Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem hér hefur komið fram í máli hv. 3. þm. Reykv. en hún gerði grein fyrir ýmsu því sem á döfinni hefur verið á undanförnum árum varðandi þessi mál.
    Ég tek undir það að þetta er mjög þýðingarmikið mál en ég er ekki sammála því sem kom fram í máli hv. 1. flm., 10. þm. Reykv., þegar hann sagði að það hefðu verið rangar áherslur hjá skólamönnum í þessum efnum og tilgreindi þá sérstaklega Reykjavík. Ég held nefnilega að það séu allir sem eitthvað hafa með skóla að gera fyrir löngu farnir að gera sér grein fyrir því að það eru einmitt þessir þættir sem þarf að leggja ríka áherslu á, að hugsa um innra starf skólanna en ekki aðeins ytri umbúnað.
    Það má vel vera að svo hafi verið á tímabili, enda er auðvitað þörf á að byggja hús yfir skóla en það er ekki síður þörf á að hugsa um það sem fer fram innan dyra og ég held að sem betur fer séu skólamenn almennt farnir að gera sér grein fyrir því vegna þess, eins og fram kom í máli hv. 10. þm. Reykv., að það eru breyttar áherslur í þjóðfélaginu. Fjölskyldulífið hefur breyst og samsetning fjölskyldunnar og aðstaða foreldra og þá um leið barna. Þess vegna er þetta mjög brýnt mál sem hér er verið að fjalla um, þ.e. skólamáltíðir, en ég er ansi hrædd um að það yrði erfitt að koma þessu í framkvæmd ef það ætti að setja um það lög sem ættu að vera komin í framkvæmd haustið 1990, þ.e. á komandi hausti.
    Ég held að það sé svo margt hægt að gera í þessum efnum án þess endilega að lagasetningu þurfi til. Þetta eru fyrst og fremst framkvæmdaatriði og til þess að nýta sér þá aðstöðu sem er á hverjum stað, því að ég held að það séu fáir skólar svo illa settir að það sé ekki hægt með góðum vilja að lagfæra þessi mál og sinna nestismálum eða máltíðum barna í skólum. Það er ekki endilega víst að heit máltíð sé það besta. Aðalatriðið er að börnin fái hollan og
næringarríkan mat. Sem betur fer er farið að leggja áherslu á þetta í skólum bæði hér í Reykjavík og annars staðar.
    Í greinargerð með þessari þáltill. er sagt frá því sem gert hefur verið í Kópavogi og þar hefur verið gert margt gott. Ég held að þar hafi einmitt verið farin sú leið, og hún sé ekki mjög kostnaðarsöm, að ráða t.d. matmæður sem sinna þessu hlutverki, elda súpu og smyrja brauð fyrir börnin og gefa þeim annan hollan og góðan mat sem auðvelt er að gera kannski miðað við lítið breyttar aðstæður í skólanum.
    Þetta vildi ég nú aðeins láta koma hér fram um leið og ég minni á það sem kom reyndar fram í máli hv. 3. þm. Reykv. að það var strax á árinu 1983 þegar hún var nýlega orðin menntmrh. að hún skipaði nefnd sem hún skýrði hér frá og ég átti sæti í og veitti reyndar forstöðu ásamt öðrum þm. hér, hv. 6. þm. Reykv. Við sátum báðar í þessum vinnuhópi og þar var mikið fjallað um þessi mál. Ég vil benda hv. 10. þm. Reykv. á, ef hann hefur ekki lesið þær tvær

skýrslur sem voru gefnar út um störf nefndarinnar, að kynna sér þær því þar kemur ýmislegt fram um einmitt þennan þátt. Eitt af okkar verkefnum var að fjalla um nestismál skólabarna fyrir utan samfelldan skóladag og fleira sem lýtur að börnum í skólum.
    En ég vil endurtaka það að ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni, þ.e. að tryggja börnum nr. eitt, tvö og þrjú holla og góða næringu í skólanum á skólatíma. Það hefur sýnt sig og rannsóknir hafa sannað það að þeim börnum sem er tryggð holl og góð næring í skólanum gengur betur í námi en öðrum. Rannsóknir á þessu hafa verið gerðar erlendis og sanna að það er rétt.
    Eins og ég sagði áðan, þá dreg ég í efa að það sé endilega nauðsynlegt að setja sérstaka löggjöf um þetta mál. Ég held að það sé miklu raunsærra að framkvæma þetta í skólum landsins og það sé vel hægt að gera það svo viðunandi sé.