Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég kem aftur í ræðustólinn þar sem ýmis tilefni hafa gefist til þess í þessum umræðum að fjalla hér um ýmislegt sem sagt hefur verið. Ég vil byrja á því að þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir upplýsingar sem hún gaf okkur með sinni yfirlýsingu sem hún flutti snemma í kvöld í tilefni af þeirri frétt sem birtist í Dagblaðinu í dag og ég minntist á og beindi til hennar spurningum af því tilefni. Það kom fram í hennar máli að ekki eru allir hv. þm. Alþb. sammála um fylgifrv. margumrædda sem ekki hefur komið enn á dagskrá í Ed. en er að áliti margra okkar, og hennar einnig, meginmál þessa máls eins og kom fram í hennar ræðu. Það stendur eftir hvað hún muni gera við afgreiðslu þessa máls þegar þar að kemur í atkvæðagreiðslu, hún gerði ekki grein fyrir því enda ekki hægt að ætlast til þess. Það kemur fram í atkvæðagreiðslunni.
    Það var hins vegar athyglisverð ræða sem hv. 4. þm. Reykn. flutti. Hann byrjaði á því að fjalla um þetta frv. og hafði þá ekki fylgst betur með en svo að hann vissi ekki að það var búið að breyta frv. og taka frá því þau verkefni sem þó voru tilgreind í ákvæði til bráðabirgða. En þetta getur komið fyrir bestu menn og ekki ástæða til að fjölyrða neitt frekar um það. Það var svolítið sérkennilegt að hlusta á orðatiltæki hans sem ég er ekki enn þá farin að skilja þegar hann var að tala um þessa þingtæknilegu meðferð sem hér væri verið að fjalla um, þetta væri bara pólitískur veruleiki og pólitísk staðreynd og hann furðaði sig á því að það væri erfitt að afgreiða þetta mál, að það væri svona erfitt að svara svona einföldum spurningum. Þess í stað væru menn hér með málþóf og að tala um egg og hænur og skordýr og fara með ljóð. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því þó að hann undrist svona ræður þar sem þingmenn hafa þörf fyrir að ræða efnislega það sem er meginmálið og það er hvað á að gera í
þessu umhverfisráðuneyti. Það virðist ekki skipta hv. þm. neinu máli hvað á að vera undir þeim hatti sem hefur verið nefndur í umræðunni í kvöld. ( KSG: Það kemur.) Það kemur, segir hv. þm. og hann er sammála hæstv. forsrh. sem allt í einu er þeirrar skoðunar að það liggi ekkert á að ákveða hvað eigi að gera í væntanlegu umhverfisráðuneyti.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um það en ég vil bara segja við hv. 4. þm. Reykn. að ég held að þingmenn hafi bara gott af því stundum að vera svolítið skáldlegir í hugsun og gefa sér tíma til að lesa svolítið í bókmenntum, ég tala nú ekki um ef þar er um leið einhvern fróðleik að finna sem getur komið að gagni í okkar störfum. ( GA: Annað eins er nú lesið yfir manni.) Annað eins hefur nú verið lesið yfir manni hér í þinginu, segir hv. 6. þm. Reykv. og tek ég heils hugar undir það. En hv. þm. hefði kannski þótt betur hæfa að lesa eitthvað um efnahagsmál og tölur og prósentureikninga, kerfiskarlamál. Hann hefði kannski skilið það betur en svona málflutning.
    Mér hefur oft dottið það í hug að við hefðum gott af því að byrja hvern þingfund með því að vera

svolítið skáldleg og jafnvel að syngja ættjarðarljóð. Okkur mundi þá kannski ganga betur að ná saman um góð mál. Læt ég þar með útrætt um þann þátt sem snýr að hv. 4. þm. Reykn.
    Ég vil taka undir það sem hæstv. forsrh. sagði þegar hann svaraði hv. 6. þm. Vesturl. að fræðsluþátturinn er auðvitað mjög þýðingarmikill og ekki síður þýðingarmikið, eins og hann nefndi, að almenningur taki þátt í umhverfisvernd. Hann sagði að það væri afar mikilvægt og ég er honum hjartanlega sammála. Það er afar mikilvægt og sem betur fer lætur almenningur í landinu og hin ýmsu frjálsu félagasamtök sig þessi mál heilmiklu varða og gera ýmislegt gott, m.a. til þess að græða upp landið, taka landið í fóstur. Það eru margir sem hafa það á sinni stefnuskrá og er það af hinu góða. En svo furðar hæstv. ráðherra sig á þessum spurningum, hvað liggi á, og hann segir að það liggi alveg óskaplega mikið á og hann getur ekki svarað því, af hverju endilega í þessari viku, öðruvísi en svo að það sé búið að bíða í tólf ár og þess vegna sé ekki hægt að bíða líka þessa viku.
