Fiskveiðasjóður Íslands
Föstudaginn 15. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra var þetta frv. flutt á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga. Það var veruleg andstaða við frv., sérstaklega vegna þess að ekki var séð fyrir tekjustofni til þess að annast þau mikilvægu verkefni sem Fiskimálasjóður hefur annast. Ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég tel að með þeirri breytingu sem gerð var á frv. í Ed. sé það í raun og veru allt annað og miklu tryggara að hægt sé að sinna þeim verkefnum sem Fiskimálasjóður hefur sinnt á undanförnum áratugum.
    Ég hefði að vissu leyti talið betra að framlengja líf Fiskimálasjóðs en þó með þeirri breytingu að afnema algerlega lán sjóðsins til fiskiðnaðar og að hann sinnti þess vegna meira markaðsmálum og tilraunum en ég set það ekkert fyrir mig. Ég hefði talið að mörgu leyti eðlilegra að þingkjörin nefnd stjórnaði þeim málum eins og gert hefur verið með Fiskimálasjóð en ég tel að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. í Ed. sé ekki annað en sjálfsagt að greiða fyrir afgreiðslu málsins.