Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég fer ekki dult með það að mig hefði langað til að halda svolitla ræðu og skiptast á skoðunum við hæstv. fjmrh. Við höfðum raunar gert um það ,,gentlemen's agreement``, svo maður noti nú það breska orðatiltæki, að við ræddum almennt nokkuð um skattamál og efnahagsmál við þessa umræðu en ég léti það vera við hina fyrstu. Nú er hins vegar þannig umhorfs í þingstörfunum að menn hafa komið sér saman um að reyna að lengja ekki umræður úr hófi. Í þessum tilraunum til að hindra að þing þurfi að vera hér milli jóla og nýárs og kannski strax aftur í byrjun janúar, sem ég held nú að engum sé hollt, hvorki þingmönnum né öðrum, þá yrði þessari umræðu og hinni 3. kannski lokið nú í kvöld. Og ekki ætla ég að verða til að spilla fyrir því samkomulagi ef ekkert óvænt kemur upp á.
    Mergurinn málsins er sá að nú er verið að leggja á þjóðina langhæstu skatta í hennar sögu. Það líður ekki sá dagur að ekki komi fram eitthvert nýtt skattheimtufrv. og skal ég ekki fara að rekja þau öllsömul. Það er verið, eins og ég sagði, að leggja á langhæstu skatta í sögunni. Á sama tíma er ljóst að
fjárlagahalli er meiri og verður meiri á næsta ári, enn þá meiri en á þessu og sá langmesti í sögunni. Það er sem sagt óstjórn á óstjórn ofan og má færa að því sterk rök að einmitt skattheimtan valdi því að ríkissjóðshalli fari vaxandi. Ég skil eiginlega ekki þá menn sem ekki geta komið auga á það að ef ríkissjóður á að geta haft varanlegar tekjur og tekjur í raunpeningum, alvörukrónum, eða kannski væri bara komin einhver allt önnur mynt sem gjarnan mætti þá heita merkur og aurar, til þess að ríkið geti til langframa haft slíkar tekjur sem því nægir, þá verður auðvitað að vera einhver sem getur borgað þær, borgað skattana. Og það er ekki til annarra að leita í skattheimtunni en til einstaklinganna og fyrirtækjanna. Þegar einstaklingarnir verða ýmist atvinnulausir eða kjör þeirra eru skert svo gífurlega að þeir geta hvorki borgað tekjuskatta né verulega neysluskatta, af því að þeir hafa ekki kaupgetu til þess að kaupa þær vörur sem eru hærra skattlagðar en í flestum löndum öðrum, endar þetta auðvitað með skelfingu.
    Hæstv. fjmrh. hefur vakið athygli á því hér í þessari hv. deild að hann hafi haft töluverð afskipti af fjármálum á Alþingi á árunum 1980--1983. Það er sú stjórn sem fram að þeim tíma var versta stjórn þessa lands. Nú er önnur komin hálfu verri og hún fetar nákvæmlega í slóð hinnar fyrri. Hæstv. fjmrh. hefur ekkert lært og engu gleymt. Hann vill nákvæmlega sömu stefnu og stjórnin frá 1980--1983 fylgdi, þ.e. sífellda skattheimtu samfara gengisfellingum og óðaverðbólgu. Ég held að enginn sem eitthvað hefur fylgst með stjórnmálum sé svo glámskyggn að hann sjái ekki að nákvæmlega sama stefna er nú rekin og þá var gert.
