Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Þetta frv. sem er nú flutt í þriðja sinn er virðingarvert framtak af hv. þm. Eggert Haukdal og í meginstefnu er ég sammála þessu frv.
    Fjármagnskostnaðurinn í landinu er að eyðileggja mestallt atvinnulíf og einstaklinga í hundraðatali þannig að það má kallast furðulegt að ekki hafi verið tekið á þessu máli með öðrum hætti áður en sú staða kemur upp sem nú blasir við. Hitt er annað mál að ég er með efasemdir um vissar greinar þessa frv., t.d. um það að taka eigi mið af þeim vöxtum sem nágrannaþjóðirnar borga eða þeim útlánsvöxtum og innlánsvöxtum sem þær fá. En eins og kunnugt er er ekki til verðtrygging með sama hætti og hér er þannig að það þarf að taka það með í reikninginn og þyrfti að útfæra þetta á einhvern annan veg.
    En ég er alveg sannfærður um það og hef lengi verið að verðbólgan verður ekki skrúfuð niður með öðrum hætti en að afnema lánskjaravísitöluna. Það er ekki hægt. Við erum nú vitni að því þessa dagana að vissar bankastofnanir eru að bjóða hærri og hærri innlánsvexti og hv. alþm. vita hvað það þýðir. Auðvitað þýðir það hærri útlánsvexti ef það verður liðið að innlánsvextirnir eru á nokkurs konar uppboðsmarkaði eins og nú er og vitna ég þar í greinar og viðtöl í Morgunblaðinu bæði í gær og í dag. Það er gengið svo langt að einn banki, Íslandsbanki, sem voru áður fjórir bankir og Útvegsbankinn var seldur fyrir spottprís vegna þess að það átti að ná þeim tilgangi að lækka vextina í landinu --- fyrstu viðbrögð þessa nýja banka eru að bjóða í innlán þannig að ég sé
ekki betur en það sé fram yfir það sem er leyfilegt miðað við þá vexti sem hafa verið auglýstir í bönkunum að meðtöldu álaginu með skuldbreytingum, þ.e. allt að 3% fram yfir kjörvexti. En kjörvextir eru í dag 6,5% og með leyfi frá Seðlabankanum má bæta við allt að 3%, þó ég fari ekki út í það hvernig slíkt hefur verið notað.
    Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur að við stöndum frammi fyrir þessum atburðum á sama tíma sem verið er að reyna að gera samninga við vinnumarkaðinn og einn stærsti þátturinn í því er að gera ráðstafanir til að lækka vexti. Á sama tíma, bæði í dag og gær, er verið að auglýsa frá Íslandsbanka innlánsvexti upp í 9,5%. Og eftir því sem bankastjóri Landsbankans segir í Morgunblaðinu hefur þessi sami banki boðið allt upp í 22% innlánsvexti, nafnvexti, frá vissum fyrirtækjum sem velta miklu og hafa mikið fé undir höndum. Þarna er auðvitað verið að mismuna þegnunum í landinu gróflega. Það er verið að mismuna þeim og það er af ásettu ráði verið að sprengja upp vextina í þjóðfélaginu eins og var gert af hálfu ríkisins í sambandi við ríkisvexti, ríkisvíxlavexti.
    Ef þingið tekur ekki á þessum málum nú þá er borin von að mér sýnist að það náist kjarasamningar á þeim grunni sem nú er rætt um. Ég verð nú að segja það að ég öfunda ekki formann bankastjórnar

Íslandsbanka að horfa á það í blöðum --- ég trúi ekki öðru en að hann hafi verið á móti þessum auglýsingum --- að horfa á það í blöðum að verið sé að bjóða fjármagnseigendum allt upp í 9,5% innlánsvexti á verðtryggðu fé.
