Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Af þeim má ráða að ríkisstjórn Íslands lítur svo á að í umræddu viðtali hafi ekki falist afskipti sendiherra Bandaríkjanna af íslenskum innanríkismálum. Og utanrrh. sem réttilega fer með þessi mál, ekki bara sem utanrrh., hann fer með þau fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og íslensku þjóðarinnar, hefur ekki talið tilefni til afskipta af málinu. Það verður að líta svo á að það sé niðurstaða ríkisstjórnar Íslands. Ég er fyllilega sammála þessari niðurstöðu og fagna því á hvern veg hæstv. utanrrh. hefur haldið á þessu máli. Einkasamtal hæstv. forsrh. við utanrrh. Bandaríkjanna hefur auðvitað enga þýðingu í þessu efni, enda hefur ekkert komið fram um það hvaða efnisatriði voru þar til umræðu og því síður að hæstv. forsrh. hafi fylgt hinni stóru yfirlýsingu sinni eftir sem var gefin á Alþingi 21. des.
    Niðurstaða málsins er sem sagt sú, og hæstv. utanrrh. staðfestir það, að yfirlýsing hæstv. forsrh. var markleysa. Það er niðurstaða ríkisstjórnar Íslands að yfirlýsingin hafi verið marklaus með öllu. Það vekur auðvitað upp nýjar spurningar. Hvernig má það vera að slíkt geti gerst að forsrh. gefi slíkar yfirlýsingar og ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að þær séu markleysa? Það kann svo sem að vera átölulaust þegar um er að ræða innanríkismál. Menn eru öllu vanir í þeim efnum hér heima. En hvernig eiga ríkisstjórnir annarra ríkja að líta á ummæli forsrh. þegar ríkisstjórnin sjálf staðfestir með svo ákveðnum hætti sem hæstv. utanrrh. hefur gert að á ummælum hæstv. ráðherra beri ekki að taka mark? Hvernig á ríkisstjórn Bandaríkjanna eða aðrar ríkisstjórnir að líta á ummæli hæstv. forsrh. í öðrum málum þegar fyrir liggur að ekkert er að marka yfirlýsingar hans um jafnviðkvæm mál og samskipti ríkja og hvort sendimenn erlendra ríkja haldi sig við þá
alþjóðasáttmála sem um setu þeirra hér á landi gilda? Þetta eru auðvitað stórar spurningar og alvarlegar og hafa áhrif á stöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum. Það er mikilvægt að ráðherrar, og ég tala nú ekki um hæstv. forsrh., hagi orðum sínum á þann veg að a.m.k. erlendis sé hægt að taka mark á þeim yfirlýsingum og líta á þær yfirlýsingar sem yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Því miður hefur annað komið í ljós í því efni og það er hin alvarlega staðreynd þessa máls.