    Mér er alveg sama þó að hæstv. fjmrh. tali á meðan ég segi þetta því hann veit þetta allt saman. Ég hef sagt honum þetta svo oft og hann er ekki svo

treggáfaður að hann sé ekki byrjaður að skilja. Engu að síður lætur hann leiðast til að fara nákvæmlega þá göngu sem hann markaði hér fyrir nærri því áratug. Afleiðingin er auðvitað ein og hin sama, þ.e. áframhaldandi, vaxandi atvinnuleysi, vaxandi verðbólga, skattáþján þannig að ríkissjóðshallinn fer vaxandi ár frá ári og öll met verða slegin núna á þessu ári og einkum á því næsta. Það er yfirlýst og liggur fyrir og viðurkennt af stjórnarsinnum sjálfum að hallinn á komandi fjárlögum, á pappírunum er nú þegar orðinn alla vega 7--8 milljarðar og á eftir að tvöfaldast eftir venjunni þegar upp verður staðið. Þannig að við höfum alla vega 15 milljarða halla á næsta ári og verðbólgan verður ekki einhver 11%, hún gæti alveg eins orðið 111%. Við skulum vona að það verði ekki. Hún var 130% á tímum þeirrar stjórnar sem ég var að vitna til og þá hrökklaðist stjórnin auðvitað frá. Þessi á auðvitað eftir að hrökklast frá líka en við skulum vona að ekki þurfi 130% verðbólgu til þess. Allt blasir þetta við þeim sem vilja sjá. Þetta ætlaði ég eiginlega að ræða í nokkru máli við hæstv. fjmrh. af því að ég hef gaman af því að rökræða við hann og ég held að hann hafi stundum gaman af að tala við mig líka, en við verðum þá bara að gera það í einrúmi einhvern tíma milli jóla og nýárs af því að ég vil ekki spilla fyrir því samkomulagi sem hér hefur náðst um að hraða gangi mála.
    En ég verð þó að víkja aðeins að nál. okkar í 1. minni hl. og eru einkum tvö atriði þar sem nauðsynlegt er að vekja rækilega athygli á. Í fyrsta lagi kemur það ekki til greina af okkar hálfu að hækka prósentu virðisaukaskatts. Hún skal ekki að okkar mati undir nokkrum kringumstæðum, almenna prósentan, verða hærri en 22% eins og er í þeim lögum sem nú á að breyta. Skömmu áður en fyrrv. stjórn fór frá fluttum við tillögu um að matarskattur skyldi lækkaður niður í 10%. Raunar fluttum við ekki nákvæmlega þá tillögu núna vegna þess að við viljum heldur freista þess að fá samstöðu um það að flytja tillögu um 15% á matvæli og þá bara þau matvæli sem ríkisstjórnin sjálf hefur valið til þess að greiða niður eins og hún kallar það. En eins og fram kom í ræðum beggja þeirra sem hafa talað hér, bæði frá Sjálfstfl. og Samtökum um kvennalista, liggur það fyrir í útreikningum Þjóðhagsstofnunar sjálfrar að miðað við þær
niðurgreiðslur sem á að verja til að lækka verð á þessum vörutegundum um 8%, eins og sagt er núna, um leið og lög þessi öðlast væntanlega gildi, muni það allt saman verða upp urið miðað við svona 12% verðbólgu á árinu. Og þá munu matvörur hækka meira en annar varningur vegna þess að þessi svokallaða ívilnun eða niðurgreiðsla, til þess að geta sannfært menn um að í rauninni séu tvö skattþrep, verður horfin, gufuð upp með öllu.
    Við viljum þess vegna heldur reyna að hafa áhrif á að þarna verði tekin inn ákveðin prósenta virðisaukaskatts á þessi ákveðnu matvæli þannig að það sé þó tryggt að hér sé ekki einn ganginn enn

verið að blekkja menn fyrir allra augum áður en margar vikur eru liðnar því að maturinn á eftir að hækka mun meir en almennu verðlagi nemur skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar sjálfrar. Og verði nú verðbólgan 20% eða eitthvað svoleiðis, aðeins lægri en verðbólguhraðinn hefur verið undanfarna mánuði sem er auðvitað bjartsýnisspá, þá verður maturinn hlutfallslega dýrari þegar líður á árið en hann er í dag fyrir þessa 8% lækkun.
