Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Það var einmitt um þingsköp og það var einmitt um það sem hæstv. forseti sagði þegar hann gerði grein fyrir þeim umræðum sem fara fram í dag og gerði grein fyrir því að ræða ætti hér í dag 129. mál Alþingis vegna þess að ríkisstjórnin gerði kröfu til þess að þetta frv. fengi afgreiðslu á Alþingi og það yrði að gera með alveg sérstökum hraða. Ég spyr: Er það ríkisstjórnin eða eru það alþingismenn sem eiga kröfu á að þau mál sem hér eru flutt verði til umræðu? Ef það frv. sem er 4. mál Alþingis hefði fengið þá afgreiðslu sem það frv. sem hér er til umræðu fær værum við e.t.v. ekkert að ræða 129. mál Alþingis í dag. Mál nr. 4 var flutt á síðasta þingi. Frumvarpið gerir grein fyrir með hvaða hætti menn hyggjast hafa umhverfismál í stjórnkerfinu. Það er ekki hugsunin eða tillaga í því frv. að stofna ráðuneyti án verkefna. Þar er verið að leggja til hvernig hægt er að ná samstarfi á milli aðila til þess að ná fram því sem allir vilja, þ.e. samræmdri stjórnun á umhverfismálum.
    Ef nú flm. frv. á þskj. 4 gerðu þá kröfu til forseta og þeirrar nefndar sem fjallar um þetta mál að hér yrði farið að samkvæmt númeraröð mála hér á Alþingi, tæki forseti þá þá kröfu til greina og léti afgreiða það frv. sem ég vakti athygli á og héldi svo fundi á föstudegi til að ná þessu frv. fram? Ég vildi vekja athygli, einmitt í umræðu um þingsköp, á þessum orðum forseta varðandi það hvernig umræður eiga sér stað nú á hinu háa Alþingi.
    Ég vil svo taka undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði um starfstilhögun og undirstrika það sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði varðandi það sem nú er að gerast á vinnumarkaðinum og hversu miklu eðlilegra það hefði verið að hér hefði hæstv. forsrh. komið og gert grein fyrir þeim málum og hér hefði þingheimur getað fengið tækifæri til þess að láta skoðanir sínar í ljósi á því sem þar hefur verið að gerast og með hvaða hætti Alþingi væri tilbúið að standa að þeim hlutum.