Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. og brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj.
    Það varð ljóst strax og frv. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var til umfjöllunar á Alþingi á sínum tíma að í kjölfar slíkra breytinga mundi fylgja óvissa og röskun á högum og réttindastöðu margra starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Því var nauðsynlegt þegar frv. hafði verið samþykkt að grípa til aðgerða með góðum fyrirvara til að koma í veg fyrir slíkt.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu tekur á takmörkuðum hluta þess vanda sem verður í málefnum fjölmargra starfsmanna víða um land þegar lög um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga taka gildi nú um áramótin. Enn er þó margt ófrágengið í þessum efnum og langt í frá að allt það starfsfólk sem nú kvíðir óljósri eða verri réttarstöðu en áður vegna þessara breytinga hafi fengið úrlausn sinna mála. Er gagnrýni vert hve seint er hér gripið til ráða til að leysa nokkurn hluta þess vanda sem við fólki blasir, nú í annríki síðustu starfsdaga þingsins fyrir jólahlé. Minni hl. skilur mikilvægi þess að finna lausn á þessum vanda og setur sig ekki í meginatriðum á móti þeim aðgerðum sem hér eru boðaðar. Hins vegar kom í ljós við umfjöllun málsins í nefnd að sú lausn sem hér er fundin er einungis takmörkuð bráðabirgðalausn og þarfnast endurskoðunar. Því flytur minni hl. brtt. þess efnis, þ.e. að þetta frv., ef að lögum verður, verði endurskoðað.
    Jafnframt kom í ljós að efni frv. varðar grundvallaratriði um leiðir og aðferðir launþegahreyfinga í kjarabaráttu og tengist ágreiningi sem ríkir um þau mál innan allra launþegasamtaka. Í stuttu máli er um að ræða ágreining um það hvort launþegar séu betur komnir í kjarabaráttu sinni með því að standa að
kjarasamningum innan fagfélaga, stéttarfélaga, eða hvort þeir séu betur komnir í starfsmannafélögum bæjarfélaga, þar sem þeir eiga samleið með öðrum stéttum. Um þetta ríkir grundvallarágreiningur innan allra launþegahreyfinga, var okkur sagt á fundi í fjh.- og viðskn. af fulltrúum launþegahreyfinganna. Einmitt þess vegna er gagnrýni vert að efni frv. skuli ekki hafa verið rækilega kynnt samtökum launafólks, en það hefur komið í ljós að t.d. Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hefur athugasemdir við frv. Þær athugasemdir eru einkum sprottnar af því að í kjarasamningi sl. vor var gerð svohljóðandi bókun ef ég má lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samningsréttarlögin verði endurskoðuð í samvinnu við öll samtök opinberra starfsmanna. Stefnt verði að því að breytingar þær sem aðilar verða sammála um verði lagðar fram á haustþingi 1989.``
    Nú hefur BHMR ítrekað óskað eftir viðræðum við fjmrh. og fulltrúa hans í samstarfsnefnd um efni þessarar bókunar en ekki hefur verið orðið við þeim

óskum. Hins vegar hefur þetta frv. um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna verið lagt fram. Er það um allt annað efni og án samráðs við BHMR þrátt fyrir ákvæði í ofangreindri bókun og eðli málsins. Þessi samtök hafa því ekki sett sig á móti þessari leið sem hér er farin gagnvart því starfsfólki sem um er að ræða og telur að finna þurfi lausn á málum þess og að fólk eigi að geta valið um í hvaða stéttarfélagi það er. Hins vegar leggur BHMR áherslu á að sá hópur sem síðan tekur við, þ.e. eftirmenn sem ganga í sömu störf, um þann hóp eigi að gilda forgangsrök 6. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þ.e. að stéttarfélag fari með samningsaðild. Þar sem þessi ágreiningur ríkir um efnið hafa þingkonur Kvennalistans valið þá leið að bera fram brtt. við þetta frv. á sérstöku þingskjali sem ég vil mæla fyrir nú, þ.e. á þskj. 365.
    ,,Við 1. gr. 3. efnismgr. orðist þannig:
    Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélag skal tilkynna fjmrn. fyrir 15. janúar 1990 hverjir starfsmanna óska eftir að vera áfram í viðkomandi félagi og skal það staðfest með yfirlýsingu starfsmanns, ella gildi um félagsaðild ákvæði 4.--5. gr.``
    Þarna er sem sagt farið fram á að hugur manna til þess að vera áfram í viðkomandi starfsmannafélagi sé kannaður áður en tilkynning fer fram. Síðan er brtt. við 2. gr.
    ,,Greinin orðist þannig:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990 og falla úr gildi 31. desember 1990.``
    Ástæðan fyrir þessu sólarlagsákvæði er fyrst og fremst sú að knýja menn til þess að endurskoða þessi lög, eða þetta frv. ef að lögum verður, og tryggja að tekið sé á málunum í heild sinni þar sem launþegasamtökin standa öll saman að lausn þessa vanda sem blasir við starfsfólki. Það er mjög nauðsynlegt að endurskoða þær úrlausnir sem boðið er upp á af hæstv. ríkisstjórn eins seint og hefur verið gripið til þessara ráða og þeirra lausna sem hér hafa verið fundnar. En eins og ég sagði áðan, þá setjum við okkur alls ekki á móti þessari lausn. Það er auðvitað nauðsynlegt að fólk fái að velja hvað það vill, en jafnframt er líka nauðsynlegt að líta til framtíðar og reyna að finna
heildarlausnir á málinu.
    Til þess að hv. þm. geti íhugað þessar brtt. betur, því þær eru bornar fram tiltölulega seint og málin ganga öll mjög hratt hér nú, munum við kalla þær aftur til 3. umr. til að gefa aukið svigrúm til að gaumgæfa þær.