    Við fengum þetta mál hér í allshn. og héldum um það okkar fyrsta fund 14. febr. og næsta fund 15. febr. og þriðja fundinn 19. febr. og sama dag annan fund klukkutíma eftir að fyrri fundinum lauk. Þetta er sú umfjöllun sem við höfum fengið um þetta mál í allshn. hv. deildar þannig að mér finnst það vera dálítið út úr kortinu að vera að væna hv. þm. um það að þeir eyði of miklum tíma í þetta mál. Því er ég ekki sammála. Og þó við hefðum haldið fund í nefndinni aftur 21. febr. og 22. febr. og kannski 9. mars, 11. mars og 13. mars eða hvað við viljum segja, þá hefðum við sjálfsagt haft mjög gott af því og það verið gagnlegt fyrir okkur, að ég ekki tali um að með því hefði gefist tækifæri til þess að fjalla um fylgifrv. jafnhliða og afgreiða þetta með þeirri reisn sem Alþingi ber að gera í svo mikilvægu máli. En hæstv. ráðherra sagði að það væri ekkert úrslitaatriði að afgreiða bæði frumvörpin. Og frv. liggur fyrir, það er meiri hluti fyrir því, sagði hann. Þá er hann að tala um fylgifrv. En við vitum að það eru mjög skiptar skoðanir um ýmsa efnisþætti í frv. og það á eftir að koma í ljós, ekki bara meðal ýmissa þm. heldur líka
þeirra sem hafa með þessi mál að gera utan þings. Við höfum fengið smjörþefinn af því við meðferð málsins í allshn. að það er eftir að leysa mörg vandamál. Og ef ekki þarf að festa í lögum hvaða verkefni þurfi að færa undir hvert ráðuneyti, eins og hæstv. ráðherra var að vitna til Bjarna heitins Benediktssonar, að forsrh. hefði það í hendi sinni, þá spyr ég bara einu sinni enn: Því í ósköpunum er þá verið að tefja þetta mál með því að semja tvö frumvörp og hafa fylgifrv. sem skiptir engu máli? Ég hefði haldið að fylgifrv. væri nauðsynlegt vegna þess að það þurfi að breyta lögum til þess að hina ýmsu málaflokka sem eru samkvæmt lögum í öðrum ráðuneytum megi færa þaðan. Auðvitað hlýtur hæstv. forsrh. að vita þetta betur en ég, en ég hef ekki sannfærst þrátt fyrir það þó ég eigi kannski að taka

meira mark á honum.
    Ég kemst líklega ekki hjá því að fara aftur svolítið til baka. Ég ætlaði eiginlega að vera búin að afgreiða hv. 4. þm. Reykn. en mér finnst einhvern veginn að hann hafi ekki skilið að við hefðum einhverjar skoðanir á þessum málum og hefðum eitthvað verið að fjalla efnislega um þau. Þess vegna er vel við hæfi að eyða svolitlum tíma í að rifja upp með honum þau frumvörp sem hafa verið flutt um breytingar á þessum málum. Ég get m.a. bent honum á frv. sem er 4. mál þingsins og liggur í allshn. Nd. sem þm. Sjálfstfl. flytja. Það er um nákvæmlega sama mál og hér er verið að afgreiða, en bara málefnalega og ítarlega flutt, það er um samræmda stjórn umhverfismála. Það er hægt að fara fleiri leiðir en eina í þeim efnum og það liggur ljóst fyrir að það frv. er samið og flutt vegna þess að það hefur ekki verið samkomulag um hvernig ætti að standa að þessum málum, þ.e. hvar ætti að staðsetja umhverfisráðuneyti og það frv. er flutt eftir að náðst hefur samstaða hinna ýmsu aðila um lausn á því. Frv. er í 16 greinum ásamt ákvæðum til bráðabirgða sem eru í 8 liðum. Og það er dálítið mikill munur á því eða frv. um breytingu á Stjórnarráði Íslands sem er ein grein plús lögfesting, þ.e. tvær greinar sem segja í sjálfu sér ekki nokkurn skapaðan hlut, eru bara orðið tómt.
