Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ætli ég segi ekki eins og hv. 4. þm. Vestf. Ég kem ekki hér til þess að andmæla þessu frv. en ég kem heldur ekki til að fagna því. Mér finnst efni þess allt vera á þann veg að það skipti í sjálfu sér óskaplega litlu máli hvort frv. verður að lögum eða ekki. Alls ekki út frá því hvort það eigi að fara að byggja upp einhverja þróunaraðstoð eða aðstoð við nýhugmyndir eða þess háttar því að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir að það verði hægt að gera eitt eða neitt vegna þess að tekjurnar vantar.
    En staðreyndin er sú að frv. er sjálfsagt ekki fyrst og fremst flutt vegna nýrrar stofnunar við Fiskveiðasjóð Íslands, heldur til þess að kasta rekunum á Fiskimálasjóð, þá ágætu stofnun sem á undanförnum áratugum hefur styrkt og staðið að ýmsum þróunarverkefnum í sjávarútvegi.
    Eins og hæstv. ráðherra nefndi var fiskimálanefnd stofnuð 1935 og byrjaði strax í upphafi að standa fyrir mjög merkilegum tilraunum í sambandi við hraðfrystiiðnað á Íslandi, var forustuaðili í þeim málum, hrinti í framkvæmd þeirri atvinnugrein, stóð fyrir því að hafist var handa á þeim vettvangi. Skil okkar við þessa ágætu stofnun eru á þann veg, eins og hér kemur fram í skýringum með frv., að um síðustu áramót mun eiginfjárstaða, eins og núna er kallað, þ.e. höfuðstóll eins og sagt er á gömlu íslenskunni hér í skýringunum, hafi verið um 14 millj. kr. og eftir því sem mér var sagt fyrir skömmu síðan mun höfuðstóll fyrirtækisins ekki vera mikið meiri en 3 millj. í dag.
    Fiskimálasjóður stendur sem sagt þannig að þar er engin von lengur um líf nema með því móti að einhver opinber stofnun taki hann upp á sína arma. Því seinna sem þetta verður gert, því meiri hætta er á því að sú stofnun verði hreinlega að borga með þessari ágætu stofnun okkar. Staðreyndin er sem sagt sú að Fiskimálasjóður hefur verið óvirk stofnun á undanförnum árum. Allt of langan tíma, ekki aðeins frá 1986 í sambandi við sjóðabreytingarnar heldur nokkur ár þar á undan. Og nú er sem sagt verið að koma hér með frv. til að hv. Alþingi samþykki að þessi stofnun verði lögð niður. En til þess að heldur minna beri á því hvað hefur gerst um þessa stofnun hefur um leið verið lagt til að myndaður verði viðauki, eins og sagt er, við Fiskveiðasjóð Íslands, svokölluð þróunardeild.
    Það er í sjálfu sér ekki mikið hægt að spjalla um þann þáttinn vegna þess, eins og ráðherra nefndi, að ekki hefur verið ákvarðaður neinn tekjustofn til þessarar þróunardeildar þó að samt hafi verið haft í huga við uppbyggingu frv., eins og hæstv. ráðherra sagði, að verulegur hluti tekna slíkrar deildar mundi koma frá sjávarútveginum. Þá er gengið út frá því að þessari deild verði stjórnað af núv. stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands. Ráðherra nefndi að um þetta hefðu verið skiptar skoðanir og ég vil láta það koma fram að ef úr því yrði að þessi sjóður fengi tekjustofn, hvort sem það yrði að verulegum hluta frá

sjávarútveginum eða, eins og ráðherra nefndi líka, með beinu ríkisframlagi, teldi ég það óeðlilegt að stjórn Fiskveiðasjóðs fengi umsýslu með þessari stofnun líka. Ég tel að sú aðferð sem notuð hefur verið til þess að velja menn í stjórn Fiskimálasjóðs væri eðlilegri í sambandi við ráðstöfun fjár úr stofnun sem hér er verið að tala um að verði stofnuð eða stutt að í framtíðinni. Um aðra hluti í sambandi við lögin sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða.
    En ekki síður nú en 1935 þegar fiskimálanefnd var stofnuð er mikil þörf
fyrir að hér verði til sjóður sem getur veitt fjármagn til ýmissa þróunarverkefna, nýverkefna á breiðu sviði í sambandi við sjávarútveginn. En þó að þetta frv. hér verði samþykkt, þá gerist því miður allt of lítið.
    Hv. 6. þm. Vesturl. fagnaði þessu frv. og fjallaði þó nokkuð mikið um hugmyndir sem Kvennalistinn hefði lagt fram í sambandi við fiskveiðistefnuna sem þm. taldi að gætu að vissu leyti tengst þessu frv. Þar hefði verið bent á tekjuleið og bent á þætti sem æskilegt væri að standa að og styrkja. Það er alveg greinilegt að það hefði verið mjög æskilegt fyrir hæstv. sjútvrh. að Kvennalistinn hefði verið með í ríkisstjórninni og að tillögur Kvennalistans hefðu komist að við uppbyggingu þessa frv., bæði í sambandi við markmið frv. og svo einnig að hægt hefði verið að huga að því að í frv. væri ákveðinn tekjustofn sem væri hægt að byggja frv. á og framvindu mála í framhaldi af því.