Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og fram kom í máli flm. þessa frv. hefur hann flutt það tvisvar áður. Ég fagna þeirri þrautseigju sem hann sýnir með því að flytja þetta frv. Þó það sé ekki alveg eins og áður er það í grundvallaratriðum hið sama. Ég tel að hann sé að hreyfa hér mjög merku máli og mikilvægu sem nauðsynlegt er að eitthvað fari að gerast í.
    Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart þó að hv. 3. þm. Norðurl. e. væri orðinn nokkuð langeygður eftir aðgerðum í vaxtamálum. Hann er mikill áhrifamaður í sínum flokki og nýtur þar trausts og virðingar. Það má segja að í þeim flokki hafi verið mjög harður áróður á sínum tíma fyrir að taka upp verðtryggingu. Og með efnahagsaðgerðunum sem ríkisstjórnin sem sat síðla árs 1978 og fram eftir hausti 1979 beitti sér fyrir var gerð sátt í þáv. stjórnarflokkum með lögfestingu hinna svokölluðu Ólafslaga. Þar má segja að ballið hafi byrjað og það hefur verið dansað síðan. Að vísu ekki alltaf eftir sama hljómfallinu, það hefur verið nokkuð breytilegt. Þegar við lítum á þessi mál í heild er það auðvitað verðbólgan sem hefur haft áhrif á vextina og of mikil áhrif. Menn spyrja og það er eðlilegt: Er það hægt lengur að vextirnir hækki miklu meira en launin? Fjármagnskostnaður fyrirtækjanna og atvinnurekenda í landinu er orðinn svo hár vegna þess að fyrirtækin, einkum í útflutningsgreinum, flestum útflutningsgreinum, hafa oft og tíðum verið rekin með það miklum halla að þau hafa orðið að mæta hallarekstrinum með auknum lánum. Eftir því sem lánin aukast hækkar fjármagnskostnaðurinn, jafnvel þó eitthvað sé verið að tylla í bremsurnar öðru hverju. Gerð var veruleg úrbót með lánum til atvinnufyrirtækja útflutningsgreina á sl. ári, allt frá byrjun árs til loka. En ég sé ekki annað en þessi hringdans haldi áfram, nú séu sum af þessum sömu fyrirtækjum að biðja aftur um svipaða fyrirgreiðslu og þau fengu fyrir rúmu ári. Fjármagnskostnaðurinn er þau lifandi að drepa.
    Við skulum snúa okkur að almenningi í landinu. Hvernig er ástatt hjá honum? Hvað með alla þá sem eru að byggja eða kaupa húsnæði? Hvað er með Húsnæðisstofnunina? Menn þurfa að bíða í hálft ár eftir að fá bréf frá Húsnæðisstofnun um það hvort umsókn þeirra uppfyllir settar reglur eða skilyrði eða hvað það nú heitir. Ég kann ekki það mál allt saman. Síðan verða menn bara að bíða og bíða, heyra ekkert frá þeirri virðulegu stofnun í rúm tvö ár. Einu viðbrögðin eru þau að skipta um eitthvert kerfi og kalla það núna húsbréfakerfi á meðan verið er að koma þúsundum manna á höfuðið. Sumir fara beint á höfuðið. Aðrir leita á náðir ættingja sem annaðhvort eiga peninga eða geta útvegað þeim peninga í lánastofnunum. Það eru einhverjar reglur um að þegar menn séu alveg að fara á hausinn eða geta ekkert borgað, þá megi flýta einhverjum lánum. Þær reglur eru að mínum dómi algerlega óskiljanlegar og það er fullkomið rannsóknarefni, starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins.

    Í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í 1983--1987 fannst mér stundum að þessi mál væru komin í algert óefni hjá hæstv. félmrh. í þeirri stjórn, hv. 1. þm. Vesturl. Nú er svo komið að ég sakna hans sárlega úr stólnum. Þetta er alger kaos núna. Það er alveg stórmerkilegur hlutur að þetta er annar dagurinn sem hv. Alþingi er að störfum á þessu ári. Hér situr 11 manna ríkisstjórn og ekki einn einasti ráðherra má vera að því að vera viðstaddur hér umræðu um eitt mikilvægasta málið sem hvílir á atvinnurekstrinum í landinu og þúsundum heimila. Þeir eru bara tvist og bast eða eru þeir kannski búnir að segja af sér en hefur láðst að tilkynna Alþingi um það? Það færi betur að svo væri.
    Nú langar mig að spyrja hv. 3. þm. Norðurl. e.: Er það ekki ætlun stjórnarliðsins og viðskrh. að standa við það að fella niður lánskjaravísitöluna á þessu ári? Hefur hann ekki sjálfur skýr svör við því? Nú verður maður að grípa til þess að spyrja hásetana á stjórnarskútunni fyrst yfirmennirnir eru allir horfnir. Og það er sennilega betra að fá svör frá hásetunum á stjórnarskútunni en hjá yfirmönnunum sem hverfa. (Gripið fram í.) Nei, ætli Borgfl. hafi ekki fengið bátsmennina í haust svo að hv. 3. þm. Norðurl. e. verður bara að láta sér nægja að vera háseti eftir sem áður. Ég held það sé bara ágætt hjá honum að halda sig við hásetastarfið og sækja ekki eftir bátsmannsstarfi, hvað þá heldur ofar, þó að ég geti unað honum alls góðs, það er ekki það. En það er bara ekkert gott að vera yfirmaður á þessari skútu.
