Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 351 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég mæli
hér fyrir hönd meiri hl. fjh.- og viðskn. en í nál. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið til viðræðna Ögmund Jónasson, formann BSRB, Indriða H. Þorláksson hagsýslustjóra, Pál Halldórsson, formann BHMR, og Birgi Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóra BHMR.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``
    Þetta frv. sem lagt var fram og var til meðferðar í nefndinni er um þá breytingu sem verður nú í tengslum við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjallar einkum um hvað verður um fólk sem starfaði áður hjá sveitarfélögum en færist síðan til starfa hjá ríkinu eftir gildistöku laganna. En ég tel rétt til þess að upplýsa um hvað frv. þetta fjallar að lesa hér aðeins úr athugasemdum við lagafrv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með lögum um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, komu fljótlega í ljós ýmsir annmarkar á því er tekur til starfsmannamála. Fram kom mikil andstaða af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gegn því að þeir starfsmenn, er flyttust yfir til ríkisins á grundvelli ofangreindra laga, yrðu þvingaðir til þess að skipta um stéttarfélög. Ótti manna á landsbyggðinni við slík félagaskipti mun ekki hvað síst stafa af því að þeir telji að greind lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga séu aðeins undanfari frekari breytinga er fyrirhugaðar séu á sviði heilbrigðismála. Var þeirri skoðun haldið mjög á lofti að slíkar breytingar hefðu í för með sér hrun bæjarstarfsmannafélaga á landsbyggðinni með öllum þeim afleiðingum er slíkt kynni að hafa í för með sér. Sú breyting á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, sem hér er lögð til, er sett fram til þess að koma til móts við ofangreind sjónarmið. Með 1. gr. þessa frumvarps er því tekin upp sú sérregla að starfsmenn, sem flytjast yfir til ríkisins 1. jan. 1990 á grundvelli laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, og þeir starfsmenn, sem munu gegna störfum þeirra eftirleiðis, geti valið um hvort þeir verði félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða því félagi ríkisstarfsmanna sem hefur lögum samkvæmt samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Gert er ráð fyrir að þeir starfsmenn, sem kjósa að vera áfram félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélögum, myndi eins konar ríkisstarfsmannadeild innan þeirra.
    Gengið er út frá því að öll ákvæði laganna gildi um þessa nýju viðsemjendur ríkisins eftir því sem við getur átt, þar á meðal ákvæði um takmörkun verkfallsréttar ríkisstarfsmanna, tilkynningu vinnustöðvana, framkvæmd verkfalls o.s.frv. Í þessu

felst því að einungis ríkisstarfsmenn innan bæjarstarfsmannafélaga eigi atkvæðisrétt í viðkomandi félagi um kjarasamning þess við ríkið og eigi rétt á að taka ákvörðun um boðun verkfalls gagnvart ríkinu.``
    Þetta er hluti af greinargerð sem fylgdi frv. til skýringar á því sem hér var rætt um og því nál. sem liggur frammi. En undir þetta nál. rita sex af sjö nefndarmönnum, þ.e. Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Halldór Blöndal, Eiður Guðnason og Skúli Alexandersson.
    Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en fyrir hönd meiri hl. legg ég til að frv. verði samþykkt óbreytt.