Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í desembermánuði sl. var samþykkt hér á Alþingi frv. sem fól í sér ráðstafanir varðandi loðdýrarækt. Reglugerð um nánari útfærslu á því hvernig staðið yrði að þessum aðgerðum varð til í landbrn. Loðdýrabændur voru skyldaðir til að senda inn umsóknir og eina ferðina enn var skafið inn að beini við öflun upplýsinga. Bændur brugðust við eins og vanalega, með þolinmæði og sendu gögnin fljótt, svo fljótt sem hægt var. En bið varð hins vegar á því að reglugerðir ráðuneytis sæju dagsins ljós þar til fyrir fáeinum vikum.
    Ekki er enn að fullu ljóst hvað þær ráðstafanir sem samþykktar voru hér á hv. Alþingi þýða fyrir hvern einstakan bónda. Þar er vinnu ekki að fullu lokið. Tíminn frá því að ljóst var að grípa þurfti til sérstakra ráðstafana vegna loðdýraræktar og þar til Alþingi samþykkti frv. í desember var langur. Flýta þarf þessari vinnu sem kostur er, ekki síst ef það sem liggur að baki aðgerðarleysis ríkisvaldsins þessa dagana er í raun að eins margir hætti í þessari atvinnugrein eins og hægt er, þá þarf það að liggja fyrir sem allra fyrst. Nú er sá tími sem pörun dýranna er að hefjast og bændur eiga þá kröfu að vita hver áform ríkisvalds, sem einu sinni atti þeim út í þessa búgrein, eru. Ég hélt, þegar umræðan um ráðstafanir vegna loðdýraræktar var hér á hv. Alþingi, að það væri vilji ríkisstjórnarinnar að þeir sem stunda refa- og minkarækt ættu kost á því ef þeir vildu og að fengnum ákveðnum aðgerðum ríkisvaldsins að halda áfram ef fyrir því væri grundvöllur.
    Það sem nú hefur gerst sýnir hins vegar allt annan vilja og eru það ljótar aðgerðir sem stjórnast af hugsunarleysi. Ég vona a.m.k. að það hafi verið hugsunarleysi og fljótfærni þegar sú ákvörðun var tekin að láta klippa af númer vegna ógreiddra gjalda af þeim bifreiðum sem flytja fóðrið til
loðdýrabúa og með því að ákveða að dýrin verði öll skorin niður. Fóðurstöðvar, þar sem nú er horft fram á lokun ef ekkert er að gert, eru að stærstum hluta í eigu loðdýrabænda sjálfra og ef um gjaldþrot verður að ræða þar, þá fara þeir að sjálfsögðu með. Ef þetta er vilji hæstv. ríkisstjórnar hefði verið heiðarlegra að segja það strax í haust og vinna síðan frv. til laga sem fæli í sér ráðstafanir þess efnis að þeir sem hafa stundað loðdýraræktina gætu staðið uppréttir og farið frá þessari atvinnugrein sinni. Ríkisvaldið ber nefnilega að stórum hluta ábyrgð á því hvernig komið er. En að taka þessa ákvörðun með þessum hætti, að loka fyrir fóðurframleiðsluna til dýranna, eru ljót vinnubrögð.