Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu fjallar um hernaðarmannvirki. Við kvennalistakonur erum því andmæltar og leggjumst gegn málinu. Ísland á ekki að dragast inn í hernaðarnet meira en orðið er heldur eigum við fremur að losa okkur úr slíku neti. Íslendingar eiga sjálfir að byggja sína flugvelli eftir þörfum og getu.
    Umræða um hernaðarmannvirki byggð á vegum hernaðarbandalags er í raun tímaskekkja í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa á sl. mánuðum. Má ég minna hv. þm. á stórfelldar breytingar sem orðið hafa í Evrópu nú nýlega. Þær eru ótrúlegar og nær stöðugar í lýðræðisátt, þær breytingar sem verða meðal þjóða Austur-Evrópu. Þessar breytingar raska grundvelli, römmum og innviðum stjórnmálakerfa og þjóðfélagsskipunar þessara þjóða. Það sem mikilvægara er, þær boða nýjan hugsunarhátt, nýtt gildismat. Þær eru afleiðingar hugarfarsbyltingar. Þær bjóða upp á óteljandi samstarfsmöguleika Evrópuþjóða á friðsamlegan hátt. Þær gera hernaðarbandalög gærdagsins að úreltum fyrirbærum.
    Þessar breytingar krefjast mikils af almenningi og kjörnum fulltrúum hans í löndum Austur-Evrópu en þær gera einnig miklar kröfur á hendur Vestur-Evrópubúum og Bandaríkjamönnum um skynsamleg viðbrögð. Í kjölfar atburðanna í Austur-Evrópu hafa bandarískir þingmenn tekið þá ákvörðun nú nýlega að draga allverulega úr kostnaði vegna herstöðva sinna í Evrópu og víðar. Því verða allmargar bandarískar herstöðvar í Evrópu lagðar niður. Því miður er herstöðin hér á landi ekki enn þá þeirra á meðal. Ríkar ástæður eru til þess að ætla að afvopnun stórveldanna muni halda áfram og aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu og friðsamleg samskipti Evrópuþjóða og Bandaríkjanna. Málefni og staða hernaðarbandalaga, bæði Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, eru nú í mikilli deiglu og væri nær að mannafla þeirra og fjárstyrk yrði beint að því að lagfæra þau alvarlegu umhverfisspjöll sem þegar eru orðin í Evrópu og enn fremur að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu umhverfis af völdum iðnaðar- og hernaðaruppbyggingar.
    Ég endurtek: Við kvennalistakonur leggjumst gegn þessu máli. Það er óþarft. Íslendingar eiga sjálfir að byggja sína flugvelli. Það eitt er okkur sæmilegt.