Heimsverslunarmiðstöð á Íslandi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heimsverslunarmiðstöð á Íslandi. Með mér eru flm. hv. þm. Aðaheiður Bjarnfreðsdóttir og Guðmundur Ágústsson. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort ekki sé tímabært að koma upp heimsverslunarmiðstöð (World Trade Centre) á Íslandi með beinum tölvu- og fjarskiptatengslum við allar heimsverslunarmiðstöðvar og allar helstu kauphallir heimsins.``
    Í fáum orðum sagt vakir það fyrir okkur flutningsmönnum með þessari tillögu að tengja Ísland við þau 45 lönd þar sem heimsverslunarmiðstöðvar eru. Heimsverslunarmiðstöð, sem svo hefur verið þýdd á íslenskt mál, má alveg eins kalla alþjóðlega vörukauphöll, þ.e. verslunarmiðstöð þar sem fólk og fyrirtæki geta keypt eiginlega hvaða vörutegund sem er, sem seld er á opnum markaði, sykur, kaffi, gjaldeyri, málma o.fl., á því verði sem um er samið á hverjum tíma og fengið vöruna afhenta eftir samkomulagi og oft getur liðið langur tími, jafnvel mörg ár, frá þeim degi sem viðskiptin eru gerð og þangað til varan er afhent. Með beinum tölvufjarskiptum er eins hægt að fylgjast með heimsmarkaðsverði í slíkri miðstöð á hverri þeirri vörutegund sem skráð er á heimsmarkaði og fá upp gefið á hverri mínútu hvað verðið er víðs vegar í heiminum. Frægasta heimsverslunarmiðstöð í heimi er líklega í New York, World Trade Centre, en hún er til húsa í tveim stærstu skýjakljúfunum á Manhattan-eyju. Hér er því ekki um að ræða nein smávegis fyrirtæki. Á Norðurlöndum eru heimsverslunarmiðstöðvar bæði í Kaupmannahöfn og Gautaborg og hugsanlega víðar.
    Árið 1987 fór fram töluverð umræða um það á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvort æskilegt væri að koma upp slíkri miðstöð á Íslandi. Í því sambandi var unnin mjög fróðleg greinargerð sem fylgir tillögunni sem fylgiskjal og þar er leitast við að sýna hversu miklir möguleikar felast í slíkri stofnun fyrir okkur Íslendinga. Af greinargerð þessari má sjá að helstu viðskipti sem fram fara í slíkri miðstöð eru öll rekin hér á Íslandi, hjá einstaklingum, félagasamtökum, sjálfstæðum stofnunum og fyrirtækjum um allt landið. Starf margra þeirra hefur verið með ágætum hingað til, en það er ljóst að slík miðstöð mundi efla það starf og tengja það betur við önnur alþjóðleg viðskipti og verða því til góðs í hvívetna.
    Sem dæmi um þá aðila sem geta notið góðs af þessum stofnunum eru t.d. allar fjármálastofnanir landsins, útflutningsráð, Verslunarráð Íslands, Félag ísl. stórkaupmanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sjávarafurðadeild Sambandsins og hin ýmsu sölusamtök, lagmetis, landbúnaðar, fiskeldis og loðdýrabænda og hvers kyns önnur samtök, fyrirtæki og stofnanir sem starfa og vilja starfa á alþjóðlegum vettvangi.

    Landfræðilega séð er Ísland mjög hentugt til alþjóðlegra viðskipta. Með heimsverslunarmiðstöð má búast við að hægt sé að ýta stórlega undir ýmiss konar önnur alþjóðleg viðskipti. Flutningsmaður þessarar tillögu hefur t.d. lagt fram aðra tillögu um fríhafnarsvæðið við Keflavíkurflugvöll. Framtíðin er að ganga í garð hjá okkur og við verðum að nýta okkur þau alþjóðlegu tækifæri sem við höfum til viðskipta og við verðum að færa okkur inn í framtíðina jafnt og aðrar þjóðir. Við þurfum að taka upp möguleika fríhafnar á Íslandi, bæði fyrir fríiðnað, umskipun, tollvörugeymslur og fleira, en það er allt saman tíundað nánar í annarri þáltill. Íslendingar eru háðir útflutningsverslun og innflutningsverslun. Því er rétt að leita allra leiða til þess að búa þessari alþjóðlegu verslun okkar sem best skilyrði. Fram undan eru miklar breytingar á helstu markaðssvæðum Íslendinga í Evrópu, með hugsanlegum og væntanlegum Evrópustórmarkaði, og því er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast vel með frá fyrsta degi svo að við drögumst ekki aftur úr okkar nágrannaþjóðum.
    Fylgiskjal með þessari tillögu er, eins og ég sagði áður, greinargerð eftir Gest Ólafsson, framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem var unnin í janúar 1987 og er hugmyndin um heimsverslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu tekin þar ítarlega út. Þar segir höfundur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lausleg könnun á þessu máli hefur leitt í ljós að full þörf virðist vera á slíkri viðskiptamiðstöð hér á höfuðborgarsvæðinu og að góður fjárhagslegur grundvöllur ætti að vera fyrir þessari miðstöð ef samstaða hlutaðeigandi aðila næst.``
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að hafa þetta sem lokaorð og mæli með því að tillaga þessi fari til síðari umr. og hv. allshn.