Gjaldheimtan í Reykjavík
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem voru skýr og ótvíræð. Það hafa sem sé komið fram nokkrar skýringar á því hvers vegna þetta uppgjör dróst. Auðvitað er þetta óeðlilegt en kann að eiga sér skýringar þær sem fjmrh. hefur hér gefið vegna þeirra skattkerfisbreytinga sem áttu sér stað.
    Það er rétt og eðlilegt að þessi samskipti verði öll endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og í rauninni held ég að það hljóti að verða afleiðing slíkrar endurskoðunar að uppgjör fari oftar fram og að þær upphæðir sem dregst að greiða séu vaxtareiknaðar eins og gengur og gerist í eðlilegum viðskiptum og þá sé alveg sama á hvorn aðilann hallar. Ég held að slíkt hljóti að vera góðir viðskiptahættir og eðlilegir. Að öðru leyti þakka ég ráðherranum fyrir svörin og tel mikilvægt að fram hefur komið að þessi samskipti ríkisins og Gjaldheimtunnar í Reykjavík verða nú endurskoðuð.