Dvergkafbátur
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um könnun á kostnaði við kaup og rekstur dvergkafbáts. Flm. er auk mín Ingi Björn Albertsson. Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna kostnað við kaup og rekstur dvergkafbáts.``
    Í grg. stendur m.a.: ,,Sumarið 1988 var fenginn hingað til lands dvergkafbátur til rannsókna við Kolbeinsey. Árangur þessa leiðangurs bendir til að vísindalegur og fjárhagslegur ávinningur yrði af rekstri dvergkafbáts. Það hefur víða færst í vöxt að slíkir bátar séu notaðir til rannsókna neðan sjávar og með góðum árangri. Þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á öflun sjávarfangs hlýtur að leggja vaxandi áherslu á rannsóknir til að auka sem mest afrakstur þess á komandi árum. Sú bylting, sem rannsóknir með dvergkafbát hefðu í för með sér, er augljós, en nú þegar hafa verið gerðar merkar rannsóknir neðan sjávar á hafsvæðum víða um heim sem ekki hefði verið unnt að framkvæma með öðrum hætti. Það má ekki gleyma hversu mikilvægt er að fylgjast með mengun og huga að mengunarhættu neðan sjávar en aðeins með varðveislu lífríkis sjávar er hægt að tryggja eðlilegan viðgang náttúrunnar í hafinu umhverfis landið. Einnig er ljóst að ný og óþekkt fyrirbæri í hafinu geta leitt til framfara og nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Og enn á ný
má minna á leiðangurinn til Kolbeinseyjar þar sem áður óþekktar lífverur fundust sem ef til vill geta orðið grundvöllur nýs iðnaðar hér á landi.``
    Í lok síðasta árs gátu sjónvarpsáhorfendur séð með eigin augum hvernig umhorfs er á háhitasvæðunum við Kolbeinsey. En þá var sýnd mjög fróðleg mynd um rannsóknir og leiðangra sem hafa verið farnir víða um heim um undirdjúpin. Þessi mynd sýndi glögglega að mikill ávinningur er að slíkum rannsóknum og ljóst er að vaxandi áhugi er á þessum vettvangi en hann hefur lítt verið kannaður. Vísindamenn hafa nú fengið aukinn áhuga á þessum vettvangi en þekkingin á undirheimum sjávar er enn mjög takmörkuð. Þann mikla áhuga sem núna hefur komið fram við rannsóknir á þessu sviði getum við Íslendingar ekki látið fram hjá okkur fara. Það er og brýnt að hér við land fari fram rannsóknir neðan sjávar sem sýni áhrif fiskveiða á sjávarbotn, gróður sjávar og jafnframt verði skoðuð hugsanleg mengun í hafinu hér í kringum landið.
    Það þarf auðvitað ekki að lýsa því hversu mikilvægar slíkar rannsóknir eru fyrir fiskveiðiþjóð eins og okkur Íslendinga. Það er ekki nokkur vafi að kaup og rekstur á dvergkafbát er nýjung sem margir líta á sem dálítið skondið mál en það er það auðvitað ekki. Það hefur komið fram að þrátt fyrir hraðfara framþróun í gerð neðansjávarmynda með ýmsum hætti hefur ekkert enn komið fram sem getur komið í staðinn fyrir rannsóknarkafbáta sem fara niður á djúpin til að taka sýni og myndir. Smíði slíkra skipa er vaxandi atvinnugrein víða um heim. Þá hafa orðið

miklar framfarir á þessu sviði sem sést best á því að hjá nokkrum þjóðum hafa verið þróaðir bátar sem fara niður á dýpi sem er frá 6 þús. metrum niður á 7 þús. metra. Þessar framfarir þýða að hægt er að fara um svæði sem áður voru ókunn og hafa ekki verið könnuð áður.
    Ég vil einnig undirstrika hér vaxandi þýðingu á rannsóknum á hafsbotni, til að mynda vegna deilna um yfirráðarétt hafsvæða. Ég nefni hér sem dæmi okkar tilkall til Rockall-svæðisins sem m.a. þýðir að við verðum að leggja fram rannsóknir á þessu svæði til þess að við getum varið málstað okkar.
    Þá er það svo að hin fullkomna tækni sem núna hefur verið þróuð hefur gert það sem áður var draumur að veruleika. Vel má vera að á næstu árum verði hlutir eins og vinnsla olíu og málma möguleiki með þeirri tækni sem er þróuð við smíði dvergkafbáta og þess búnaðar sem þeim fylgir.
    Þá er ekki heldur úr vegi að minnast á þýðingu jarðfræðirannsókna með dvergkafbátum. Ég vil í þessu sambandi minna á að rætt hefur verið um að leggja rafstreng frá Íslandi til Evrópu til að flytja út orku og selja. Það þykir ekki fjarlægur möguleiki en ef við lítum á það atriði, þá er mjög mikilsvert að rannsóknir á hafsbotni fari fram til að tryggja að slíkur strengur yrði lagður með sem hagkvæmustum og bestum hætti. Þá er ekki úr vegi að víkja að því að hér hafa farið fram miklar umræður um jarðgöng neðan sjávar og eitt af því sem þarf að rannsaka er jarðfræði þess svæðis sem á að leggja slík jarðgöng um og þá mundi dvergbátur koma að miklum notum.
    Ég vil einnig minnast á það að ég hygg að Íslendingar gætu tekið upp samvinnu við alþjóðastofnanir, t.d. Norðurlöndin, til fjármögnunar og reksturs slíks dvergkafbáts. Þá er auðvitað mikilvægt að við sem fiskveiðiþjóð förum í fararbroddi í rannsóknum neðan sjávar því að ekki er nokkur vafi á að slíkar rannsóknir munu skila þjóðarbúinu miklum verðmætum þegar fram líða stundir.
    Ég hef aflað mér töluverðra upplýsinga um dvergkafbáta, bæði hvað varðar tækni og verð. Í þessari ræðu verður ekki farið sérstaklega inn á hinn flókna tæknibúnað sem dvergkafbátar eru búnir, en það er ljóst að það hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði og allmargar þjóðir og mörg fyrirtæki hafa lagt mikla áherslu á smíði þeirra á undanförnum árum. En mjög mismunandi er hvað
þeir kosta eftir því hversu fullkomnir þeir eru og hve djúpt þeir geta kafað. Það má segja að hægt sé að fá dvergkafbáta sem fara frekar grunnt og kosta tiltölulega lítið, örfáar milljónir, og upp í mjög fullkomna kafbáta og stóra sem kosta kannski upp í 250 millj. En auðvitað þarf þetta miklu frekari og betri athugunar við og um það fjallar tillagan, að ríkisstjórninni verði falið að kanna þessi mál frekar og athuga jafnframt kostnað við kaup og gerð og rekstur slíkra báta.
    Ég vil, hæstv. forseti, að svo stöddu ekki hafa þessi orð fleiri en mælist til þess að málinu verði vísað til allshn. sameinaðs þings.