Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þeirrar þingskapaumræðu sem nú er hafin vill forseti taka fram eftirfarandi áður en lengra er haldið. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á stofnun umhverfismálaráðuneytis. Fyrir jól, þegar reyna átti að afgreiða frv. sem nú er til umræðu, varð að samkomulagi að fresta umræðu og afgreiðslu þar til eftir jólaleyfi. Þá var um það rætt að taka málið á dagskrá þegar eftir að þing kæmi saman að loknu jólaleyfi þm. Frv. sem hér um ræðir var afgreitt frá allshn. hv. deildar miðvikudaginn 24. jan. Þá þegar reyndi forseti að ná samkomulagi um það að málið fengi að koma á dagskrá. Það tókst ekki og var þá rætt um að málið kæmi á dagskrá sl. mánudag. Þá stóð svo á að framsögumenn meiri og minni hl. allshn. þurftu að fara utan og einnig hæstv. ráðherra Hagstofu. Þá tókst samkomulag um að málið kæmi á dagskrá fimmtudaginn 1. febr., þ.e. í gær. Þá stóð svo á að slíta þurfti þingfundi kl. 5 vegna óska sjálfstæðismanna um að fá tíma fyrir þingflokksfund. Umræðurnar stóðu þá í þrjár klukkustundir.
    Í þessari viku hafa verið mjög stuttir fundir í hv. deild og að mati forseta er það fullkomlega eðlilegt að halda fund í dag, föstudag. Forseti er staðfastlega þeirrar skoðunar að í þessu máli hafi verið farið fram með fullkomlega þinglegum hætti og að ekki sé hægt að bera honum á brýn offors, óþinglegt framferði eða aðra þá framkomu sem óþingleg getur talist.
    Fleira hefur forseti ekki um þetta mál að segja.