Vísitala byggingarkostnaðar
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 378 er nál. fjh.- og viðskn. varðandi frv. til laga um breyting á lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, en þar er um að ræða að tekið verði upp nýtt bráðabirgðaákvæði sem verði bráðabirgðaákvæði II í lögunum. Það er svohljóðandi:
    ,,Eftir upptöku virðisaukaskatts hinn 1. janúar 1990 skal Hagstofa Íslands við útreikning vísitölu byggingarkostnaðar frá og með janúar 1990 taka tillit til endurgreiðslna virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis vegna vinnu á byggingarstað, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum, þannig að endurgreiddur virðisaukaskattur sé dreginn frá byggingarkostnaði reiknuðum með fullum virðisaukaskatti.``
    Þetta frv. er flutt að beiðni hagstofustjóra til að taka af vafa um útreikning og notkun vísitölu byggingarkostnaðar eftir upptöku virðisaukaskatts og endurgreiðslu hans til íbúðarbyggjenda vegna vinnu á byggingarstað.
    Nefndin var einhuga um afgreiðslu þessa frv. og nefndarmenn skrifuðu allir upp á þetta nál. og standa að því og leggja til að frv. verði samþ.