Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þetta er mjög gagnleg og fróðleg umræða. Ég vil byrja á því að leiðrétta það sem hv. síðasti ræðumaður, Stefán Valgeirsson, sagði. Ég sagði ekki hér að samningur sá sem var samþykktur hér á Alþingi fyrir rúmum 40 árum, fyrir 40 árum og einhverjum mánuðum betur, gerði það að verkum að það þyrfti ekki að fjalla um málið, ég sagði það ekki. Ég sagði að utanrrh. væri bundinn af þeirri samþykkt. Varnarsamningurinn er í gildi milli Íslands og NATO. Ætlar hv. þm. að halda því fram að varnarsamningurinn sé ekki í gildi? Við erum aðilar að varnarskipulagi mestu mannréttinda og bestu lífskjara í heimi. Við getum verið stolt af því að vera þátttakendur í slíku.
    Það er ekki rétt sem komið hefur fram að við viljum ekki sjá afvopnunarmöguleika, það sem er að gerast fyrir austan tjald. Það eru í einu orði sagt mjög stórkostlegir hlutir að gerast þar. Við skulum vona að það gangi vel. Ég vona bara til guðs að það gangi vel. En það þýðir ekki það að við ætlum eitthvað að fara að gefast upp á lýðræðinu. Við erum ekkert að gefast upp á lýðræðisskipulaginu, mestu mannréttindum í heimi og bestu lífskjörum í heimi. Það er svo órafjarri því. Það þýðir ekki það að við ætluðum að vera hér með einhverjar byssur í allar áttir.
    Það er alveg rétt sem hæstv. utanrrh. sagði. Það eru líkur á því að hlutverk Íslands muni verða meira eftir væntanlega afvopnunarsamninga sem vonandi verða gerðir sem fyrst. Eftirlitshlutverkið hlýtur alltaf að verða mikið. Varaflugvöllur er nauðsynlegur þó ekki væri nema vegna reksturs á flugvélum. Það kostar mikla peninga í dag fyrir varnarliðið að fljúga alltaf með aukaeldsneyti fram og aftur yfir hafið vegna þess að næsti varaflugvöllur er í Skotlandi. Það kostar sennilega miklu meiri peninga en okkur dettur í hug. Þetta er rekstrarlegs eðlis og það gefur okkur á Íslandi stórkostlega möguleika varðandi útflutning á ferskum matvælum því að í því er mikil framtíð. Það er hinn nýi tími að
flytja út matvæli fersk. Ég harma það að það skuli ganga jafnilla hjá flugfélagi eins og Flying Tigers í Keflavík (Gripið fram í.) Þeir lenda hérna þó það sé ekki varaflugvöllur en þeir mundu örugglega lenda miklu oftar, það er alveg gulltryggt, ef þeir hefðu varaflugvöll. Því að eins og ég sagði áðan þurfa þeir að hafa 20 tonn af aukaeldsneyti vegna þess að varaflugvöllurinn er í Skotlandi. Í staðinn gætu þeirra haft annaðhvort 200 farþega eða 20 tonn af einhverjum flutningi. Það gefur auga leið.
    Þetta er mál sem varðar framtíðina. Flutningar fara í síauknum mæli loftleiðis. Það er verið að smíða þessar stóru flugvélar út um allan heim. Framtíðin er sú að flytja matvæli fersk á markaðinn. Dýrasti fiskmarkaður í heimi, hvar er hann? Hann er í Tókíó í Japan. Þangað komum við aldrei fiskinum nema ferskum og dýrum. Þar er dýrasti fiskurinn í heiminum. Á þetta eigum við að sigta. Á þetta eigum

við að setja okkar markmið, að koma okkar matvælum á þennan markað. Þar fyrir utan er fullt af vannýttum matvælum hér við strendur landsins. Ég get nefnt bara krabbadýr og bobba og ígulker sem dæmi sem er enginn markaður fyrir nema fersk.