Nýting lausra leigusala
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Virðulegur þingmaður. Ég flyt hér till. til þál. um að nýta lausa leigusali undir starfsemi á vegum ríkisins. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta athuga hvort hægt er að nýta lausa leigusali undir starfsemi á vegum ríkisins. Verkinu verði lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir þessari tillögu er fyrst og fremst sú að með þessu móti telur flm. að hægt sé að spara í ríkisrekstri. Opinber starfsemi kallar stöðugt á meira húsnæði. Skólar og fleiri stofnanir virðast vera meira og minna í húsnæðishraki. Oft er húsnæðisvandinn tímabundinn eða árstíðabundinn. Í skólakerfinu tæmast barnaskólar og unglingaskólar smám saman eftir því sem íbúðabyggðin flyst til í borgarlandinu og í sveitarfélögum. Barnafólk sest að í úthverfum. Gildi skóla sem eru nær miðbæjum minnkar stöðugt vegna þess að fólkið flyst burt frá kjarnanum.
    Þess vegna er hér lagt til að skoðað verði hvort ekki megi nýta ýmsa sali undir starfsemi ríkisins sem eru leigðir út. Er þá bæði átt við sali sem veitingastaðir og veitingahús bjóða upp á og eins sali sem félagasamtök, stéttarfélög og fleiri hafa komið sér upp víðs vegar um landið.
    Salir af þessu tagi eru yfirleitt lítið notaðir, hugsanlega aðeins um helgar eða á kvöldin en standa langflestir auðir alla virka daga, t.d. þann tíma sólarhringsins sem kennsla fer yfirleitt fram. Flm. sér t.d. fyrir sér Múlahverfið í Reykjavík þar sem eru margir salir stéttarfélaga og félagasamtaka og stórir veitingasalir. Eins eru þar myndarlegir skólar, bæði
fjölbrautaskólar og einnig fer þar víða fram kennsla á vegum Háskóla Íslands. Með því að taka þessa sali undir kennslu þegar á þarf að halda mundi sparast í flestum tilfellum annaðhvort kaup á húsnæði eða bygging eða þá leiga sem fylgja mundi breytingar og innréttingar á húsnæði og annar aukakostnaður.
    Háskólinn hefur aðeins farið inn á þessa braut og má t.d. spyrja hvort lausn af þessu tagi mundi leysa vanda Háskólans á Akureyri. Eins og með skólana, þá sér flm. fyrir sér að þetta gæti leyst vanda víðar hjá hinu opinbera.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla með að þessi tillaga fari til síðari umræðu og hv. félmn.