Málrækt 1989
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það fór nú svo að hv. 6. þm. Reykv. lagði áherslu á það sem ég mundi kalla aðalatriði þessa máls.
    Þó að börn hafi almennt verið kennd við föður hefur það verið vitað að tungan var kennd við mæðurnar. Og móðurmál er það sem menn læra í þessu landi. Þess vegna er það ekki það sem gerist uppi í Háskóla eða í menntaskóla sem ræður úrslitum. Það sem ræður úrslitum er hvað gerist fyrstu sjö árin í lífi einstaklinganna. Við sem höfum fengist við kennslu eigum minningar um börn sem koma í skóla svo vel talandi að ég er sannfærður um að margir fara út úr menntaskólum með miklu slakara málfar en þessi börn. Og ástæðan var ekki aðeins sú að þau væru vel af guði gerð, heldur hitt að það málumhverfi sem þau höfðu alist upp í var það jákvætt og það agað að það hafði fært þeim svo mikla þekkingu. Þetta er ekki endilega bundið við það hvort barnið er alið upp í sveit eða borg. Þetta er e.t.v. líka bundið við það hve rúman tíma foreldrar hafa haft til að sinna sínum börnum.
    Ég minnist þess að það eru ekki mörg ár síðan að ég vissi að það var ungur drengur að vaxa úr grasi í Kópavogi sem hafði Íslendingasögurnar sem sitt aðallestrarefni. Og þegar ég var um tvítugt vissi ég um annan úti í sveit sem var svo límdur við þennan sama bókastofn. Ég get þess vegna ekki tekið undir það sem skáldið orðaði svo: ,,Senn á Byron engan yl og ekki Njála heldur.`` Ég trúi því að framtíð bókmenntaverka og framtíð íslenskrar tungu sé ekki í hættu. Og ég held að hið svokallaða málræktarátak --- ég segi svokallaða vegna þess að auðvitað vinna menn enga sigra á því sviði á einu ári, það er miklu stærra og lengra verkefni --- hafi aftur á móti sannað að ástandið er ekki jafnslæmt og bölsýnismenn hafa viljað boða.
    Aðalatriðið er hins vegar það að snúa sér að því að talsetja allt erlent efni sem börnum er ætlað að horfa á í sjónvarpinu, talsetja allt erlent efni
með íslensku tali sem börnum er ætlað að horfa á í sjónvarpinu. Það er það fyrsta. Stórþjóðir eins og Frakkar, með mikla menningarsögu, hafa þann metnað að í frönsku sjónvarpi kemur ekkert annað en franskt tal. Þeir taka erlendar myndir og talsetja þær. Hvort það er einhver kúrekamynd úr villta vestrinu eða eitthvað frá Þjóðverjum eða Bretum skiptir ekki máli. En það þarf að gera meira en þetta. Það þarf að leigja út frá almenningsbókasöfnum Íslands myndbönd með íslensku tali fyrir þessa aldurshópa. Og þegar ég segi þetta, þá tel ég að hægt sé að hjálpa íslenskum mæðrum við það verk sem þær hafa fyrst og fremst unnið, hvort sem karlmennirnir eiga nú að taka þátt í því eða ekki, og það er að kenna börnum móðurmálið.
    En ég ætla að bæta þessu við: Ég hef horft á það að við erum með virðulega stofnun í þessu landi, Þjóðleikhúsið. Þar er mikill fjöldi hæfra leikara, mannval að mörgu leyti. Hins vegar er að svo að

menn eldast og það er ekki víst að það henti í öllum þeim verkum sem þar er verið að sýna að skipa á svið þeim starfskrafti sem fastráðinn er hjá Þjóðleikhúsinu. Það er mikil spurning hvort hægt væri að fá þennan starfskraft til liðs við þá sem vilja ná árangri í því að bæta móðurmálið, og kannski er það þessi starfskraftur öðrum fremur sem hefur varið íslenska tungu á seinni árum. Ég minnist þess að það gerðist ábyggilega sjaldan þegar maður var barn að aldri að maður sleppti því að hlusta á útvarpsleikrit, hvað þá að maður sleppti því að hlusta á útvarpssögur sem verið var að lesa upp og þá gjarnan af leikurum. Og væri hægt að koma því þannig fyrir að starfskraftar slíkra aðila yrðu að einhverju leyti nýttir til þess að koma íslensku tali inn á myndbönd sem í dag eru að boða sama boðskapinn og á mínum yngri árum var aðeins til í bókum. Þá lásum við Gulleyjuna, þá lásum við Jón miðskipsmann og margar aðrar erlendar bækur og sáum þetta fyrir okkur ljóslifandi, hvað var að gerast. En auðvitað er búið að taka ævintýrin sem við höfðum þá aðeins í formi bóka og setja þau á nýjan hátt inn í samfélagið, þ.e. í formi kvikmynda.
    Ég ætla ekki með þessum orðum að gera lítið úr því að menn leggi áherslu á ýmsa aðra þætti, en ég undirstrika það að börn eru velflest búin að læra málið þegar þau koma í skólann og eiga að fara að lesa og þess vegna skiptir höfuðmáli hvernig umhverfi þeim er búið til þess að geta lært málið á þessu tímaskeiði.