Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Forseta finnst full ástæða til að beðist sé afsökunar á þessu þar sem hæstv. ráðherra hefur nú talað í tíu mínútur í staðinn fyrir fimm. Forseti vill af þessu gefna tilefni, og reyndar öðrum fyrr, beina því til hæstv. ráðherra að þegar þeir leita eftir svörum við fyrirspurnum til sinna embættismanna þá hafi þeir í huga að einungis eru fimm mínútur til umráða. Ég þykist vita að sú sé ástæðan fyrir því að oft verða hæstv. ráðherrar í vandræðum. Þeir vilja auðvitað svara sem ítarlegast en kannski vantar þarna upplýsingar til þeirra sem undirbúa svörin um að þau eigi ekki að vera lengri en fimm mínútur í senn. Hins vegar mætti reyna að skipta þeim þannig að hægt sé að nýta þessar tvisvar sinnum fimm mínútur. Þetta vill forseti segja, ekki einungis vegna ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. heldur almennt til hæstv. ráðherra þó að því miður séu þeir ekki margir inni til að taka við þessum skilaboðum.