Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hér hafa haldið ræður tveir fyrrv. stuðningsmenn ríkisstjórnar sem sat að völdum í sex ár. Stuðningsmenn ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar. Lýsingin á því hvernig þessi ríkisstjórn skilaði af sér og hvernig ástandið er getur ekki verið skýrari en í ræðum þessara ágætu þingmanna. Hitt er svo kannski að sumu leyti satt að því miður hefur ekki tekist sem skyldi að laga ástandið eins og þyrfti miðað við þau ósköp hvernig þeir skildu við. Lýsingar hv. þm. Friðriks Sophussonar á þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar í þessari lotu gerði, þær voru allt annað en fallegar.
    Ég hef ekki heyrt yfirlýsingu frá þm. Sjálfstfl. fyrr um það að greiðslur úr Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði muni ekki verða greiddar. ( FrS: Á tilskildum tíma.) Ég hef svona efast um þetta. Ég efast um þennan sjóð. En ég hef ekki heyrt betur en að þm. Sjálfstfl. hafi talið þetta hina réttu leið sem farin var í sambandi við Atvinnuleysistryggingarsjóð. Margir hverjir af þm. og forustumönnum Sjálfstfl. í almennum atvinnurekstri hafa talið þetta hina bestu leið. Lána, taka lán og lána bæði í Verðjöfnunarsjóð og beint til atvinnufyrirtækjanna. Þessar yfirlýsingar frá hv. þm. Framsfl. og Sjálfstfl. eru fyrst og fremst yfirlýsingar um það hvernig stjórnað var 1983--1988, til september 1988. Bein yfirlýsing um það. (Gripið fram í.) Sjálfsagt eru fleiri þm. Framsfl. tilbúnir að taka undir það að það er mjög erfitt að stjórna landinu með Sjálfstfl. Það hefur ekki tekist vel, því miður, og má vera að það sé eitthvert ljós fram undan núna vegna þess að styrkleiki Sjálfstfl. er ekki mjög mikill nema í skoðanakönnunum. ( Gripið fram í: Og efnahagsmálin komi til framsóknar.) Efnahagsmálin til framsóknar. Þau hafa nú stundum verið hjá framsókn og forustan í annarri þessari ríkisstjórn var hjá framsókn og ekki tókst nú mikið betur til þá, þannig að það verður nú að líta svo á að þessi lýsing sem hér var sett fram af þessum tveimur þm. hafi verið sameiginleg yfirlýsing Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins um hvað hafi mistekist á þessu tímabili, stjórnartímabili þeirra.
    Það væri hægt að hafa mörg orð um þessar útlistanir, þær undirstrikanir á því hvernig ástandið er, en ég sé ekki ástæðu til þess. Það er nú sjálfsagt komið að þeim tíma að menn þurfi að mæta á þingflokksfundum og ég ætla að gefa þeim framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum tækifæri til þess, eyða ekki miklu af þingflokksfundartíma þeirra, þannig að þeir geti farið að spekúlera í því, bæði hvernig liðinn tími var, samstjórnartími þeirra, og hverju má úr bæta.
    Hér voru nefndir ágætis punktar sem að mörgu leyti er hægt að taka undir en það verður svolítil alvara að fylgja hverju slíku sem fram er lagt sem þessu og það væri kannski von til þess að við sæjum ákveðnari tillögur frá Framsfl. um það hvernig ætti að breyta ýmsum þáttum þjóðfélagsins, t.d. í sambandi

við fiskveiðistefnuna. Ég hef grun um það að Framsfl. muni að miklu leyti standa að því að fiskveiðistefnunni verði ekkert breytt, hún komi bara óbreytt eins og hún hefur verið frá því 1983. (Gripið fram í.) Ja, formaður sjútvn. Ed. hefur hálfpartinn gefið til kynna að einhver von sé til þess að þar verði einhver breyting á, um áramótin, og að fallið verði frá sóknarmarkinu sem átti að vera alveg hreint undirstaðan í fyrrverandi fiskveiðistefnu. Ég hélt nú að framsóknarmenn
segðu um það að með því að breyta slíku væri náttúrlega undirstaðan undir stefnunni hrunin og það þyrfti að breyta mikið meiru. En nóg um það. Ég sé að það er a.m.k. einn þm. Sjálfstfl. sem þarf að undirstrika það hvernig ástandið var þegar Sjálfstfl. fór út úr ríkisstjórninni og ég vil endilega gefa honum tækifæri til að komast að.