Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp):
    Herra forseti. Það er líka til að nota tímann að ég kveð mér hljóðs um þingsköp. Það er athyglisvert og verður ekki á móti mælt að í þessari hv. deild hafa stjórnarsinnar aldrei mætt eins illa og nú í vetur og samt er liðsauki, tveggja manna liðsauki. Hvar er liðsaukinn? Hvar er ráðherrann, hæstv. ráðherrann? ( Gripið fram í: Hagstofuráðherrann.) Hvar er hann, ráðherra Hagstofunnar að sjálfsögðu, nýliðinn. Og hvar er formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar? Það er ekki hægt að ætlast til þess að við stjórnarandstæðingar jafnvel drögum úr ræðuhöldum, semjum um það kannski við sjálfa ráðherra að fresta til 2. umr. að taka svona einhverja rispu til þess að greiða fyrir framgangi mála og koma þeim til nefnda og síðan er ekki hægt að fá nema kannski í hæsta lagi 2 / 3 af stjórnarsinnum til að mæta á fundum. Þetta er auðvitað ekki viðunandi og það er nauðsynlegt að vekja á þessu athygli. Þetta hefur ekki þekkst áður. Þegar mjög naumt hefur verið á þinginu, kannski eins atkvæðis munur í hvorri deild, hafa menn gjarnan sýnt tillitssemi, en þegar mætir ekki nema helmingur stjórnarþingmanna á fundum í mikilvægustu málum er auðvitað engin ástæða til að við stjórnarandstæðingar séum að hjálpa til.