Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég er að ýmsu leyti alveg sammála hv. síðasta ræðumanni. Ég held að þetta sé slæmt mál. En ég hef kannski sérstakar skoðanir umfram það sem fram kom í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar. Ég held nefnilega að það sé alveg ljóst að framtíðin og raunar nútíðin eigi að vera sú að efla Landhelgisgæsluna, óháða stofnun. Það á hvorki að skattleggja sjávarútveginn né neina aðra til þess að sjútvrn. verði lögregluvald í ríkari mæli en það er orðið. Hér er um hreina löggæslu að ræða og það er ekki vansalaust hvað Alþingi hefur sniðgengið Landhelgisgæsluna árum saman. --- Ég er ekki að ásaka þessa ríkisstjórn frekar en aðrar. --- Það er hneyksli hvað Landhelgisgæslan hefur verið fryst, sú stofnun sem mest hefur á mætt í öllum okkar baráttumálum fyrir fiskveiðum og hafréttarmálum yfirleitt. Fráleitt er að Alþingi skuli ætla sér núna að fara að leggja sérstakt gjald á til þess að sjútvrn. verði lögregluaðili í ríkari mæli en áður hefur verið. Þetta er náttúrlega algjörlega fráleitt þegar menn hugsa út í það. Ég mundi vilja --- hversu mikill halli sem er á fjárlögum --- styðja miklar og öflugar fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan þarf bæði að eignast nýtt skip, þyrlu og fleiri tæki. Það ættum við að geta rætt hér í rólegheitum eftir áramótin og ég held að þingheimur allur, þegar hann hugsar út í þetta, sé því sammála að við eflum einmitt Landhelgisgæsluna, þar sé ekki allt látið grotna niður í fjármagnsleysi.
    Ég held að það besta sem við gerðum væri að fresta þessu máli fram yfir áramótin og ræða þetta algjörlega í rólegheitum og án þess að nokkur þurfi að taka það nærri sér. Landhelgisgæslan er okkar aðall og hefur verið það í gegnum tíðina og fólkið í landinu er áreiðanlega mjög fúst til þess að greiða fjármagn til Landhelgisgæslunnar. Síðan verði þar skipulagt hvernig hún sinni veiðieftirliti en ekki einhverjir allt aðrir. Þetta kemur sjútvrn. nákvæmlega
ekkert við. Lögregluaðgerðir eiga fyrst og fremst að vera það sem ríkisvaldið í heild sinnir, það eru almennir skattar sem undir því standa, að halda uppi lögum og rétti, ekki síst á miðunum og enn þá frekar kannski á miðunum heldur en nokkurn tímann á landi.