Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mál sem af eðlilegum ástæðum verða alltaf nokkrir árekstrar um, þ.e. árekstrar milli hinna ýmsu flokka skipa í íslenska fiskiskipaflotanum.
    Þegar núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett fyrir u.þ.b. þremur árum var framlengt ákvæði sem heimilaði sjútvrh. að opna fyrir togveiðar á sérstökum svæðum fyrir Vestfjörðum og Austurlandi. Þessi svæði voru opnuð af þeim ástæðum að þar var talið að væru kolastofnar í allmiklum mæli sem væru vannýttir og væri rétt að opna þessi svæði fyrir togskip.
    Reynsla af þessum veiðum er allgóð. Það er hins vegar rétt að það er allmikið hlutfall af bolfiski í afla skipanna fyrir Vestfjörðum á haustin. En þó er hér um að ræða veiðar sem eru mjög mikilvægar fyrir nokkur skip, ekki síst frá Vestfjörðum. Mér er tjáð að mestur hluti afla þessara skipa hafi verið ýsa, skarkoli og ýmsar aðrar tegundir svo sem steinbítur, en þorskur hafi ekki verið í mjög miklu magni. Hins vegar liggja ekki fyrir óyggjandi upplýsingar um skiptingu aflans þannig að ég get ekki alveg fullyrt um það. En veit þó að eitt skip frá Ísafirði fékk á sl. hausti um 70 tonn af skarkola á þessu svæði og að þetta svæði er mjög mikilvægt fyrir nokkur togskip á Vestfjörðum.
    Þeir sem stunda smábátaveiðar eru óánægðir með að þetta svæði skuli vera opið fyrir togskipum. Hv. flm. leggur til að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra en ekki sjónarmiða hinna sem hafa jafnframt hagsmuna að gæta og þess fólks sem vinnur aflann.
    Þannig er víða um landið að því er varðar mál sem árekstrum valda. Í slíkum tilvikum er reynt að hafa sem best samráð við heimaaðila um málið. En í þessu tilviki eru skoðanir mjög skiptar.
    Sjútvrn. hefur í ákvörðunum sínum reynt að taka tillit til heildarhagsmuna en að sjálfsögðu ber að endurskoða allar ákvarðanir í ljósi breytinga sem upp koma. Ef í ljós kemur að það er andstætt hagsmunum fólksins sem byggir á þessum afla að umrædd svæði séu opin þá ber að sjálfsögðu að breyta þeim ákvörðunum. En ég efast um það og tel að það hafi þjónað heildarhagsmunum að þessi svæði hafi verið opnuð til togveiða á haustin.