Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa í góðan tíma gert okkur grein fyrir því hvað hann hefur hugsað sér um þinghaldið hér í dag. Jafnframt vil ég fara þess á leit við hann að hann endurskoði hug sinn því ég tel útilokað að bjóða upp á að kvöldfundir séu hér tvö kvöld í röð, ekki síst þar sem þessi fundur í dag hófst kl. 10 í morgun. Þetta er því lengri fundardagur en venja er til á fimmtudögum ef þar ofan á á svo að bæta kvöldfundi. Mér skildist á hæstv. forseta að hann gerði jafnframt ráð fyrir fundi á morgun. Ég held að við gerum okkur grein fyrir því að ef ekki tekst að ljúka störfum hér fyrir kvöldmat í dag verðum við að sætta okkur við fund á morgun, en kvöldfund í dag tel ég vera útilokaðan. Þessu vil ég koma hér á framfæri og biðja hæstv. forseta endilega að endurskoða hug sinn í þeim efnum.