    Sjálfstæðismenn hafa ekki lagt til að stofnað væri sérstakt umhverfisráðuneyti af einmitt þeirri ástæðu sem ég var að nefna og ekki síður af því að það kostar fjármagn. En það virðist ekki skipta hv. 4. þm. Reykn. neinu eða hann hafi skilning á að það sé einhver munur þar á. Og það verður fróðlegt að fylgjast með því hversu miklu hagkvæmara þetta reynist þegar búið er að koma á umhverfisráðuneyti, ráða til þess starfsfólk eins og hæstv. forsrh. gat um að yrði fyrsta verkefnið, og það skiptir þá engu máli hvað þessir starfsmenn eiga að gera.
    Það er hægt að skella í góm eins og hv. 5. þm. Reykv. var að gera og hv. 4. þm. Reykn. Þeir skella í góm yfir því að ég leyfi mér að segja að það liggi ekki fyrir hvaða verkefni þetta ráðuneyti eigi að hafa á meðan ekki er búið að samþykkja fylgifrv. En það er staðfesting á því að þeim finnst það aukaatriði og skulu nú menn vel merkja.
    En ég ætla ekki að hafa þessi orð mín öllu lengri, hæstv. forseti, ekki á þessu stigi. Það er alltaf tækifæri til að koma hér aftur ef ástæða er til, en ég ítreka það að ég hef ekki enn þá sannfærst um að ekki hafi verið hægt að bíða með afgreiðslu frv. í þessa fáu daga fram yfir þinghléið sem verður vegna Norðurlandaráðsþingsins í næstu viku. Ég hef ekki enn þá getað trúað því eða komið því inn í kollinn á mér að það sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir ráðherra að geta skreytt sig með þessari nafngift, umhverfisráðherra, á Norðurlandaráðsþinginu. En það er eina skýringin sem maður hefur heyrt svona utan frá þó að enginn hafi þorað að nefna það hér í þessari hv. deild. Ég hef ekki fram að þessu verið með neinar persónulegar athugasemdir við háttalag hæstv. ráðherra Hagstofu. Ég hef látið það liggja á milli hluta vegna

þess að ég hef talið að við ættum að vera málefnaleg í umræðunni og halda okkur við umhverfismálin þó að við höfum talað um þau vítt og breitt, og ég tel að við séum í fullum rétti til að gera það, en þegar upp er staðið situr þetta eitt eftir, nafnið tómt. Og ég næ því enn ekki hvers vegna menn hafa ekki séð hversu skynsamlegra það hefði verið fyrir þá sjálfa að láta þetta bíða, fresta afgreiðslu á þessu frv. þar til hitt frv. væri komið hér inn í Ed.
    En ég hef, hæstv. forseti, ákveðið að leggja fram brtt. við frv. ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni varðandi það hvenær lögin ættu að öðlast gildi. Það er gert í trausti þess að ef þessi brtt. verður samþykkt, þá verði a.m.k. búið að afgreiða hitt frv. sem er enn þá í Nd. og við erum ekki búin að sjá hvenær kemur hér í Ed., en ef þessi lög öðlast gildi 1. júní 1990 í staðinn fyrir strax, þá ætti að vinnast tími til að koma þessum málum samhliða í framkvæmd. Ég hef því lagt hér fram skriflega brtt., hæstv. forseti og ég óska eftir að það verði leitað afbrigða við henni.
    Síðan vil ég ljúka máli mínu með því að hryggja hv. 5. þm. Norðurl. e. með því að ég ætla að fresta því að lesa fyrir hann meira um raddir vorsins sem geta þagnað fyrr en varir. Ég er alveg tilbúin að taka smásnerpu í því við 3. umr. ef ástæða er til. Þá er kannski hv. 4. þm. Reykn. líka betur undir það búinn og kemst ekki í eins mikla geðshræringu og hann virtist komast í við lestur minn hér í kvöld en ég vona að hann hafi biðlund þangað til á morgun.