Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki níðast á því þegar ég bað um orðið um þingsköp, það er stundum heimilt til að bera sakir af fjarstöddum aðila jafnvel. Hér er því haldið fram hvað eftir annað að hæstv. viðskrh. hafi haft afskipti af þessu máli. Jafnframt er vísað til yfirlýsinga um að hann hafi lofað því að leggja skýrslu fyrir Alþingi, jafnvel á fyrsta degi eftir jólahlé. Nú er það svo að lögum samkvæmt hefðu kaup Landsbankans á Samvinnubankanum ekki orðið með löglegum hætti nema þau hefðu verið lögð fyrir viðskrh. Til þess kom ekki, af þeirri einföldu ástæðu að upphafleg yfirlýsing um þessi kaup --- samningsígildi skulum við kalla þau kaup --- af þeim varð ekki. En eins og fram kom í fjölmiðlum virðist upphafsmaður þess hafa verið bankastjóri einn hér við Landsbankann sem talar gjarnan í yfirlýsingum sínum enn um flokkinn sinn og mun þá eiga við Sjálfstfl. Það er upplýst jafnframt að hann gerði þetta ekki í samráði við aðra bankastjóra og ekki í samráði við bankaráð, á sínum tíma upphaflega.
    Nú er það svo að á það reyndi aldrei að viðskrh. hefði með formlegum hætti þau afskipti sem lög gera ráð fyrir að hann hafi af málinu. En almennt um málið vil ég segja að stefna þessarar ríkisstjórnar, eins og stefna fyrri ríkisstjórna, er að stuðla að sameiningu banka, það fer ekkert á milli mála. Hafi afskipti viðskrh. verið einhver, þá hafa þau t.d. verið á þá lund, eins og fram kom af orðum hans í fjölmiðlum, að hann taldi það skyldu sína að gæta hagsmuna Landsbankans í þessum samningum og taldi á tímabili að þær tölur sem upphaflega voru nefndar um þessi kaup væru, ef nokkuð væri, sennilega of háar. Sá samningur var að lokum endurskoðaður og menn geta haft hvaða skoðun sem er um það. En ef menn hafa verið að gefa í skyn að viðskrh. hafi haft einhver óeðlileg afskipti af þessu máli, þá tel ég svo ekki hafa verið, tel það
ástæðulaust.
    Að því er varðar beiðni um skriflega skýrslu af hans hálfu verð ég að játa að ég var ekki viðstaddur þegar sú yfirlýsing var gefin en mun að sjálfsögðu koma því áleiðis til hæstv. viðskrh.