Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mér hnykkti við þegar ég heyrði í útvarpinu ummæli þau sem orðið hafa tilefni til þessarar umræðu. Satt best að segja vonaði ég og óskaði að hæstv. forseti mundi biðjast afsökunar að loknum orðum Matthíasar Á. Mathiesen hér áðan þegar hann bauð sættir af hálfu okkar sjálfstæðismanna þrátt fyrir þær ærumeiðingar í okkar garð þm. Sjálfstfl. að við leituðum út í bæ og létum stjórnast þaðan. Ég skal koma að því nánar. Því miður varð mér ekki að þeirri ósk. Ég var að vona að þegar formaður Sjálfstfl. endurtók þá ósk, þá mundi hæstv. forseti fagna því og taka orð þessi aftur. Hún hefði orðið meiri maður af því. Ég hefði þá líka fallið frá orðinu.
    Ég kemst ekki hjá að tala um að það er nú kannski ekkert ljótt þó að t.d. þm. Reykv. ræddu einhvern tíma við borgarstjórann í Reykjavík. Við þekkjum það sem lengi höfðum verið þingmenn úti á landi að þar er alltaf t.d. fyrir þingbyrjun og jafnvel á miðju þingi farin ferð og rætt við allar sveitarstjórnir, framámenn í atvinnulífi o.s.frv. í hverju einasta byggðarlagi og alveg burt séð frá því hvar hver maður er í flokki. Þeir sameinast um þetta og þykir sjálfsagt. Þessi venja hefur verið tekin upp í Reykjavík. Það eru ekki liðnar tvær vikur síðan við sátum saman að ræða við borgarstjórann í Reykjavík, ég og hv. þm. Reykv. sem situr nú í forsetastóli. Það er þm. Reykv. sem lætur sér þau orð um munn fara að það sé eitthvað óskaplegt að þm., þar á meðal þm. Reykv., ræði við borgarstjórann. Við sátum þar í eina tvo tíma til að ræða um hagsmunamál Reykvíkinga og þar á meðal t.d. orkuskattinn sem lá í loftinu, sem átti að dengja yfir Reykvíkinga, stórkostleg skattlagning ef fram næði að ganga, líklega stjórnarskrárbrot. En ég skal ekki fara lengra út í þá sálma.
    En málið er nú svona að það er hægt og leyfilegt að tala við hvern sem er. En þar með er ekki sagt að við hvern sem við tölum ættum við að vera
viljalaust verkfæri einhvers annars manns. Þetta er aðdróttun í okkar garð af versta tagi. Ég skal líka sleppa því.
    En ég hygg að sannleikurinn sé sá að á þingi séu það alltaf tveir menn sem beri meginábyrgð á því að nauðsynleg þingstörf klárist á réttum tíma eins og t.d. fjárlagagerð. Það eru auðvitað fyrst og fremst forsrh. og forseti Sþ. Oft þarf auðvitað lagni af hálfu þessara meginforingja þingsins til að ná saman. Nú hafa þau bæði brugðist. Það er nefnilega ekki rétt að farið að þegar forsrh. er að vinna hér með þingmönnum að fjárlagagerð, að lausn mála, þá skrifi hann bréf út í bæ, til borgarstjórans í Reykjavík í þessu tilfelli. Hann á auðvitað að hafa um það samráð við þingið af því að hann á að sækja undir okkur. Það gerði hann ekki. Og hvers vegna skyldi hann nú hafa gripið til þess ráðs að skrifa borgarstjóranum í Reykjavík? Heldur einhver hér inni að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hafi fundið það upp hjá sjálfum sér, dottið það í hug í morgun? Nei, hann hefur aldrei gert

neitt slíkt áður og geta menn sér nú þess til hver það hafi verið sem hafi ,,platað`` hæstv. forsrh. til að senda þetta bréf, til að spilla fyrir. Er einhver hér inni, einhver 59 þingmanna að undanskildum þeim sem gerði þetta, sem ég þykist vita að hafi gert það, sem efast um hver hann sé? (Gripið fram í.) Já, ég er í gamla tímanum, íhaldssamur maður eins og allir vita. En kannski eru nú allir þessir 63 hér inni --- og þar að auki kannski ekki þingmaður, segir nú einhver. En af þeim sem hér eru inni. Auðvitað lét hæstv. forsrh. plata sig. Hann átti ekki að gera þetta. Hann átti að leysa málið hér innan veggja þingsins og þá með þingmönnum og láta þann sem ekki er þingmaður og bent hefur verið á ekki hafa áhrif á sig.
    Ég vil gjarnan að við sættumst nú þrátt fyrir allt og þurfum ekki að eyða mikið lengri tíma í þetta. Ég veit að einhverjir hafa beðið um orðið og ekki ætla ég að biðja um að þeir fái ekki að tala. En þetta er auðvitað til viðvörunar og verður varla endurtekið, ekki í þessa áttina. Við skulum segja að þetta sé slys og reyna að líta á það með þeim hætti.