Vernd barna og ungmenna
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á degi Sameinuðu þjóðanna nú í ár urðu ýmsir til að efna til umræðna um mannréttindi barna. Hér á landi voru stofnuð sérstök samtök í haust til að stuðla að vernd og bættum aðbúnaði barna. Þá hafa samtökin Amnesty International einnig á þessu ári vakið sérstaka athygli á slæmri meðferð stjórnvalda á börnum víða um heim. Og á vegum Sameinuðu þjóðanna er unnið að sérstökum barnasáttmála.
    Núgildandi íslensk lög um vernd barna og ungmenna eru frá árinu 1966 en að stofni til frá 1947. Frá þeim tíma sem núgildandi lög tóku gildi hafa orðið miklar breytingar á högum og aðstæðum barna og unglinga. Lögin skilgreina t.d. ekki mannréttindi barna og unglinga og gera ekki ráð fyrir sjálfstæðum rétti þeirra í samfélaginu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að lögin tóku gildi hafa sömuleiðis orðið miklar breytingar á vinnu barnaverndarnefnda og með aukinni tíðni hjónaskilnaða hefur álag á fulltrúa í þeim aukist til muna.
    Það er mjög mikilvægt að vel verði vandað til lagasetningar um barnavernd því að hér er fyrst og fremst um að tefla hagsmuni sem tryggja eiga öryggi, velferð og mannréttindi barnanna sjáfra. Á fundi í Sþ. 8. des. í fyrra bar hv. þingkona Guðrún Agnarsdóttir fram fsp. um bann við ofbeldiskvikmyndum og einnig um heildarendurskoðun laga um vernd barna og ungmenna. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að tvær nefndir unnu á þeim tíma að endurskoðun beggja lagabálkanna og voru nefndirnar á þeim tíma langt komnar í vinnu sinni. Nú er mér kunnugt um að þegar hafa verið samin drög að nýju frv. til barnaverndarlaga og hef ég því leyft mér að beina fyrirspurn á þskj. 248 til hæstv. menntmrh. um það hvort frv. verði lagt fram á þessu þingi og ef svo sé hvenær megi vænta þess.