    Mér finnst að mörgu leyti undarlegt það sem er að gerast núna í sambandi við þessi vaxtamál. Ég held að forsrh. sé búinn að koma hvað eftir annað fram í fjölmiðlum og hefur látið hafa eftir sér, þó að hann sé nú mjög orðvar maður, ýmislegt í þessum efnum. M.a. hefur hann marglýst því yfir að ríkisstjórnin ætli að koma vöxtunum niður með handafli. Að vísu hefur það skeð í nágrannalöndum okkar, í Þýskalandi, Frakklandi og víðar, að vextir hafa á síðustu 9--10 mánuðum hækkað um heilt prósentustig. Afl handlangarans hér á Íslandi hefur ekki náð til þeirra sem varla er von. En hvað er svo að gerast núna?
    Nú sé ég það í því ágæta blaði Morgunblaðinu að Fríhöfnin í Keflavík er farin úr viðskiptum við Landsbankann, sem er nú stærsti banki þjóðarinnar og ríkisbanki, og komin í viðskipti við Íslandsbanka því að hann bjóði hærri innlánsvexti en Landsbankinn og hann er líka með hærri útlánsvexti. Mér er það alveg ljóst að bankar þurfa að hafa hagnað til þess að þeir njóti trausts og menn séu óhræddir við að geyma fjármuni sína þar inni. En það eru takmörk fyrir öllu og líka því. Nú spyr ég mjög gjarnan, og bið nú hv. 3. þm. Norðurl. e. að skjóta því að hæstv. viðskrh. ef hann skyldi tylla niður tánum hér á Fróni á næstunni, hvernig þessu sé varið. Á það að líðast að stór fyrirtæki, meira að segja ríkisfyrirtæki, eigi að njóta betri innlánskjara en við hin? Á að skammta okkur minna? Eru fjármunir hins almenna borgara ekki meira virtir en þetta og sparnaður hans en að það eigi að greiða honum, hinum almenna borgara, mun lægri

vexti en fyrirtækjum sem peningana eiga? Útflutningsatvinnugreinarnar eiga ekki peninga í bönkum eða sparisjóðum landsins, ekki svo að neinni verulegri upphæð nemi, nema örfá fyrirtæki sem eru vel stæð, sem betur fer. Við skulum ekki gera lítið úr því.
    Ég tel að það sé mjög mikilsvert að frv. sem þetta sé flutt og ég vil alveg sérstaklega þakka hv. 3. þm. Suðurl. fyrir þá þrautseigju sem hann sýnir með því að flytja þetta frv. Það eru að vísu í því ákveðin atriði sem ég er ekki fyllilega sammála en hér er verið að hreyfa mikilsverðu máli sem við verðum að taka á. Það er alveg sama hvaða ráðstafanir verða gerðar af stjórnvöldum í að breyta gengi krónunnar, það er ekki hægt að bjarga stærstum hluta útflutningsatvinnuveganna vegna þess hvað skuldir þeirra eru orðnar gífurlega miklar. Og það verður ekki komist hjá því að gera algjöran uppskurð í þessum efnum ef á að koma á heilbrigðum atvinnurekstri og sjá um í framtíðinni að útflutningsgreinarnar séu ekki reknar með gífurlegum halla langtímum sman eins og stundum hefur átt sér stað. Það er ekki nóg fyrir hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar, sem ekki sjást hér í þingsölum, að koma alltaf fram í
fjölmiðlum, jafnvel daglega, boða lækkun vaxta, boða lækkun á fjármagnskostnaði fyrirtækja og einstaklinga og láta svo sitja við orðin tóm. Það er kominn til þess tími að renna traustum stoðum undir íslenskt atvinnulíf og þá sérstaklega útflutningsatvinnuvegina og það er líka kominn tími til að lina þjáningar heimilanna í sambandi við lán, ekki síst húsnæðislánin, og taka á þeim málum með festu og alvöru en ekki alltaf að hlaupa frá því sem búið er að hafa lagagildi þegar það er komið í ófæru og reyna að taka upp eitthvert nýtt kerfi til þess að blekkja þá sem hafa verið að bíða eftir fjármunum.
    Herra forseti. Ég harma það að 11 manna ríkisstjórn skuli ekki geta léð þinginu tíma til þess að vera viðstödd þessa umræðu og hefði nú ekki verið til of mikils mælst þó að einn af ráðherrum hvers stjórnarflokks hefði verið hér við þessa umræðu og svarað því sem fram hefur komið í máli manna.