Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég tek undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði að þetta orðalag um viðauka er ekkert aðalatriði. Ég tók það líka skýrt fram, það er formsatriði. En ég ítreka að ég hygg að ekki séu fordæmi fyrir svona orðalagi. Hæstv. ráðherra sagði að þetta helgaðist af því að talað væri um sérstaka deild við Fiskveiðasjóð, þessa þróunardeild. Það heldur ekki. Það eru fjölmörg dæmi um að í sömu lögum séu, ekki einungis um einn sjóð og einhverja deild við þann sjóð, heldur séu í sömu lögum ákvæði um tvo eða fleiri sjóði og eru þó sömu lögin án viðauka þannig að þetta er ekki skýring sem heldur. Ég tek undir það sem ráðherra sagði og óska sérstaklega eftir því að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, sjútvn., athugi þessa formgalla sem ég ætla að séu á frv.
    Hv. 3. þm. Vestf. tók það fram að hann væri harðari í sinni gagnrýni á þetta frv. en ég og ég verð að viðurkenna það. Og ég verð líka að viðurkenna að ég finn vanmátt minn gagnvart hv. 3. þm. Vestf. þegar kemur að því byggja á fyrirætlunum hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar. Ég gat ekki skilið betur af máli hv. 3. þm. Vestf. en það væri í gangi einhverjar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. sem væru nú ekki skemmtilegar, því með brögðum væri verið að vinna að því að koma á auðlindaskatti og það frv. sem við höfum hér fyrir framan okkur væri ljós vottur þess ( KP: Ég mun ekki hafa orðað það svo.) --- en væri vottur þess. En hv. þm. sagði meira. Hann sagði að það væri verið að leiða menn í gildrur með þessu frv. og hann talaði um klæki hæstv. sjútvrh. eða klókindi hæstv. sjútvrh. í þessu efni og það væri, eins og hann orðaði það, vísvitandi verið að leiða menn í gildru. Og það gagnrýnisverðasta væri að þetta væri gert í krafti þingmeirihluta á Alþingi. Þetta eru náttúrlega mjög alvarlegar ásakanir. Og ég verð að segja að ég kemst ekki hjá því að líta á þetta. Ég virði það við hv. 3. þm. Vestf., að þetta er sjálfsásökun hjá honum því að mér er ekki kunnugt um annað en að hann sé í þessum þingmeirihluta sem sú ríkisstjórn byggist á sem stendur að þessum aðförum sem hann lýsti svo skilmerkilega. ( KP: Þetta er rangt hjá hv. þm.) Þá hef ég misskilið hv. 3. þm. Vestf. ef þetta er ekki rétt sem ég hef hér tilgreint og hann leiðréttir það þá, því allra síst vildi ég hafa hv. 3. þm. Vestf. fyrir rangri sök. Hann hefur nægilegt að bera þó það bætist ekki við.
    En ég vík aðeins nánar að því sem hæstv. sjútvrh. sagði. Ég lagði mikla áherslu á það að aðalatriðið í þessu máli sem við hér ræðum er náttúrlega að skapa fjármagn, skapa tekjur til að ráðstafa í þær þarfir sem þróunarsjóðnum er ætlað að vinna að og Fiskimálasjóði var áður ætlað að vinna að. Í framsöguræðu sinni var það á hæstv. ráðherra að skilja, eins og ég tók reyndar fram í minni fyrri ræðu, að eðlilegt væri að sjávarútvegurinn sjálfur stæði undir þessum kostnaði og legði fram þessar tekjur, en hann væri ekki þess umkominn í því ástandi sem hann er

nú undir núverandi stjórn fiskveiðimála.
    Í síðari ræðunni kom hæstv. ráðherra með annað. Hann sagði að ríkisstjórnin væri í vandræðum með fjárlögin svo að þess væri ekki heldur að vænta að á þeim vettvangi væri hægt að gera neitt með beinu framlagi úr ríkissjóði. Það virðist vera sama hvar drepið er niður í þessu máli. Ríkisstjórnin og stjórnarstefna er alls staðar þröskuldur í vegi fyrir því að hægt sé að gera eitthvað raunhæft í þessum þróunarmálum.
    Hæstv. ráðherra hafði sér eitt til afsökunar. Hann sagði að sjóðurinn væri dauður. En hann virðist ekki hafa það í huga að það hefur verið vakið upp frá dauðum.