Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er flutt í tengslum við breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið nokkurt vandamál hvernig með skyldi fara þann ágæta hóp starfsfólks sem starfað hefur hjá sveitarfélögunum, en stofnanir þeirra flytjast nú til ríkisins. Þetta mál hafði lítið verið rætt í tengslum við verkaskiptinguna. Í sumar og haust hafa átt sér stað viðræður við forustumenn bæjarstarfsmanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um með hvaða hætti væri skynsamlegast að skipa þessum málum til frambúðar.
    Niðurstaðan var sú að ákveða að þeir sem þess óskuðu gætu verið áfram félagar í þeim starfsmannafélögum bæjarstarfsmanna þar sem þeir hafa verið félagar áður og sumir gegnt þar reyndar forustustörfum um langan tíma. Hins vegar mundu þeir skipa sérstakan hóp innan þeirra félaga og yrði samið sérstaklega við þá í kjarasamningum opinberra starfsmanna og ríkisins. Þannig væri fundin lausn sem sameinaði það tvennt að viðkomandi starfsfólk gæti áfram verið félagsmenn í þeim félögum sem það kysi helst að vera í en ríkið gæti engu að síður haldið á samningamálum við sitt starfsfólk með samræmdum hætti.
    Frv. er flutt eftir að sameiginleg niðurstaða fékkst úr viðræðum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisins um þetta atriði. Frv. hefur þess vegna stuðning samtaka opinberra starfsmanna og ég vænti þess að í þessari hv. deild fái það jafngreiða afgreiðslu og í hv. Ed.
    Ég mælist svo til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.