Fræðsla um kynferðisbrot
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við spurningum mínum og sérstaklega fagna ég því sem verið er að gera í grunnskólanum því að það var löngu tímabært. Mjög miklu máli skiptir einmitt að fræða starfsfólkið í skólanum um þau einkenni sem greina má hjá börnum sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Ég þakka honum einnig fyrir allt annað sem hann nefndi í því sambandi og ég ætla ekki að endurtaka hér.
    Varðandi það sem hann vísar til um aðalnámsskrá grunnskólans og það sem hún segir um kynfræðslu er það allt af hinu góða. Hins vegar vil ég vekja athygli hans á því að í tvö kjörtímabil hefur Kvennalistinn einmitt vakið athygli á því með fsp., þáltill. og með öðrum hætti að kynfræðsla í grunnskólanum, þó hún sé í aðalnámsskrá, er í raun og veru ekki almennt framkvæmd. Það kom glögglega fram í svörum við fsp. hér á síðasta kjörtímabili. Þess vegna var einmitt samþykkt þál. um að gera verulegt átak í kynfræðslu í grunnskólum. Ég veit að ekki er ætlast til að hér sé spurt spurninga sem ekki standa skrifaðar á blaði, en þetta gefur tilefni til að spyrja: Verður þetta í raun framkvæmt? Fæst fé til að framkvæma þessa fræðslu eða ekki? Það skiptir öllu máli, þó nauðsynlegt sé að hafa góð markmið í aðalnámsskránni.
    Ég vil líka leggja áherslu á það að ég held að afskaplega mikilvægt sé að taka framhaldsskólann inn í sem markhóp og þá með fræðslu sem fer fram á annan hátt og með öðrum áherslum en í grunnskólanum að sjálfsögðu. Varðandi fagskólana vil ég líka leggja áherslu á það, og biðja hæstv. menntmrh. um það, að ekki einungis þessi starfshópur veki athygli fagstéttanna á málinu. Það sem ég er í raun að spyrja um er hvort þessi fræðsla verði tekin upp sem hluti af grunnnámi og endurmenntun starfsstéttanna. Það er auðvitað atriði sem menntmrn. sem slíkt á ekki að hlutast til um, námsefni í skólum þessara stétta. Ráðuneytið getur hins vegar skrifað þeim bréf og spurt hvort þessi fræðsla fari fram í grunnnámi og sem
endurmenntun, hvort forráðamönnum þessara skóla þyki ástæða til að taka hana upp. Ég býst við að ráðuneytið hafi fullt leyfi og í raun skyldur til að gera slíkt.
    Ég vil vekja athygli hv. þm., þeirra sem hér eru staddir nú, á að í dag er 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Tilefnin til kvennabaráttu virðast því miður sígild og mjög erfið viðureignar. Þó ýmislegt hafi áunnist á undanförnum árum miðar samt grátlega hægt, finnst manni stundum.
    Konur eiga við hugarfar og hugmyndafræði að glíma sem stendur styrkum fótum á afar gömlum merg hefðanna. Þær una ekki þeim órétti og þeirri lítilsvirðingu sem þær eru beittar og sem betur fer eru æ fleiri sem vísa henni á bug. Sú lítilsvirðing sem e.t.v. verður minnst mest á í dag í tilefni af þessum degi er sú lítisvirðing sem konum er sýnd á vinnumarkaði og felst í því að greiða þeim lægri laun

en körlum. Hún er auðvitað óþolandi. Hins vegar er sú niðurlæging og sú lítilsvirðing sem konunni er sýnd sem manneskju og felst í kynferðislegu ofbeldi, sem einmitt hefur verið til umræðu að undanförnu, kannski ljótasta hliðin á þeirri hugmyndafræði og því hugarfari sem konur þurfa að etja kappi við á hverjum degi og sumar af miklum vanmætti. Þess vegna er mikilvægt að fræða alla í þjóðfélaginu, hæstv. menntmrh., til að reyna að breyta þeim viðhorfum sem eru grundvöllur fyrir kúgun manneskjunnar, þeirrar manneskju sem er kona.