Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Dómsmrh. (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Nokkur munur kom í ljós í ræðum tveggja þm., hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Vestf., um afstöðuna til ,,þrátt fyrir``-ákvæðanna í því lánsfjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Afstaða hv. 1. þm. Reykv. var nokkru mildari en hv. 1. þm. Vestf. Hann var hálfu hneykslaðri á þessu framferði öllu saman, líklega vegna þess að hann hefur sjálfsagt fleiri slík ákvæði á samviskunni frá fyrri árum en sá fyrrnefndi.
    En ég kveð mér hljóðs, hæstv. forseti, vegna þess að í máli hv. 1. þm. Reykv. kom fram ein ákveðin missögn, trúlega misskilningur, sem er nauðsynlegt að leiðrétta. Hann hélt því fram í máli sínu að þegar haft hefði verið samband við fulltrúa kirkjunnar út af því sem greinir í 34. og 35. gr. frv., um prósentutölurnar þar, 5% og 15%, hefði verið rætt um 4% og 10%. Þetta er rangt. Þegar rætt var við fulltrúa kirkjunnar á þessum tíma var um þessar prósentur að ræða: 5% af sóknargjöldum, 15% af kirkjugarðsgjöldum. Þannig var það.
    Hins vegar gerðist það í millitíð að um skeið leit út fyrir að hægt væri að lækka þessa prósentu, en það var ekki þegar rætt var við fulltrúa kirkjunnar í upphafi þessa máls. Það er nauðsynlegt að þetta komi hér fram því að þetta er sannleikur málsins.
    Það er svo rétt að minna aðeins á það í þessu sambandi að innheimtulaun hafa ekki verið greidd af þessari innheimtu sem hér um ræðir heldur hefur kirkjan fengið þessar innheimtur, 100% og án affalla að öllu leyti, hvort sem gjöldin hafa innheimst eða ekki. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komi hér líka fram. En eins og ég sagði kvaddi ég mér fyrst og fremst hljóðs til þess að leiðrétta þennan misskilning sem fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv.