Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Ég vil vitna til ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. í gær þar sem hann vék að því hvernig atvinnufyrirtæki hefðu verið leikin á undanförnum árum með óhóflegum fjármagnskostnaði og þá ekki síður hvernig þeir sem af brýnni nauðsyn hafa verið að reyna að eignast húsnæði hafa horft á eftir takmörkuðum fjármunum sínum í vexti og verðtryggingar langt umfram það sem þeir höfðu búist við. Við þekkjum vafalaust öll af eigin raun eða annarra dæmi um hvernig þróun vaxta og lánskjara hefur leikið marga, enda þótt þeir hinir sömu hafi gert margvíslegar ráðstafanir og áætlanir sem áttu að tryggja að þeir gætu staðið við nauðsynlegar fjárskuldbindingar. Hér á ég bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Auðvitað eru líka mörg dæmi þess að menn geti sjálfum sér um kennt, hafi sýnt óforsjálni og ofdirfsku og þannig grafið sína eigin gröf og jafnvel grafið öðrum gröf í leiðinni.
    Við kvennalistakonur höfum haft áhyggjur af þessum málum ekkert síður en aðrir. Ég minni á það að fyrir einum fimm árum lögðum við fram tillögu hér á þinginu um að miða verðtryggingu langtímalána vegna húsnæðis og námslána við vísitölu kauptaxta í stað lánskjaravísitölu. Sú tillaga fékk sára litla umfjöllun hér. Menn benda oft á að misgengi vísitalna getur verið af ýmsu tagi en okkar skoðun var og er sú að raunar sé það réttlátara að launafólk geti miðað sínar áætlanir og framtíðarskuldbindingar við það eina sem það hefur að selja, vinnuframlag sitt.
    Ég vil líka nefna að oft hefur heyrst gagnrýni á það hvernig lánskjaravísitalan er saman sett og margir eiga bágt með að sjá réttlæti í þeirri samsetningu þegar lán manna hækka vegna þess að verð á tóbaki og brennivíni og öðrum slíkum þáttum hækkar. Mörgum finnst það lítt skiljanleg ráðstöfun.
    Þessi umræða hefur nú þróast þannig að lítið hefur verið rætt um frv. sjálft sem er þó tilefni umræðunnar. Ekki er nema allt gott að segja um það að umræðan fari á víðari vettvang því að það er sannarlega umræðu vert hvernig lánskjaravísitalan hefur leikið fólk í þessu þjóðfélagi. Rétt er að minna á og undirstrika það sem hv. þm. Árni Gunnarsson hefur talað um hér, þær eignatilfærslur sem hafa orðið í þjóðfélaginu og þá búseturöskun sem orðin er og við sjáum engan veginn fyrir endann á. Við sjáum alls ekki hvaða afleiðingar hún hefur, ekki aðeins í dreifbýlinu heldur ekkert síður á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún kallar á margfalda uppbyggingu á meðan dýrar byggingar og framkvæmdir úti á landi standa vannýttar. Þetta er hlutur sem verður að fara að taka til rækilegrar athugunar og hafa framkvæmdir um hvernig á að sporna við.
    En svo að ég víki að þessu frv. sem hér er til umræðu, þá er ég ekki alls kostar viss um að sú leið sem þar er valin sé sú besta, þó að ég hafi ekki aðra betri á reiðum höndum. Með henni er verið að hafna verðtryggingu samkvæmt lánskjaravísitölu og lagt til að tengja vaxtastigið því sem gengur og gerist í helstu

viðskiptalöndum okkar. Flm. vill fela Seðlabankanum að ákveða vexti og í rauninni er hann þarna að leggja til að vextir verði gengistengdir með nokkrum hætti. Ég mundi vilja fá nánari útskýringu á því hvernig slíkt kemur út í reynd hjá þjóð sem býr við jafnmiklar hagsveiflur og við. Ég held að nauðsynlegt sé að fram fari efnislegri umræða um þetta frv. en hefur verið, þó þessi umræða sem hér hefur farið fram hafi verið mjög góð og bæði vakið upp margar spurningar og komið með margar upplýsingar.
    Ég hef efasemdir t.d. um 4. gr. þessa frv. sem kveður á um að af spariinnlánum greiðist til jafnaðar vextir 1--2% neðar almennum útlánsvöxtum. Þar finnst mér litið fram hjá því hve almenn útlán eru mismunandi og mér finnst líka litið fram hjá því að innlánskjör eru ákaflega mismunandi. Það eru mörg tilboð í gangi á því sviði og fólk veit ekki fyrir víst hvernig á að snúa sér í þessum málum.
    Ég er einnig ósammála því að hlaupareikningar og ávísanareikningar beri eins lága vexti og þar er lagt til. Ég efast um að það sé rétt sem er sagt í athugasemdum að tíðkist ekki í vestrænum ríkjum að greiða innlánsvexti af veltuinnlánum. Ég held að það sé ekki rétt. Ég veit að það tíðkast í Bretlandi þar sem er töluverð samkeppni milli banka um vaxtakjör á slíkum reikningum. Við skulum ekki gleyma því að þetta eru launareikningar fjölda fólks sem leggur á þennan hátt til stóran hluta af því ráðstöfunarfé sem bankarnir hafa. Ég tel það misskilning að bankarnir hafi í raun kostnað af slíkum reikningum og tel að þeir ættu a.m.k. að greiða þá vexti sem eru greiddir af meðalupphæð mánaðarlega en ekki af lægstu innstæðu eins og nú er.
    En það er langt frá því að ég finni þessu frv. allt til foráttu, ég tel að skoða ætti það mikið betur en gert hefur verið hér enn þá. Vonandi verður það gert í nefnd og kæmi þá kannski eitthvað út úr því sem menn gætu fótað sig á til þess að breyta á einhvern máta þeirri efnahagsstjórnun sem hefur verið hér.
    Þessi umræða hefur tekið þá stefnu að mikið hefur verið talað um þróun vaxtamála og fjármagnskostnaðar undanfarin ár. Þá vil ég nú enn minna á þegar
Sjálfstfl. og Framsfl. í bróðerni innleiddu vaxtafrelsið forðum og að því er virðist án þess að gera sér nokkra grein fyrir þeim áhrifum sem það hefði. Trúlega hefur ein orsök þess að þessi stefna var tekin verið sú kenning að háir vextir leiddu til sparnaðar. En það er hlutur sem alls ekki allir eru sammála um og mér sýnist ekki að sú hafi orðið raunin hér. Nú fórnar forsrh. höndum og skilur ekkert í hvernig málum er komið, en tilraunir ríkisstjórnarinnar, ef þær hafa einhverjar verið, til að lækka vexti hafa engan árangur borið enn, þó því sé lofað í stjórnarsáttmála að að þeim málum skuli unnið. Og ég vil leggja þá spurningu fyrir hæstv. ríkisstjórn hvort hún sé búin að gefast upp við að hafa einhverja stjórn á þessum málum, hvort hún ætli að viðurkenna vanmátt sinn.
    Það er margt í þessu sem hefði þurft að ræða frekar en ég var satt að segja ekki undir það búin að taka þátt í þessari umræðu í dag. Ég hélt að hún færi

ekki fram fyrr en seinna. En ég vildi nefna eitt atriði sem oft heyrist í máli manna, sérstaklega þeirra sem ekki lifa og hrærast í fjármálaheiminum en þurfa nú samt sem áður annað veifið á einhverri fjármagnsfyrirgreiðslu að halda. Stundum þurfa þeir á því að halda að geyma fjármuni sína um lengri eða skemmri tíma í bönkum. En útfærslan á vöxtum er oft og tíðum svo flókin að fólk getur með engu móti áttað sig á hver útkoma dæmisins verður. Það er þess vert að velta því upp hvort ekki sé ástæða til að setja lánastofnunum einhverjar reglur eða fyrirmæli um að upplýsa almenna lántakendur á mannamáli um það hvernig fjármáladæmi þessi muni þróast að teknu tilliti til vaxta og lánskjara. Þetta held ég að væri mjög þarft verkefni að vinna. Og ég vil, fyrst hæstv. ráðherra er viðstaddur, biðja hann að svara þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin hafi uppi einhver áform um að reyna að lækka vexti í þessu landi og fjármagnskostnað þannig að fólk þurfi ekki að horfa eftir eignum sínum út í eilífðarbláinn.