    Annars er auðvitað þýðingarlítið að ræða mikið þessi mál. Þau eru kunn. Saga þeirra er kunn, hvernig þau hafa gengið fyrir sig. Ég ætla þó með nokkrum orðum að segja að það var alltaf borin von að vextir mundu haldast í skikkanlegu jafnvægi með því móti að ríkissjóður væri rekinn með tapi ár eftir ár. Það hlaut að vera grundvallaratriði til þess að ná þeim árangri að ríkissjóður væri ekki að keppa við einstaklinga og fyrirtæki um lánsfé. Þegar slíkt gerist þá er eftirspurnin eftir fjármagni náttúrlega orðin meiri en framboðið. Og þegar ofan á það bætist að ríkið sjálft gengur á undan að bjóða hærri og hærri vexti til þess að geta selt ríkisvíxla.
    Við verðum að læra af reynslunni í þessum efnum og þess vegna er þetta lofsvert framtak hjá hv. þm. Eggert Haukdal þó að ég sjái ekki að málið gæti farið í gegn óbreytt af þeim ástæðum sem ég gat um áðan og e.t.v. fleiri ástæðum sem ég hef ekki haft tóm til þess að skoða niður í grunninn.
    En ég vil ítreka það að sú hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, reyni að skoða málið í flýti, án þess þó að kasta til þess höndum, því að það mun standa og falla með því hvort þetta frv. eða einhverjar sambærilegar aðgerðir verði teknar, hvort hægt verður að koma í gegn samningum á vinnumarkaðinum sem magna ekki upp verðbólguna.
    Ég verð að segja það að ég harma það að bankamálaráðherra er erlendis nú þegar þetta mál er tekið fyrir vegna þeirra skýringa sem hann gaf og afsökunar sem hann gaf á sölu Útvegsbankans á því verði sem hann fór, að það væri til þess að lækka vextina.
    Það er kannski annað atriði í frv. hv. þm. Eggerts Haukdals sem þarf líka að skoða miðað við reynsluna. Auðvitað þurfa bankarnir, til þess að hægt sé að reka þá, að hafa lágmarkstekjur. Hitt verður náttúrlega að skoða þegar þjóðfélagið og atvinnureksturinn og einstaklingar eru þannig settir eins og nú að það á auðvitað ekki að reka bankana þannig að þeir hafi mikinn hagnað. Það
er óhæfa sem enginn hefur ráðið við og enginn ræður við nema ríkisstjórn taki þar í taumana.
    Það sem hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson sagði hér í umræðunni um þetta mál er alveg laukrétt: Vextir mega aldrei vera hærri en það sem atvinnureksturinn að meðaltali getur staðið undir. Þá verður að útbúa þann ramma. Ef fjármagnseigendum eru ætlaðir einhverjir vextir að ráði þá verða einstaklingar og fyrirtæki að hafa ráð á að borga þá vexti, annars fer allt eins og það er að fara nú.
    Ég er náttúrlega með ýmis gögn um þessi mál sem ég ætla ekki að fara að ræða að þessu sinni þar sem hæstv. bankamálaráðherra er hér ekki til staðar. En það er aðkallandi að eitthvað sé gert í þessum málum. Ég sé ekki annað en ef ekki verða skjót viðbrögð þá

verði hrun, þá verði fjöldagjaldþrot og hrun í mörgum fyrirtækjum í landinu. Allt mas um að raunvextir hafi lækkað er bara eftir því hvaða viðmiðun menn gefa sér. Auðvitað eru engin skynsamleg rök til fyrir þeirri vísitölu sem hefur verið farið eftir, en ég ætla ekki að fjalla um það að þessu sinni. Ég vil bara að þetta komi fram hér og nú.
    Það er enginn hæstv. ráðherra hér þessa stundina og ég ætla ekkert að óska eftir því. En þá sem eru á þingflokksfundum hjá þeim flokkum sem eiga að taka á þessu máli vil ég biðja fyrir skilaboð inn í sína flokka að ef ekki verður tekið á þessum málum nú, eftir einn eða tvo mánuði í mesta lagi, þá fer illa og verður ekki hægt að bæta fyrir það nema þá á löngum tíma.