Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um
Föstudaginn 22. desember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Jólapósturinn er nú að berast inn á borð okkar þingmanna eins og til annarra landsmanna og hingað inn á borð Alþingis hafa borist bréf frá utanrrn. Íslands í formi fréttatilkynningar. Það má heita að það séu dagblöð. Annað varðar atburði í Rúmeníu, hitt atburði í Panama. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um hið fyrra nema að við hljótum að fagna því að í Rúmeníu hafa landsmenn fyrir eigin tilverknað feykt burt illvirkja og einræði. Við skulum vona að þar blasi við betri tíð.
    En hið síðara, virðulegur forseti, í þessum pósti snertir hernaðaríhlutun og innrás í Panama sem sjálfstætt ríki ( Gripið fram í: Er þetta ekki umræða utan dagskrár?) og við lesum það hér, virðulegur forseti, að ekki er talin ástæða til þess hjá þeim sem þennan póst skrifar að fordæma það athæfi heldur er beinlínis um að ræða réttlætingu og yfirklór í sambandi við þetta brot á alþjóðalögum á þessum blöðum. Ég bið menn um að kynna sér þennan póst. Ég frábið mér slíkan jólapóst. Ég fyrirverð mig fyrir slíkt stjórnvald og fordæmi að slík afstaða sé tekin í nafni íslenskra stjórnvalda. Það liggur við að mann langi að skríða í felur eftir að hafa fengið slíkar kveðjur.