    Við viljum freista þess að benda rækilega á þessa viðurkenndu staðreynd hjá öllum þeim sem reikna nú í fínu tölvunum sínum. Þeir eru sammála um þetta hvort heldur eru fulltrúar verkalýðs eða ríkisvaldsins sjálfs. Þessi tillaga er þess vegna mjög mikilvæg, einkum fyrir lágtekjufólkið sem auðvitað þarf að borða eins og við hin og oft eru nú munnarnir einmitt fleiri hjá fátækum fjölskyldum. Því miður er til fátækt á Íslandi og hefur farið vaxandi að undanförnu og er það nú ekki sæmandi út af fyrir sig, hvorki fyrir mig né aðra alþm. að yfirleitt skuli vera til fátækt á Íslandi. En hún er til og fer vaxandi og þess vegna hefði verið lágmark að tryggt hefði verið að þessi 8% lækkun yrði viðvarandi en ekki tómar blekkingar. Á þessu vek ég sérstaka athygli og í annan stað því sem segir í niðurlagi nál. okkar hv. þm. Halldórs Blöndals, með leyfi forseta, það er örstutt:
    ,,Því miður skortir mikið á að undirbúningur skattkerfisbreytingarinnar sé forsvaranlegur. Það hefur komið rækilega fram í viðtölum fjölmargra þeirra sem nefndin hefur rætt við, svo og í bréfum og álitsgerðum. Fyrir þá sök er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 1990. Ef sú brtt. verður felld gegn von okkar er ljóst að óhjákvæmilegt verður að sníða vankanta af löggjöfinni á vorþinginu.``
    Ef stjórnin knýr fram þessa lagasetningu og tekur ekkert tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðu eða þeirra fjölmörgu sem komið hafa á fundi hv. fjh.- og viðskn. og verið nokkuð sammála um verulega ágalla á þessari lagasetningu, og ég minnist þess nú varla að heyrst hafi að menn væru í einu og öllu samþykkir þessu og kannski er ekki von að menn séu í einu og öllu samþykkir neinum sköttum. Þeir eru allir í eðli sínu eignaupptaka, eignatilfærsla. En ég hef ekki á löngum ferli í fjh.- og viðskn. fundið aðra eins andstöðu gegn löggjöf og verið hefur á fundum nú að undanförnu, ströngum fundum.
    Þetta eru sem sagt þær megintillögur sem við flytjum. Ég ætla ekki að rekja einstaka liði í því sem fram kom á fundum fjh.- og viðskn. eða einstaka liði í okkar brtt. Ég hygg að það skýri sig meira og minna sjálft sem þar er sagt. En meginefnið er að við viljum freista þess að ná samkomulagi um að skattprósentan, hin almenna skattprósenta, verði ekki nema 22% og að raunverulegir skattar á matvörurnar verði ekki hærri en 15%. Eins og áður sagði verður sú lækkun að vísu nokkurn veginn sú í bili, en hverfur um leið því að matvörurnar munu hækka miklu meira, miðað við þær forsendur sem stjórnin gefur sér og það fé sem fer til niðurgreiðslna, en látið er í veðri vaka þannig að þetta mun allt gufa upp á

örskömmum tíma.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum að brtt. Samtaka um kvennalista og get raunar aðeins sagt að mér líst vel á þær tillögur og mun greiða þeim mitt atkvæði. Þær eru að vísu ekki margar en enn þá færri eru held ég brtt. stjórnarsinna eftir alla þá vinnu sem við höfum lagt í að kynna okkur málin. Þó er óravegur frá því að ég botni í þessu öllu saman. Það skal ég fúslega játa. Þetta er hið mesta torf og ég held að það eigi eftir að verða margir þrándar í götu þess að framkvæma þessi ósköp öll saman. En eftir að við erum búnir að skoða þetta og reyna að hafa áhrif á stjórnarsinna eru hér þrjár örlitlar brtt. frá stjórnarliðum. Þeir eru handjárnaðir algerlega í bak og fyrir. Ég veit ekki hvort þeir ættu að vera fótjárnaðir líka, alla vega eru þeir í kuðung, bæði andlegum og líkamlegum stundum. Það er ekki furða því að ekki geðjast nú öllum þingmönnum að þessu, t.d. ekki þeim sem hér er á móti mér og brosir, hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Ég held að honum sé ekki annt um svona kerfi og alla þessa skatta. ( SkA: Þetta var samþykkt í Sjálfstfl. og maður verður að búa við þetta.) Jú, jú, við skulum segja það að þetta kerfi í heild sinni hljóti að vera af hinu vonda. Ég er efins um að þetta sé nokkuð betra en söluskattur. Við vitum að Evrópuþjóðir hafa tekið upp virðisaukaskatt. Aftur á móti hafa engilsaxneskar þjóðir lengst af verið með söluskatt rétt eins og við og þannig er það í Vesturheimi og þannig var það í Bretlandi. Þegar Bretar hurfu til virðisaukaskattsins vegna Evrópusamstarfsins reyndu þeir að hafa sinn
virðisaukaskatt, ef ég hef skilið það rétt, miklu nær söluskattinum gamla sem var. Það eru ekki bara þessi tvö þrep, heldur eru beinlínis matvörur og barnafatnaður og ýmislegt annað algerlega laust við alla neysluskatta þar sem við höfum hins vegar fetað í þveröfuga átt og aukið skattana á það fólk sem minnst má sín. Það er verið að auka á það núna með alveg gífurlegum hraða. Það þýðir ekkert að segja neinu fólki að lægst launaða fólkið í landinu hafi grætt á þessum skattlagningum eða sé að græða á þeim. Hver einasti maður veit að fólkið er að tapa á þessari stjórn hvern einasta, einasta dag, bæði þeir sem eru fátækir og fyrst og fremst þeir, en líka þeir sem kunna að vera ríkir þannig að sú þróun sést nú hvarvetna.
