Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Mér sýnist að vandamálið sé ekki þingsins heldur forseta þingsins og það er merkileg uppákoma. Ég vil vekja á því athygli að fyrsta mál á hverju þingi, hið prentaða mál sem fyrir þingið er lagt, eru fjárlög. Og þetta mál er hluti af því vegna þess að það fjallar um það sama, þ.e. greiðslur á árinu 1990. Svo brýn er talin nauðsynin að þetta mál hafi forgang á haustin að allt verður að víkja þegar menn ákveða þá umræðu. En svo telja menn þegar verið er að fjalla um nákvæmlega sömu útgjöldin í fjáraukalögum að hægt sé að hafa það eins og hvert annað leikaraspil hér á þinginu hvort menn bindi sig á fundum annars staðar eða sinni hér þingskyldu og mæti. Ég verð að segja eins og er að mér líkar ekki þessi úrskurður forseta. Og ég er ekkert kominn til með að samþykkja að það sé þá sjálfsagt að við stjórnarsinnar séum til friðs varðandi þingsköp þó að forseti hafi samið við stjórnarandstöðuna um eitt og annað. Það getur alveg eins kallað á ófrið á mánudeginum, að menn fari hér í þingskapaumræðu til þess að fá úr því skorið hvernig stjórninni er háttað á Alþingi Íslendinga.