viðræðna. Beri þeir ekki árangur þá höfum við áður þurft að breyta um útflutningsmarkaði. Það neyddumst við til að gera t.d. í landhelgisdeilunni og lifðum þó af. Við eigum

ákveðna möguleika á auknum viðskiptum í Vesturheimi, Austur-Evrópu, Austurlöndum fjær og e.t.v. víðar. Þess vegna er of snemmt að gefa sér það að við verðum að tengjast Evrópubandalaginu hvað sem það kostar. Það má ekki kaupa það of dýru verði. Það má ekki kaupa það því verði að við glötum sjálfsákvörðunarrétti okkar, sjálfstæði eða þjóðmenningu.
    Frú forseti. Evrópa er í mótun. Ég er ekki sannfærður um að allir þeir draumar sem menn dreymir í Brussel verði að veruleika 1992. Þetta byggi ég á því að Evrópubandalagið er ekki bandalag fólksins, ekki bandalag þjóðanna. Það er bandalag stjórnvalda í 12 Evrópulöndum sem vilja vernda fyrirtæki sín gegn samkeppni utan frá með því að reisa Kínamúr utan um Vestur-Evrópu. Ég held að fólkið, þjóðirnar í hinum einstöku löndum komi til með að hægja á þessari ferð. Frakkar vilja halda áfram að vera Frakkar og Bretar vilja halda áfram að vera Bretar, en ekki borgarar í einhverjum óskilgreindum bandaríkjum Evrópu. Ég á heldur ekki von á því að önnur EFTA-ríki stingi okkur af og komi sér inn í Evrópubandalagið. Það er ekkert launungarmál hjá þeim sem ráða ferðinni í Brussel að þeir telja hernaðarsamvinnu svo mikilvæga að lönd utan NATO eigi ekkert erindi inn í bandalagið. Þegar af þeirri ástæðu eiga Austurríki, Svíþjóð, Finnland og Sviss ekki kost á aðild nema með því að fórna hlutleysisstefnu sinni. Noregur á hins vegar möguleika á fullri aðild ef svo færi að meiri hluti í Noregi skapaðist fyrir því, þ.e. meðal norsku þjóðarinnar.
    Evrópubandalagið er í eðli sínu ólýðræðisleg stofnun og ákvarðanir eru oftast teknar fjarri því fólki sem þær snerta og af fólki sem að meiri hluta þekkir lítið til staðhátta, eða skoðana eða tilfinninga þeirra sem ákvarðanirnar koma niður á. Þess vegna vil ég undirstrika sérstaklega mikilvægi þess að Íslendingar játist ekki undir hið yfirþjóðlega vald bandalagsins.
    Við gerum hér stórfenglega tilraun með að halda uppi sjálfstæðu menningarríki 250 þús. manns. Það er okkur öllum fyrir bestu að sú tilraun takist. Hún tekst hins vegar ekki ef skoðanir þeirra, sem leynt og ljóst hafa hafið baráttu fyrir inngöngu okkar í Evrópubandalagið, verða ofan á.
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. yfirgripsmikla skýrslu og vona og legg til að ríkisstjórnin samþykki fyrir sitt leyti að ganga til viðræðna EFTA og Evrópubandalagsins, enda sé haldið til haga fyrirvörum Íslands.