Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær jákvæðu undirtektir sem efni þessarar till. hefur hlotið hér. Ég þakka fyrst hv. 3. þm. Reykv. fyrir ýmsar góðar ábendingar sem hún kom með og ekki síst þá, sem ég minntist trúlega ekki á í mínu máli, hvað það gæti auðgað íslenska menningu og aukið á fjölbreytni mannlífsins hér að fá hingað fólk sem er tilbúið til þess að koma og búa í okkar samfélagi. En það er mjög mikilvægt að komið sé í veg fyrir ýmsa erfiðleika sem gætu komið upp vegna þess að fólk á misjafnlega auðvelt með að aðlaga sig aðstæðum hér.
    Í máli mínu áðan gerði ég aðallega ráð fyrir að um fræðslu fyrir fullorðið fólk væri að ræða, þ.e. fólk sem er komið af skólaaldri en ég er hjartanlega sammála hv. 3. þm. Reykv. um að auðvitað þarf að huga að börnum á grunnskólaaldri líka. Mér er reyndar kunnugt um að skólarnir gera það eftir megni en kvóti til sérkennslu hefur ekki verið nægjanlegur til þess að hægt hafi verið að sinna því sem skyldi en auðvitað þarf að taka á því máli líka.
    Ég þakka líka hæstv. félmrh. fyrir jákvæð viðbrögð hennar. Það starfa greinilega tveir hópar að þessu máli nú um stundir og auðvitað mjög nauðsynlegt og sjálfsagt að þeir tengist til þess að ekki sé unnið að sömu verkefnunum á mörgum stöðum. Ég vona að tillagan fái brautargengi hér miðað við þær undirtektir sem hún fær og þakka enn og aftur fyrir jákvæð viðbrögð við henni.