Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Þann 13. júlí sl. skrifaði heilbrigðisfulltrúi Norðurlands eystra Hollustuvernd ríkisins og óskaði eftir umsögn stofnunarinnar varðandi frágang olíugeymis á Gunnólfsvíkurfjalli. Heilbrigðisfulltrúi bendir á að fyrirhuguð staðsetning sé þannig að hugsanlegur olíuleki mundi skila sér vestur af fjallinu og valda grunnvatnsmengun á stóru svæði og væri þá vatnsból Þórshafnarbúa í hættu.
    Hinn 23. júlí sl. kemur svar frá Hollustuverndinni þar sem bent er á atriði varðandi frágang olíugeymis sem þurfi að lagfæra, m.a. að ekki sé ráðlegt vegna veðurfarsaðstæðna að hafa opna mengunarvarnaþró þar sem búast megi við að hún verði full af snjó og klaka mikinn hluta ársins. Bréf þetta var sent Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og varnarmálaskrifstofunni.
    Hinn 23. ágúst skrifar Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra utanrrn. þar sem gerð er eftirfarandi athugasemd, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerir athugasemdir við staðsetningu og mengunarvarnir 150 tonna hráolíugeymis ratsjárstöðvarinnar. Fyrirhuguð staðsetning olíugeymis landmegin á Gunnólfsvíkurfjalli hefur í för með sér hættu á grunnvatnsmengun. Möguleikar til vatnstöku á Langanesi eru takmarkaðir og grunnvatnsmengun á þessu svæði getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir byggð á Langanesi. Með því að staðsetja olíugeymi ratsjárstöðvarinnar sjávarmegin á Gunnólfsvíkurfjalli má koma í veg fyrir hættu á grunnvatnsmengun vegna hugsanlegs olíuleka [þó vitanlega ekki sjávarmengun].
    Ef ekki þykir fært að breyta staðsetningu olíugeymis ratsjárstöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli er óskað eftir því að mengunarvarnir geymisins verði endurbættar í samræmi við ábendingar Hollustuverndar ríkisins, þ.e. að utan um tveggja tomma neyslulögn komi plastpípa sem tæki við hugsanlegum leka á lögninni og byggt verði yfir tank og þró þannig að um virka mengunarvarnaþró verði að ræða allan ársins hring.
    Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra væntir þess að varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytis bregðist fljótt og vel við þessum ábendingum og vilja heilbrigðisnefndar.``
    Engin svör bárust við þessum athugasemdum frá varnarmálaskrifstofunni eða utanrrn.
    Virðulegi forseti. Nú er það svo að upplýsingar sem mér hafa nýlega borist eru á þann veg að ég hefði orðað fsp. öðruvísi hefði ég haft þær þegar hún var lögð fram en ég kaus þó að draga hana ekki til baka.
    Öllum er í fersku minni olíulekinn á Bolafjalli í nóvember þar sem eftirliti var stórlega áfátt. Hefði slíkt skeð á Gunnólfsvíkurfjalli væri núverandi vatnsból Þórshafnarbúa trúlega eyðilagt og sömuleiðis möguleikar þeirra til annarrar neysluvatnstöku. Því er þessi fsp. á þskj. 504 komin fram.
    Hinn 22. nóv. skrifar Heilbrigðiseftirlit Norðurl. e.

skrifstofu varnarmála og mótmælir flutningi á olíu í olíugeyma á Gunnólfsvíkurfjalli þar sem mengunarvarnaþróin sé óvirk og engar af ábendingum Heilbrigðiseftirlits né Hollustuverndar verið teknar til greina. Sveitarstjórn Þórshafnarhrepps skrifar einnig utanrrn. og áréttar þetta. Skemmst er af því að segja að utanrrn. hefur hundsað allar ábendingar þessara aðila og engum bréfum svarað en olía hefur verið flutt í geymana án þess að þær lagfæringar, sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Hollustuvernd og sveitarstjórn Þórshafnarhrepps hafa farið fram á og krafist, hafi verið gerðar. Ég hef því borið fram eftirfarandi fsp. á þskj. 504:
    1. Hefur verið flutt olía í olíugeyma á Gunnólfsvíkurfjalli? Það er ljóst að svo er.
    2. Ef svo er, er það með vitund og vilja viðkomandi yfirvalda?
    3. Hver hefur haft eftirlit með mengunarvörnum á Gunnólfsvíkurfjalli til þessa?
    Við þetta vil ég bæta, með leyfi hæstv. forseta: Hvers vegna svarar utanrrn. ekki bréfum sem því berast um svo alvarleg málefni sem ég nú hef lýst og hvers vegna er ekki tekið tillit til krafna Heilbrigðiseftirlits og Hollustuverndar?