    En ég var búinn að lofa að stuðla að því að samkomulag gæti haldist um þessar afgreiðslur hér og ætla þess vegna ekki að fara út í almenna umræðu um efnahagsmálin frekar en ég þegar hef gert eða skattheimtuna, þá gífurlegu skattheimtu sem er nú verið að kóróna með þessu frv.
    Ég vil aðeins geta þess hér að fram hefur komið brtt. við 1. mgr. 20. gr. laganna sem er tæknilegs eðlis og hefur verið rædd skv. ósk hv. þm. Halldórs Blöndals við starfsmenn ríkisskattstjóra og raunar haft samband við endurskoðendur líka. En það eru auðvitað mörg tæknileg atriði sem verða erfið í framkvæmd og það hefði orðið jafnt hvaða stjórn sem hefði verið. Ég geri mér það alveg ljóst að svona

mikil breyting hlýtur að verða mjög erfið í framkvæmd fyrstu vikur og mánuði alla vega. Ríkisskattstjóri hefur ekkert farið dult með það í yfirnefndinni og það er þakkarvert að þar munu hans starfsmenn verða fyrst og fremst leiðbeinendur næstu vikur og mánuði en ekki með refsivönd á lofti. Þeir munu líka reyna að skera úr vafaatriðum mjög fljótt með úrskurðum og leiðbeiningum og þakka ég þeim fyrir það og raunar líka auðvitað hæstv. fjmrh. því að varla mundu þeir lofa þessu í nefndinni án þess að þeir hefðu leyfi hans til þess eða a.m.k. vissu um að það væri ekki gegn vilja hans. Ég hef sýnt hæstv. fjmrh. þessa tillögu og við höfum orðið sammála um það að minni hugmynd að við ræddum hana í því hléi sem hlýtur að verða gert fyrir 3. umræðu þannig að nefndin gæti hist. Væntanlega þarf hún ekki langan tíma til þess að fara í gegnum málin. Það verður sjálfsagt knúið fram það sem meiri hl. ríkisstjórnarinnar vill, í öllum meginatriðum a.m.k. En við verðum alla vega að fara í gegnum nokkrar tillögur sem við leggjum megináherslu á að eitthvert tillit verði tekið til. Meðal þeirra tillagna er sú sem ég var að geta um núna sem víkur að tæknilegu efni og ég hef sýnt hæstv. ráðherra. Niðurstaða okkar varð sú að ef ekki lægi fyrir að til starfsmanna skattstjóra mundi nást og endurskoðenda nú um þetta leyti þannig að það lægi fyrir að það væri góð samstaða um þetta, þá mundi ég ekki leggja tillöguna fram, heldur væri hún þá send neðrideildarnefndinni til athugunar og við getum þá sjálfsagt á einu augnabliki, ef málið kemur aftur til okkar, afgreitt það. En við munum sem sagt ekki láta á því stranda að tillaga þessi hafi ekki verið rædd í botn. Hún er tæknilegs eðlis og ég get ekki séð fyrir endann á áhrifum hennar og sjálfsagt enginn fyrr en búið er að fá útlistingar á því.
    En ég vona að það sem ég hef sagt um þann ófögnuð sem þessi skattlagning er, ekki bara þetta sem við erum að ræða nú, heldur öll þessi gífurlega skattaáþján sem dengt er yfir þjóðina, ég vona að það sem ég hef um það sagt og spádómar mínir líka reynist rangir, en ég er sannfærður um að þeir verða nú réttir.