Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki mjög miklu við þessa umræðu að bæta sem hér hefur farið fram um þetta frv. og þær brtt. sem hér hafa verið lagðar fram af hv. 5. þm. Vesturl. En varðandi það sem hann sagði hér um fyrirspurnir sem til mín hafði verið beint fyrr í umræðunni, þá er það að vísu ekki alls kostar rétt. Það var allt eins til formanns allshn. Nd. og hann svaraði þeim fyrirspurnum sem hv. 12. þm. Reykv. bar fram varðandi brtt. hv. 5. þm. Vesturl., sérstaklega um 4. gr. frv. og raunar 5. gr. líka, á þá lund að þær undanþágur sem hafa verið veittar í því efni hafa verið vegna vísindalegra kannana, annars vegar fyrir Krabbameinsfélagið og hins vegar vegna Vinnueftirlits ríkisins.
    Hins vegar sýnist mér að aðalbrtt. hv. 5. þm. Vesturl. sé í rauninni um lokagreinina í frv. eða raunar 30. gr., ef ég man rétt, þar sem fjallað er um þessa heimild sem tölvunefnd fær. Þegar ég mælti fyrir frv. við 1. umr. lagði ég einmitt á það áherslu að það væri ein veigamesta breytingin sem frv. gerir ráð fyrir sem kemur þarna fram í 2. mgr. 30. gr. þar sem lagt er til að tölvunefnd og starfslið hennar hafi vegna eftirlitsstarfa sinna aðgang að húsnæði þar sem skráning fer fram eða þar sem skráningargögn eru varðveitt eða eru til vinnslu án þess að þurfa að afla til þess sérstaks dómsúrskurðar hverju sinni.
    Skv. 66. gr. stjórnarskrárinnar verður húsleit eigi framkvæmd nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild, en þar sem nútímatækni gerir það kleift að eyða upplýsingum á tölvum á mjög skömmum tíma og án þess að slíks sjáist nokkur merki er talið mjög nauðsynlegt að fá einmitt þessa heimild. Með hliðsjón af þessu og þeim hagsmunum sem lögum þessum er ætlað að vernda þykir rétt að leggja það til. Það hefur líka komið fram fyrr og einnig í þessari umræðu að sams konar reynsla er hjá frændþjóðum okkar.
    Í máli hv. 2. þm. Vesturl. kom þetta einnig mjög skýrt fram. Hann þekkir þetta mál frá langri reynslu, mun raunar hafa haft forustu um hina fyrstu löggjöf sem um þetta var sett hér á landi. Og það kom líka fram í hans máli að hann telur ákaflega brýnt að fylgja áfram þessari löggjöf með svipuðu sniði og þróast hefur hér á undanförnum árum.
    Aðalatriði málsins er þó það að Alþingi beri gæfu til að ljúka þessu máli með nýrri löggjöf nú fyrir þinghlé þannig að menn búi hér við löggjöf af þessu tagi, viðunandi, í byrjun næsta árs. Fyrri löggjöf, bæði 1981 og 1985, var tímabundin. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að löggjöfin verði það ekki og það er auðvitað atriði í málinu líka.