Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Tillögumaður sagði að kannski mundu menn spyrja hvers vegna till. sé nú flutt. Ég vil spyrja: Hvernig stendur á því að hún hefur ekki verið flutt fyrir löngu? Ég tel að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða og að því þurfi að gefa gaum. Það er svo margt sem styður það að koma slíkri alþjóðlegri öryggisgæslu á. Í viðbót við það sem frsm. sagði get ég bætt ýmsu, en ég tek undir hvert einasta orð sem hann sagði og tel hann hafa hugsað þetta mál nákvæmlega rétt. Til viðbótar því sem hann lagði áherslu á þurfum við auðvitað almennt að styrkja Landhelgisgæsluna. Við höfum varið okkar 200 mílur, en nú höfum við bara miklu, miklu stærra hafsvæði til að verja. Við eigum Reykjaneshrygginn, eins og menn vita, 350 mílur á haf út, og það er fullveldisréttur. Við eigum botninn og allt sem á honum er og í og erum smám saman að eignast fullan yfirráðarétt líka yfir fiskveiðunum. Þjóðir heims eru nú þannig að u.þ.b. 3 / 4 eru strandríki. Þau eru að taka þann rétt sem þau telja að sér beri. Eftir hafréttarsáttmálanum hafa ríkin fullveldisrétt yfir hafsbotninum og auðæfum hans og eru líka að eignast réttindi yfir fiskveiðunum. Við þurfum að styrkja Landhelgisgæsluna þess vegna. Það er ekki bara Reykjaneshryggur sem um er verið að ræða. Mér er sagt að þar hafi sum árin verið fiskað allt upp í 200 þús. tonn af karfa af erlendum skipum. Að vísu eru þar tveir karfastofnar og annar er með einhvers konar sýkingu eða sníkjudýri, einhver partur af honum, en nýtanlegur engu að síður, en hinn stofninn ekki. Ég kann ekki að greina nánar frá þessu. Þarna væru mikilvæg verkefni fyrir togaraflota okkar og er t.d. þeirri hugmynd hreyft að tveir togarar gætu verið um eitt gífurlega stórt troll. Það þarf stór og öflug veiðarfæri á þessum stöðum.
    Við þekkjum það nú frá því fyrir meira en 30 árum síðan að þá voru þeir kallaðir tvíburar sem voru tveir um nót á síldveiðum o.s.frv. Og tæknin núna gerir það auðvitað kleift að við getum nýtt þessi mið okkar og eigum að gera. Við eigum auðvitað að byrja að fylgjast með skipum sem þarna eru að veiðum og stugga við þeim, a.m.k. ef þau snerta botninn og koma upp með skel eða stein. Þá er hægt að færa þau til hafnar og draga fyrir lög og dóm. Þennan rétt eigum við frá 1982 með einróma samþykkt Alþingis. Við eigum þar að auki mjög mikil réttindi á gífurlega stóru hafsbotnssvæði á Hatton-Rockall slóðum og þau gleðilegu tíðindi bárust einmitt í bréfi til hæstv. forsrh. fyrir skömmu að forsætisráðherra Breta er sammála því að við eigum að ræða saman um þessi sameiginlegu réttindi, og við erum að tryggja þennan rétt okkar ef rétt er á málum haldið og það af fullri festu eins og við venjulega höfum gert í hafréttarmálunum.
    Þar að auki eigum við hafsbotnsréttindi á svæðinu milli 200 mílna Jan Mayen og Noregs í samvinnu við og sameign með Norðmönnum og síðan Dönum fyrir hönd Grænlendinga. Það er sem sagt ekkert fjarstætt, það stendur eingöngu á framkvæmdum, á

framtakssemi, að við tökum í sameiningu og samvinnu við þessar þjóðir full réttindi til hafsbotnsins allt frá Noregs- og Skotlandsströndum til Kanada, hvorki meira né minna. Og þessi réttindi eigum við auðvitað að tryggja okkur og afla þeirra með athöfnum, ekki bara athöfnum í orði, heldur líka í verki, en á hvort tveggja hefur skort og verið einkennilegur seinagangur á framgangi mála þegar allt þetta liggur á borðinu og búið að segja það tugum ef ekki hundrað sinnum, úr þessum ræðustól m.a. Þetta er þess vegna mjög tímabært mál og mjög merkilegt mál sem hér er flutt. Og ég trúi því og veit raunar að tillögumaður getur verið málafylgjumaður. Hann hefur hugsað þetta mál rétt og ég veit að hann muni fylgja þessu máli eftir og ekki skal standa á mér að gera það.
    Það er ekki vansalaust að við skulum ekki styrkja Landhelgisgæsluna meira en gert hefur verið. Hana ber varla á góma í hv. Alþingi sem hefur þó tryggt okkur öll þau réttindi sem við nú höfum yfir fiskveiðum okkar og þar með okkar lífsafkomu. Það er eins og Landhelgisgæslan sé bara ekki til, það þurfi ekkert um hana að tala, hún geti bara lognast niður. Og þó við værum nú allmiklu betur komin með því t.d. að hafa nú eitt eða tvö nýleg skip í þeim flota í staðinn fyrir t.d. tvo eða þrjá af togurunum sem eru aðgerðarlitlir og áttu helst á tímabili að koma í hvert þorp ef ekki hvert býli. Við erum nú stórtækir stundum þegar við fáum hugmyndir en gleymum þá því sem er aðalatriðið og það er auðvitað Landhelgisgæslan. Og það er ekki bara öryggissjónarmið heldur líka bein hagsmunasjónarmið, að tryggja þessi yfirráð. Og t.d. verð ég nú að segja það að mér þótti það heldur lítilfjörlegt að við skyldum, þegar ræningjar að alþjóðalögum voru að laxveiðum rétt við okkar 200 mílur, íslenska landhelgisgæslan, ekkert aðhafast annað en það að fljúga þarna yfir, að vísu, en á sama tíma eru Evrópubandalagsríki og aðrir að beita refsiaðgerðum gegn þessum skipum sem eru að veiða fyrst og fremst íslenskan lax og okkar skip eru ekki sýnd á svæði sem við eigum. Þau voru þar. Við eigum hafsbotnssvæði 200 mílur út, eða 150 mílur a.m.k., frá 200 mílunum á þessu svæði, að alþjóðalögum. Og það er ekki hægt að fá okkar skip til að sýna sig
þar, ekki einu sinni til að reka flóttann þegar einn frábær ungur maður getur gert það á nokkrum vikum sem íslenskum stjórnvöldum auðnaðist ekki að gera á heilum áratug, að tryggja réttindi sem þessi.
    Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt, að Landhelgisgæslan skuli ekki a.m.k. fá þá svigrúm til þess að gera það sem hún getur með þeim tækjum sem hún á. En sinnuleysið í þessum málum er náttúrlega með þeim endemum, verð ég að segja, að tímabært er að vekja athygli á öllum hliðum málsins og ég fagna mjög þeirri tillögu sem hér er flutt. Það eru fáir hv. þm. í salnum því miður. Ég hygg að flestir þingmenn, ef ekki allir, mundu vilja taka undir þau orð sem hv. flm. viðhafði og ég vildi ekki láta hjá líða a.m.k. að mín rödd heyrðist: Ég styð mjög eindregið að þessari tillögu verði fylgt fram, hún verði

afgreidd sem skjótast frá þinginu, og auðvitað á þessu þingi, og fylgt fram og mun leggja því lið.