Fiskveiðasjóður Íslands
Föstudaginn 15. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðauka við lög nr. 44 frá 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands. Mál þetta var flutt á hv. Alþingi á sl. vori en náði þá ekki fram að ganga. Nú hefur það fengið meðferð í Ed. Deildin samþykkti samhljóða að mæla með samþykkt þessa máls eftir að gerð var á frv. sú veigamikla breyting að þeirri þróunardeild, sem með þessu frv., ef að lögum verður, verður stofnuð við Fiskveiðasjóð Íslands, eru skapaðir möguleikar til að styrkja rannsóknar- og þróunarverkefni og einnig verkefni á sviði markaðsmála. Deildinni megi leggja til allt að 1% af höfuðstól Fiskveiðasjóðs til styrkja og lána til slíkra verkefna.
    Það var einkum þessi þáttur málsins sem varð þess valdandi að mál þetta var allmikið gagnrýnt, en ekki hefur náðst samstaða um að skattleggja sjávarútveginn með t.d. svipuðum hætti og iðnaðurinn er skattlagður með iðnlánasjóðsgjaldi til að nýta í þessu skyni.
    Jafnframt er gert ráð fyrir því að Fiskveiðasjóður Íslands yfirtaki eignir og skuldbindingar Fiskimálasjóðs sem hefur starfað um áratuga skeið og komið mörgum framfara- og hagsmunamálum sjávarútvegsins í framkvæmd. Með þeim breytingum sem urðu á sjóðakerfinu á sínum tíma þegar útflutningsgjald var lagt niður missti sá sjóður tekjumöguleika sína og hefur þar af leiðandi í reynd verið óstarfhæfur síðan.
    Með þessu frv. eru því á ný opnaðir möguleikar til að slíkt starf megi reka. Víða er mikil þörf fyrir það í sjávarútveginum og þó að hér sé vissulega um fjárhæðir að ræða sem skipta ekki sköpum í þeim efnum, þá mun það verða til nokkurs gagns.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það var allmikið rætt hér á síðasta þingi og ég vísa til umræðu og framsögu um það í Ed. Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.