Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þennan fund mikið. Það er búið að ræða þetta mál allítarlega bæði í gær og í dag þannig að það er kannski ekki mjög miklu við að bæta. Hins vegar er hér verið að ræða frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem sett er fram í skjóli þeirra ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hafa virðisaukaskatt í einu þrepi, 24,5%, og þá að sjálfsögðu grípur hæstv. fjmrh. tækifærið og leggur fram íþyngjandi skattafrv. á allan meginþorra almennings í landinu.
    Það er búið að fara allítarlega yfir það hér úr þessum ræðustól að tekjuskattsbyrðin mun aukast allverulega á meginþorra alls almennings í landinu. Hefur verið sýnt fram á það með dæmum útreiknuðum af sérfræðingum bæði ASÍ og BSRB og reyndar fleiri sérfræðingum sem allir virðast sammála um það að skattbyrði alls meginþorra almennings eykst verulega. Hins vegar komast sérfræðingar fjmrn. að annarri niðurstöðu, en það er nú eins og fyrri daginn með þá ágætu sérfræðinga að þeirra verk hrósa þeim ekki í gegnum tíðina. Og verður að segjast að ef maður ætti að velja þarna á milli þessara aðila þá er ekki spurning í mínum huga að hagfræðingar ASÍ og BSRB fara örugglega öllu nærri sanninum heldur en sérfræðingar fjmrn.
    Þetta frv. skiptist í fjóra meginliði. Það er tekjuskatturinn, það er eignarskatturinn, það er vaxtaþátturinn og það er þáttur fyrirtækja. Ég get í sjálfu sér fagnað því sem snýr að fyrirtækjunum, þar er vissulega skref í rétta átt. Ég hafna hins vegar vaxtaþættinum sem hér hefur verið allítarlega komið inn á og kemur mjög ójafnt niður á fólki. En það sem ég vildi aðallega fá sagt hér við þetta tækifæri, og mun reyndar fá að fjalla nánar um þetta mál
í fjh.- og viðskn. þar sem Frjálslynda hægriflokknum hefur nú verið veittur þar áheyrnarfulltrúi, er eignarskattsdæmið. Að vísu er Frjálslyndi hægriflokkurinn svarinn andstæðingur allra eignarskatta og vill helst ekki sjá þá en það er engu að síður nauðsynlegt að ræða þá. Og vissulega, ef hægt er að lina þær þjáningar sem sá skattur veldur, þá erum við reiðubúnir að taka þátt í því þó við viljum helst sjá á bak þeirri skattlagningu, enda mun flokkurinn leggja fram till. þess eðlis á þingi fljótlega. En það sem ég er að velta fyrir mér varðandi þennan þátt í frv. er tekjutenging eignarskatta. Ég sé ekki almennilega hvernig því verður við komið og óska eftir að hæstv. fjmrh. útskýri það fyrir þingheimi og tel reyndar nauðsynlegt fyrir hv. fjh.- og viðskn. að vita hvernig á að standa að þessari skattlagningu.
    Það er spurning t.d. með álagningu næsta árs. Á hún að byggja á tekjum ársins 1989? Og það má eins spyrja þá um álagningu ársins 1991. Á hún að byggjast á tekjum ársins 1990? En það þýðir þá væntanlega að það er ekki hægt að innheimta þennan skatt fyrr en vel er liðið á árið 1991. Eða á hinn bóginn, á að fara að áætla tekjur á fólk og taka hér upp enn eitt endurgreiðslukerfið?

    Ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. útskýri þetta fyrir þingheimi, ef hann yfir höfuð veit hvernig hann ætlar sér að framkvæma þetta. Þetta lítur fallega út á prenti sjálfsagt fyrir einhverja en ég óska eftir því að það verði útskýrt fyrir þingheimi hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin ætlar sér að standa að innheimtu þessa skatts.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, hef ég ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Ég mun gera nánari grein fyrir skoðun Frjálslynda hægriflokksins við 2. umr. eftir að málið hefur fengið umfjöllun í þeirri nefnd sem ég á nú sæti í.